Vísindamenn hafa lengi klórað sér í höfðinu yfir því af hverju samkynhneigð hegðun hefur þróast í eins mörgum og ólíkum dýrategundum og raun ber vitni. Ný tilgáta horfir á málið frá öðru sjónarhorni en áður og leggur til að samkynhneigð hegðun hafi í raun nær alltaf verið til staðar, fremur en að hafa þróast sjálfstætt hjá mismunandi tegundum.

Samkynhneigð hegðun skráð hjá yfir 1.500 tegundum

Samkynhneigð hegðun kallast það þegar dýr sýna kynhegðun gagnvart dýri af sama líffræðilega kyni og það sjálft. Þessi hegðun þýðir þó ekki endilega að viðkomandi dýr sýni alltaf kynhegðun gagnvart dýrum af sama kyni. Samkynhneigð hegðun hefur í dag verið skráð hjá vel yfir 1.500 dýrategundum og virðist því vera ljóst að slík hegðun er tölvert algeng innan dýraríkisins.

Það er augljóst mál að þegar kemur að því að fjölga einstaklingum af ákveðinni tegund kemur samkynhneigð hegðun tegundum ekki að miklu gagni. Allt frá dögum Darwins hefur því vafist fyrir vísindamönnum af hverju þessi hegðun þróaðist til að byrja með.

Tegundirnar eins ólíkar og þær eru margar

Líkt og áður sagði er fjöldan allan af dýrategundum að finna sem stunda samkynhneigða hegðun. Tegundirnar er jafn ólíkar og þær eru margar en meðal annars hefur samkynhneigð hegðun verið skráð í tegundum krabba, flugna sem og hjá körtum, mörgæsum og kúm.

Samkynhneigð hegðun er auk þess langt frá því eina kynhegðunin sem dýr sýna án þess að hún eigi möguleika á því að leiða til afkvæma. Fjölmörg dýr sýna til dæmis kynhegðun gagnvart dauðum dýrum, dauðum hlutum og dýrum af annarri tegund.

Af hverju ekki tvíkynhneigð?

Þróunarkenning Darwins gengur út á það að þeir hæfustu lifa af. Þeir hæfustu í þessum skilningi eru þeir sem ná að lifa af nógu lengi til að koma sínu erfðaefni áfram til næstu kynslóða. Byggt á þessu hefur því lengi verið gengið út frá því að gagnkynhneigð í dýraríkinu sé í raun grunnástand hjá tegundum.

Julia Monk, doktorsnemi við Yale háskóla í Bandaríkjunum birti nóvember 2019 grein í tímaritinu Nature Ecology & Evolution ásamt samstarfsfélögum sínum sem fjallar um nýja tilgátu í þessum efnum.

Tilgátan gengur út á það að horfa á málið frá öðru sjónarhorni: að samkynhneigð hegðun sé í raun sú hegðun sem lengur hefur verið við lýði. Þannig hafi fornar dýrategundir fremur sýnt kynhegðun gagnvart einstaklingum af sama kyni ásamt þeirri gagnkynhneigðu kynhegðun sem þurfti til til þess að fjölga einstaklingum innan tegundarinnar.

Í grein sinni leggur rannsóknarhópurinn til að í stað þess að spyrja af hverju dýr sýni samkynhneigða hegðun ætti spurningin fremur að vera ”af hverju ekki?”.

Engar ályktanir dregnar um kynhegðun mannfólks

Þó svo að við mannfólkið eigum vissulega margt sameiginlegt með öðrum dýrum er umræða um kyn og kynhneigð innan okkar eigin tegundar viðkvæm. Í grein sinni taka höfundar hennar sérstaklega fram að í greininni geri þau greinamun á vísindalegum hugtökum varðandi kyn og kynhegðun í dýraríkinu og þeim sem við mannfólkið höfum tileinkað okkur varðandi kyn og kynhneigð.

Þannig er ekki verið að draga neinar ályktanir um kynhneigð og kynhegðun mannfólks og hvernig við horfum á hana. Fremur er markmið hópsins að niðurstöður þeirra komi til með að vekja góða og varfærna umræðu um það hvernig kynhegðun hafi þróast í dýraríkinu. 

Að auki vonar hópurinn að umræðan muni taka til þess fjölbreytileika sem við þekkjum varðandi kyn og kynhneigð mannfólks. Þau benda einnig á að það séu mögulega viðhorf mannkynsins í gegnum tíðina, varðandi hvernig við höfum talað um kynhneigð og kyn okkar eigin tegundar sem hefur litað umræðuna um aðrar dýrategundir.

Viðhorf okkar litað af gagnkynhneigðu samfélagi mannfólks

Niðurstaða rannsóknarhópsins er sú að ef einhver önnur hegðun hefði verið skráð hjá svo fjölbreyttum hópi dýra er allar líkur á því að niðurstaðan væri sú að hegðunin væri ævagömul. Það að það hafi ekki gerst í þessu tilfelli skýrist líklega af því að mannfólkið hefur horft á málið með gagnkynhneigðum gleraugum samfélagsins sem við lifum í.

Rannsóknarhópurinn telur að frekari rannsóknir á þessu sviði komi til með að sýna fram á að algengara sé að samkynhneigða hegðun sé að finna innan tegundar en að gagnkynhneigð hegðun sé sú eina sem er til staðar.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.