Sama hvernig tækninni fleygir fram þá breytist sú grunnþörf að við þurfum öll að borða ekki sérlega mikil. Tæknin hefur hins vegar áhrif á það hvað við borðum og kannski eru þau áhrif ekki jákvæð.

Samband okkar við næringuna okkar hefur breyst síðan við fórum að rækta okkur mat til að borða. Í fáum þjóðfélögum í dag gildir að borða einungis til að halda lífi. Þessu er auðvitað misjafnt farið í heiminum en matur og samvera við nánustu gildir nær alls staðar.

Matur og skemmtun

Hvar sem komið er niður er matartíminn félagsleg athöfn. Matur er oft tengdur við fögnuð, hvort sem við sjáum fyrir okkur árshátíðir eða bara saumaklúbb þá má nánast bóka að þar verður borðað.

Í vestrænum samfélögum er matur og neysla hans jafnvel í óhófi, enda sjáum við aukningu í lífstílstengdum sjúkdómum á borð við offitu. En þar sem framboð á mat er orðið svo mikið sem raun ber vitni þá búum við líka við þann munað að borða nánast einungis það sem okkur þykir bragðgott og það hvenær sem er ársins. En hvað við borðum hefur ekki bara áhrif á holdarfar heldur líka heilsu okkar.

Sjúkdómsbyrði tengd matarræði

Með samantekt á matarræði um allan heim tók rannsóknarhópur saman upplýsingar um matarræði 195 þjóða. Upplýsingarnar voru mestmegnis samantektir úr vísindarannsóknum sem unnar höfuð verið á árunum 1980 til 2016. Einnig notaðist rannsóknarhópurinn við sölutölur til að meta neyslu á ákveðnum efnum eins og t.d. trans-fitu.

Matarræðistengdir áhættuþættir voru svo metnir ásamt alþjóðlegum tölum um sjúkdóma og dauðsföll í heiminum. Með því að skoða alla þessa gagnagrunna og bera þá saman við hvern annan var hægt að meta hversu mikil áhrif matarræðið hefur á heilsu fólks í heiminum.

Samkvæmt rannsókninni má rekja töluvert af dauðsföllum til matarræðis. Benda niðurstöðurnar til þess að 20% dauðsfalla í heiminum megi rekja til ónógrar inntöku næringarefna. Það kemur kannski á óvart en inntaka sykurs og óhollrar fitu (t.d. skyndibita) er þar ekki efst á lista. Það sem trónir efst á listanum yfir helstu áhættuþætti í matarræði er miklu frekar skortur á ákveðnum næringarþáttum.

Heiminn skortir gróft korn og ávexti

Samkvæmt rannsókninni má á árinu 2017 skýra 3 milljónir dauðsfalla með of mikilli inntöku salts, aðrar 3 milljónir með skorti á grófu korni í fæðunni og dauða 2 milljóna með skorti á ávöxtum í matarræðinu.

Þá eru ótalin þau áhrif sem matarræðið hefur á þróun langvinnra sjúkdóma sem geta skert lífsgæði fólks ævilangt. Samtals telja rannsakendur að árið 2017 hafi lífsgæði 217 milljóna manna skerts vegna ofneyslu salts eða skorts á ofantöldum næringarefnum.

Þessar tölur hljóma ekki sérlega vel, sér í lagi ef koma hefði mátt í veg fyrir brot af þessum dauðsföllum með betri fræðslu um nauðsynlega næringu. Það er þó að sjálfsögðu hvers og eins að fylgja þeim ráðleggingum sem gefnar eru út og þar liggur hundurinn oft grafinn.

Allir settir undir sama hatt

Ákveðinn galli er þó á rannsókninni sem hér um ræðir. Þar er unnið samkvæmt ákveðnum næringarviðmiðum sem gilda að mestu leiti í vestrænum heimi. Þær tölur sem dregnar eru upp hér eru því meðaltal yfir allan heiminn sem er heimfært á allar þjóðir burtséð frá öðrum þáttum.

Upplýsingar um matarræði, saltinntöku og sjúkdóma eða dauðsföll eru einnig mismunandi eftir því hvar er gripið niður í heiminum. Gagnagrunnurinn sem unnið var með í þessari tilteknu rannsókn geymdi í sumum tilfellum eingöngu gögn frá hinum vestrænu ríkjum þar sem fleiri rannsóknir hafa verið framkvæmdar en t.d. í Asíu.

Þar að auki þyrfti að taka tillit til hversu mikil sjúkdómstengd áhætta er meðal þeirra þjóðarbrota sem verið er að skoða hverju sinni. En samsetning matarræðis, erfðafræðilegur bakgrunnur sem og umhverfiþættir spila allir stóra rullu í því að ýta undir eða koma í veg fyrir sjúkdóma.

Skortur vegur meira en ofneysla

Rannsakendur sáu ekki ástæðu til að vara sérstaklega við skyndibita eða sætindum. Mögulega vegna þess að óhollt matarræði var ekki beint í sigtinu hjá rannsóknarhópnum.

Önnur hugsanleg skýring er sú að óhollt matarræði eitt og sér hefur ekki svo sterk áhrif. Ástæða þess að við ættum ekki að borða óhollan mat er kannski sú að þá er minna pláss fyrir alla þá næringu sem er okkur nauðsynleg.