Wikipedia commons

Ný rannsókn sýnir fram á að bólusetning á börnum gegn rótaveiru í Malaví getur dregið úr ungbarnadauða af völdum niðurgangssjúkdóma um þriðjung. Þetta er í fyrsta sinn sem tekist hefur að sýna fram á að bólusetning gegn rótaveiru hafi slík áhrif í lágtekjulandi.

Rannsóknin var framkvæmd af vísindamönnum við Liverpool háskóla, Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health, auk samstarfsaðila í Malaví. Niðurstöðurnar birtust í tímaritinu The Lancet Global Health. Þær styðja við núverandi stefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar þess efnis að bólusetningaráætlanir allra landa skuli innihalda bólusetningu gegn rótaveiru.

Algengasta orsök niðurgangssjúkdóma í börnum
Niðurgangssjúkdómar valda 17% af dauðsföllum ungabarna, utan nýbura á heimsvísu. Rótaveira er þar algengasta orsökin og má rekja um þriðjung innlagna barna vegna alvarlegs niðurgangs til sýkingar af völdum hennar. Árið 2013 dró veiran 215.000 börn í heiminum til dauða. Af þeim voru 121.000 í Afríku. Auk dauðsfallanna veiktust yfir tvær milljónir barna í heiminum alvarlega af völdum veirunnar á sama ári. Í langflestum tilfellum eru dauðsföll af völdum veirunna takmörkuð við þróunarlönd og hafa bólusetningar gegn sjúkdómnum dregið úr alvarlegum tilfellum á Vesturlöndum.

Rótaveiran berst á milli fólks með saurmenguðum mat eða drykk. Veiran sýkir frumur í smágirni sem leiðir til meltingabólgu. Nær öll börn í heiminum koma til með að smitast af rótaveiru að minnsta kosti einu sinni fyrir fimm ára aldur. Við hvert smit verða einkennin vægari vegna þess að líkaminn byggir upp ónæmi gegn veirunni. Sjaldgæft er að sýking af völdum veirunnar hafi áhrif á fullorðna einstaklinga.

Víðtæk rannsókn á hátt í 50.000 börnum
Til að meta áhrif bólusetningar gegn veirunni í lágtekjulandi framkvæmdi rannsóknarhópurinn víðtæka rannsókn í Malaví í suðaustanverðri Afríku. Rannsóknin tók til barna sem fædd voru á tímabilinu 1. Janúar 2012 til 1. Júní árið 2015 og náði því til 48.672 barna í landinu.

Í rannsóknum sem þessum er gjarnan stuðst við gögn yfir fæðingar og dauðsföll í landinu. Í tilfelli Malaví og annarra lágtekjulanda er illa haldið utan um slíkar tölur. Vegna þessa fór rannsóknarhópurinn þá leið að vísindamennirnir sjálfir, auk teymis þeirra heimsóttu heimili ungabarna í landinu á fjögurra ára tímabili. Alls skipaði rannsóknarteymið 1.100 manns sem heimsóttu heimili í 1.832 bæjum í landinu á rannsóknartímanum. Í heimsóknum sínum safnaði teymið meðal annars upplýsingum um hvort börnin hafi verið bólusett eða ekki og hvort þau hafi lifað út fyrsta aldursár sitt.

Bólusetning bjargar lífum
Út frá gögnunum sem safnað var kom í ljós að börn sem voru bólusett gegn rótaveiru voru 34% ólíklegri til að deyja af völdum niðurgangssjúkdóma en þau sem ekki voru bólusett. Þessar tölur eru í samræmi við það sem sést í meðaltekju löndum.

Rannsóknarhópurinn segir niðurstöðurnar sérstaklega hvetjandi í ljós þess að meirihluti dauðsfalla af völdum niðurgangssjúkdóma sé að finna í Afríkulöndum sunnan miðbaugs. Það má því ætla að með aukinni tíðni bólusetninga gegn rótaveiru væri hægt að draga markvert úr dauða barna af völdum niðurgangssjúkdóma.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að bólusetning gegn rótaveiru dregur úr innlögnum á sjúkrahús í lágtekjulöndum. Þessi rannsókn sýnir aftur á móti einnig fram á að bólusetning í þeim löndum bjargi lífum, að sögn Dr Naor Bar-Zeev eins höfunda greinarinnar.

Eins og staðan er í dag er bólusetning gegn rótaveiru ekki stöðluð bólusetning í öllum löndum heims. Höfundar greinarinnar telja að þessu beri að breyta og segja skilaboð greinarinnar vera þau að öll lönd ættu að bólusetja börn gegn rótaveiru.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar