Niðurstöður nýrrar rannsóknar gleðja líklega marga foreldra. Sér í lagi á þeim tímum sem við göngum í gegnum nú. Samkvæmt rannsókninni virðist ekkert benda til þess að aukin skjánotkun barna á undanförnum árum leiði til þess að þau búi yfir verri samskiptahæfni barna en áður var.

Hugmyndin kviknaði eftir samtal feðga

Douglas Downey, prófessor í félagsfræði við Ohio State University í Bandaríkjunum er fyrsti höfundur greinar sem birtist í tímaritinu American Journal of Sociology í apríl. Hugmyndin af rannsókninni kviknaði fyrir nokkrum árum síðan þegar Downey sat á veitingastað með syni sínum. Feðgarnir deildu þar um hvort samskiptahæfni barna og ungmenna væri verri í dag en áður var.

Að sögn Downey útskýrði hann fyrir syni sínum hversu slæm samskiptahæfni barna og ungmenna væri orðin. Nick, sonur hans spurði þá á móti hvernig hann gæti fullyrt það. 

Eftir nokkra rannsóknarvinnu komst Downey að því að það væru í raun engin óyggjandi svör við þessari spurningu. Hann gæti því ekki fullyrt við son sinn að mikil skjánotkun leiddi til verri samskiptahæfni. Verandi félagsfræðingur að mennt lá nokkuð vel við að Downey kæmist að því hvort þessi staðhæfing hans ætti stoð í raunveruleikanum.

Tveir hópar bornir saman

Á síðastliðnum árum hafa Downey og samstarfsfélagi hans, Benjamin Gibbs dósent í félagsfræði við Brigham Young University rannsakað málið. Við rannsóknina sem birt var í apríl voru gögn sem safnað var fyrir rannsókn á vegum National Center for Educational Statistics yfir þroska barna, nýtt til að bera saman tvo hópa. Annars vegar voru gögn yfir 19.150 nemendur sem byrjuðu leikskólagöngu sína árið 1998 skoðuð og hins vegar gögn 13.400 nemenda sem hófu leikskólagöngu árið 2010. Nemendunum var fylgt eftir til 11 ára aldurs til að meta samskiptahæfni þeirra.

Gögnin byggðu á mati kennara sem mátu hvern nemanda sex sinnum frá upphafi leikskólagöngu þeirra allt til loka rannsóknartímabilsins. Að auki mátu foreldrar eigin börn við upphafi og enda leikskólagöngunnar og í lok fyrsta bekkjar. 

Ekki munur á kynslóðunum

Byggt á mati kennaranna var ekki munur á hópunum tveimur þegar kom að samskiptahæfni. Í raun kom í ljós að samskiptahæfni barnanna sem hófu leikskólagöngu sína árið 2010 var ívið betri en þeirra sem hófu hana árið 1998. Það sama átti við hjá börnum sem notuðu skjái hvað mest í hópnum. 

Downey og Gibbs greindu þó að örlítill munur var á þeim nemendum sem spiluðu tölvuleiki á netinu og notuðu samfélagsmiðla margoft á dag. Samskiptahæfni þeirra var minni en þeirra sem notuðu þessa miðla í minni mæli. Munurinn var þó ekki mikill að mati höfunda greinarinnar.

Skjánotkun virðist ekki hafa merkjanleg áhrif

Á heildina litið var niðurstaðan sú að aukin skjánotkun hefur ekki neikvæð áhrif á þroska barna þegar kemur að samskiptahæfni. Downey bendir í þessu samhengi á að hér sé kannski gamalt og gróið viðhorf til staðar. Eldri kynslóðir hafa nefnilega tilhneigingu til þess að hafa áhyggjur af yngri kynslóðum og samband þeirra við tækninýjungar. 

Algengt er að fullorðnir einstaklingar telji að ný tækni og vaxandi notkun á henni hljóti að hafa neikvæð áhrif á þeir kynslóðir sem alast upp með þeim. Það virðist þó almennt vera svo að þessar yngri kynslóðir spjara sig líkt og kynslóðirnar á undan gerðu.

Greinin birtist fyrst í prentuðu riti og á vefsíðu Stundarinnar.