Þær ótrúlegu fréttir birtust á vef Háskólans í Montréal í septembermánuði að fundist hefur vatn á plánetu í öðru sólkerfi. Þessi pláneta ber nafnið K2-18b, ekki kannski sérlega þjált nafn en nafnagiftina má skýra með kerfisbundnu nafnakerfi stjörnufræðinga sem vinna við að skoða hnetti utan okkar sólkerfis.

Plánetan er staðsett í sólkerfinu K2-18, sem er um í 111 ljósára fjarlægð frá okkar sólkerfi, og er að sögn vísindamannanna lífvænleg, líkt og jörðin. Þarna í einungis 111 ljósárafjarlægð gætu því verið næstu nágrannar okkar jarðarbúa, en til upprifjunar þá er 1 ljósár 9.460.730.472.580.800 metrar eða tæplega 9,5 billjarður metra. 

Erfið leit

Síðan stjörnufræðingar uppgötvuðu að plánetur á pari við reikistjörnurnar í okkar sólkerfi fyrirfinndust utan Sólkerfisins hafa vísindamenn leitað að möguleikanum að lífi annars staðar en á Jörðinni. Fyrsta skrefið í þessari leit var að uppgötva önnur sólkerfi, þar sem sólir og reikistjörnur þeirra eru til staðar.

Í dag hafa stjörnufræðingar skilgreint fjöldan allan af sólarkerfum sem innihalda reikistjörnur þó fæstar þeirra séu lífvænlegar. Samkvæmt niðurstöðum Kepler Satillite Mission, gætu um það bil 5 – 20% þeirra reikistjarna sem fyrirfinnast haft aðstæður til að fóðra einhvers konar lífsform.  

Pláneturnar þar sem leitað er að lífi mega ekki vera of kaldar en ekki heldur of heitar. Það þýðir að fjarlægð þeirra frá þeirra eigin sólu þarf að vera rétt. Þar er leitað að lofthjúp sem svipar til andrúmslofts jarðarinnar og ein stærsta forsendan sem við setjum okkur er að þar sé að finna vatn. 

Hvers vegna leitum við að vatni á öðrum hnöttum?

Við gerum okkur flest grein fyrir því hversu mikilvægt vatn er okkur í daglegu lífi. Tilhugsunin um vatnslausan dag er hryllileg fyrir margra hluta sakir. Sem ofdekraðir vesturlandabúar getum við haft áhyggjur af því að komast ekki í bað vegna vatnsskorts, geta ekki sturtað niður úr klósettinu eða það sem er auðvitað verst, geta ekki drukkuð hreint vatn.

Vatn er nefnilega mikilvægt líkama okkar á svo margan hátt. Öll þau efnahvörf sem eiga sér stað í líkamanum eru háð því að þar séu sameindirnar leystar upp í þessum dásamlega lífræna leysi, vatni. 

Vatn (H2O) er skautuð sameind, það þýðir að þegar sameindir búa í því eins og gerist inní frumunum okkar þá er auðvelt fyrir efnahvörf að eiga sér stað.

Það er þess vegna sem við gerum ráð fyrir að líf á öðrum hnöttum sé háð því að vera með fljótandi vatn í kringum sig. Við getum ekki útilokað að líf þrífist í annars konar umhverfi, en með því að leita að vatni erum við í það minnsta að þrengja leitina örlítið, sem getur reynst erfitt þegar allur alheimurinn liggur undir.

Hvernig sést vatn í slíkri fjarlægð?

K2-18b getur varla talist í næsta nágrenni við okkur, þó hugsanlega geymi hún okkar nánustu granna. Fjarlægðin í K2-18b er svo mikil að það er ekki endilega hlaupið að því að leita að vatni á henni.

Sem betur fer hefur tækninni fleygt þannig fram að við getum metið efnasamsetningar pláneta úr þessari fjarlægð. Við þurfum ekki að fara á staðinn heldur er hægt að notast við stjörnusjónauka og myndir frá þeim.

Með því að skoða myndir úr fyrirbærum eins og Kepler og Hubble stjörnusjónaukum er hægt að púsla saman þekkingu um fjarlæga hnetti. Mælingar á efnasamsetningu hnatta eru tilkomnar vegna litrófsgreininga af hnöttunum.

Myndirnar sem teknar eru af þeim sýna hvernig mismunandi ljós síast frá þeim. Frumefni gleypa í sig mismunandi liti litrófsins. Með því að fá margar og skýrar myndir af fyrirbærum sem finnast úti í geimnum er þannig hægt að greina úr hverju þau eru gerð.

Hvernig pláneta er K2-18b?

K2-18b er ekki það sem kallast getur tvíburastjarna jarðarinna. Hún er um það bil 9 sinnum massameiri en jörðin. Fjarlægð hennar frá sólu er minni fjarlægð jarðarinnar frá Sólinni. En sólin, í sólkerfinu K2-18, sem er M3 dvergstjarna, er ekki jafn orkumikil og Sólin okkar. Þar af leiðandi fær K2-18b svipaða orku frá sinni sólu og við fáum hér á jörðinni. 

Vatnshjúpurinn sem fannst virðist vera í lofthjúpnum, það er að segja á gufuformi. En vísindamennirnir sem hafa nú eytt síðastliðnum fimm árum í að kynna sér sólkerfið K2-18, segja að þar séu aðstæður hentugar fyrir hringrás vatns eins og hún fyrirfinnst hér. Þeir telja því að gufuhjúpurinn falli til plánetu sem rigning við réttar aðstæður.

Lofthjúpurinn er þó svo þykkur að þar er ekki líklegt að finna lífsform á sama skala og á jörðinni. 

Hvaða þýðingu hefur þetta?

Kaldrifjuðust neysluseggir hafa stundum bent á að þegar maðurinn hefur klára Jörðina og allar hennar auðlindir, eins og við stefnum hraðbyri á, getum við í versta falli flutt okkur á næstu lífvænlegu plánetu sem við finnum. Muni þeirra spádómar rætast er K2-18b því mögulegt framtíðarheimili barnanna okkar eða barnabarna.

Slík framtíðarsýn er þó hvorki siðferðilega réttlætanleg né raunhæf, að minnsta kosti ekki eins og sakir standa. Að finna líf á öðrum hnöttum hefur lengi verið eftirsóknarvert af svo mörgum öðrum ástæðum. Þessi uppgötvun gefur okkur til að mynda tækifæri til að skoða upphaf lífsins frá nýju sjónarhorni. 

Mögulega fáum við svör við spurningum okkar um upphaf okkar lífs. Hvaðan kom lífið til jarðarinnar? Myndaðist lífið hér? Er DNA eina erfðaefnið sem gengur upp til að mynda líf? Eru vinnueiningar lífsformsins prótín? Myndast prótínin með sömu amínósýrum og við notum?

Spurningarnar eru óteljandi og líklega mun þeim fjölga í réttu hlutfalli við fjölda svara sem við fáum. En ein stærstu áhrifin sem líf á öðrum hnöttum munu hafa á tilvist okkar hér á jörðinni er fullvissan um að við erum ekki ein, það er nefnilega alveg ótrúlega yfirþyrmandi tilhugsun!

Fréttin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.