Margir kannast við að vera í „svefnskuld“ eftir langa vinnuviku. Dagarnir einhvern veginn rúma ekki öll þau verkefni sem við ætlum okkur að leysa svo það bitnar á svefninum. Til að bæta upp fyrir það leyfum við okkur að sofa lengur um helgar, en það er líklega ekki lausnin, samkvæmt rannsókn sem birtist í Current Biology.

Þegar við fáum ekki nægan svefn fer líkamstakturinn úr skorðum. Líkaminn er m.a. orkulaus og við sækjumst í að borða meira til að viðhalda orkuþörfinni. Þetta getur t.d. leitt til aukinnar líkamsþyngdar, auk þess minnkar insúlínnæmi líkamans sem þýðir að líkaminn á erfiðara með að taka upp orkuna sem við gefum honum.

Í rannsókn hópsins við Háskólann í Colorado voru ýmsir lífeðlisfræðilegir þættir skoðaðir eins og insúlín næmi og líkamsþyngd. Einnig var fylgst með þátttakendum og orkuinntöku þeirra yfir daginn.

Þátttakendum var skipt í þrjá hópa, einn hópurinn fékk nægan svefn (9 klst) 9 nætur í röð, sá næsti 5 klst svefn 9 nætur í röð og sá þriðji fékk 5 klst svefn í 5 nætur, 2 nætur þar sem þátttakendur réðu svefni sínum sjálfir og svo 2 nætur þar sem svefninn var styttur niður í 5 klst á ný.

Hóparnir tveir sem ekki fengu nægan svefn sýndu strax breytta orkuinntöku, þ.e. þau sóttu öll í meiri mat á kvöldin auk þess minnkaði insúlín-næmi þeirra. Þetta ástand var stöðugt meðan hóparnir fengu ekki nægan svefn.

Þegar hópur númer þrjú fékk svo að bæta upp svefninn sinn, „um helgina“, minnkaði orkuþörfin og þau hættu að snarla á kvöldin. En þrátt fyrir það breyttist insúlínnæmið ekki.

Þegar kom svo aftur að svefnlitlum nóttum var hópurinn verr staddur í samanburði við hópinn sem svaf einungis 5 klst 9 nætur í röð. Ástæðan var sú að auk þess að hafa meiri orkuþörf og vera með minna insúlinnæmi þá var líkami þátttakenda einnig dottinn úr takti, þ.e. líkamsklukkan hafði seinkað sér um þá klukkustund sem þau sváfu lengur yfir helgina.

Líkamsklukkan okkar passar uppá að við seytum réttum hormónum á réttum tíma, sem aftur stjórnar svefnmynstri okkar og svefngæðum. Það má því segja að með því að bæta upp svefninn um helgar erum við að eyðileggja svefninn fyrstu tvær til þrjár næturnar vikuna á eftir.

Skilaboð rannsakenda eru því, sennilega svipuð og við höfum heyrt áður, að nægjanlegur og umfram allt reglulegur svefn er lykillinn að góðri heilsu. Þetta eru kannski ágætisskilaboð inní helgina.