Erfðabreyttar lífverur hafa lengi vel verið bitbein vísindamanna og almennings. Oft einkennist umræðan af skorti á upplýsingum eða vilja til að skilja sjónarhorn andstæðra skoðanna, það er a.m.k. tilfinning þess sem hér ritar varðandi umræðunar sem fer fram á Íslandi.

Hver sem tilfinning manna er gagnvart erðfabreytingum þá eru reglugerðir um sölu erfðabreyttra dýra mjög strangar og í Bandaríkjunum gilda sömu lög um framleiðslu erfðabreyttra matvæla og lyfjaframleiðslu. Þetta þýðir að til að koma erfðabreyttu kjöti á markað þarf framleiðandi að standast svipaðar kröfur og lyfjaframleiðandi sem framleiðir lyf fyrir veika einstaklinga.

Hingað til hefur einungis ein erfðabreytt lífvera af dýraríkinu staðist skoðun og er það lax sem vex í Kanada. En er nauðsynlegt að hafa svona þröngan ramma utan um erfðabreytt matvæli? Að öllum líkindum ekki!

Lífvera sem er erfðabreytt með þeirri sameindatækni sem hefur þróast frá því að þessi þröngi stakkur var sniðinn er að öllum líkindum öruggari matvara en lífvera sem hefur verið „erfðabreytt“ með hefðbundnum kynbótum. Nútíma sameindatækni er nægilega nákvæm til að tryggja það að breytingarnar eigi sér bara stað þar sem vonast er eftir að þær eigi sér stað.

Svo neytendur séu öruggir ætti auðvitað að vera sjálfsagt að skoða hvort slíkar breytingar leiði nokkuð af sér aukaafurðir sem gætu verið neytendanum hættulegar. Sem dæmi mætti skoða ef nýtt gen er sett inn í erfðamengi lífveru, hvort genið leiði ekki örugglega af sér prótínið sem búist var við og hvort þetta prótin taka ekki upp það starf í lífverunni sem áætlað var.

Það að borða erfðaefni sem hefur berið breytt á rannsóknarstofu er eitt og sér ekki hættulegt, ekki frekar en það er hættulegt að borða erfðaefni sem ekki hefur verið breytt. Þó núverandi reglugerðir bendi kannski til þess að svo sé þá ætti framleiðandinn í raun bara að sýna fram á að breytingin leiðir ekki til myndunar á neinu hættulegu.

Það sem flækir málið svo enn meira er að kjötframleiðsla í heiminum er nú þegar meiri en umhverfið ræður við. Því má spyrja sig hvort breytingar á lífverum sem rækta á til neyslu séu ekki siðlausar, óþarfar eða í besta falli tilgangslausar nema þær eigi einmitt að gegna því hlutverki að við getum dregið úr kostnaði umhverfisins við framleiðsluna.

Í sumum tilfellum hafa vísindahópar verið að skoða breytingar sem slökkva á eiginleikum sem ræktendur reyna að losa dýrin við, oft með tilheyrandi sársauka, má þar nefna vöxt horna eða annað sem ekki nýtist til matvæla. Erfðabreytingar af slíku tagi gera ræktunina þá að einhverju leiti mannúðlegri, eru slíkar breytingar þá betri? Eru þær kannski verri?

Í myndbandinu hér að neðan má sjá stutt myndskeið þar sem þessi siðferðiklemma er tekin fyrir, en til að komast til botns í henni þarf raunveruleg umræða um erfðabreytingar og erfðabreytt matvæli að fara fram í samfélaginu. Þá skiptir ekki máli hver öskrar hæst heldur að allir hafi aðgang að réttum upplýsingum og að allir séu tilbúnir að skoða hlutina frá sjónarhornum annarra, jafnvel þó þeir séu á öndverðu meiði í þessum málum.

Hér er hægt að lesa áhugaverðan pistil um framtíðarsýn Claudiu Geib hjá Futurism um þessi mál.