Áhrif marijúana á mannslíkamann hafa hingað til lítið verið rannsökuð. Vitað er að ýmis efni í marijúana geta haft bæði góð og slæm áhrif á fólk. Í fyrsta lagi valda efnin vímu, langvarandi notkun hefur veirð tengd við geðsjúkdóma svo sem þunglyndi en á sama tíma sýna rannsóknir jákvæð áhrif marijúana sem lyf, oft notað til að verkjastilla en einnig hafa m.a. birst rannsóknir þar sem marijúana er notað við flogaveiki.

Í nýlegri rannsókn koma fram tengsl marijúana notkunar og kynlífs. Rannsóknarhópurinn notaðist við spurningalista sem lagður hafði verið fyrir bandarískt þýði. Spurningalistinn var hluti af stærri rannsókn en í þessu verkefni var áherslan lögð á notkun þátttakenda á marijúana og kynhegðun þeirra og úrtaksstærðin því um 50.000 manns.

Í ljós kom að þátttakendur sem neyttu marijúana daglega stunduðu marktækt oftar kynlíf samanborið við þá sem aldrei neyttu marijúana. Mismunurinn á tíðni kynlífs-iðkunar var um það bil 20%, hjá konum sem neyttu marijúana var fjöldi skipta 7,1 sinni í mánuði samanborið við 6 sinnum ef þátttakendur neyttu ekki marijúana. Hjá körlum mátti sjá örlítið meiri aukningu eða úr 5,6 skiptum á mánuði þegar marijúana var ekki neytt uppí 6,9 skipti í mánuði hjá þeim sem notuðu marijúana daglega.

Þrátt fyrir marktækan mun í kynhegðun þeirra sem neyta marijúana og þeirra sem það gera ekki, er erfitt að segja til um orsakasamhengið. Það er ekki víst að aukin neysla ýti undir tíðara kynlíf eða að því oftar sem einstaklingar stunda kynlíf því líklegri séu þau til að neyta marijúana.

Það er þó ekki útilokað að neyslan auki kynhvöt einstaklinga, en aðrar rannsóknir hafa sýnt að u.þ.b. helmingur þeirra sem neyta marijúana segja það hafa jákvæð áhrif á kynhvöt sína. Hvert orsakasamhengið er á mögulega eftir að koma í ljós seinna.

En þrátt fyrir óljósa orsök og afleiðingu má þó segja að þessi tenging er nokkurs konar mótsögn við aðrar rannsóknir sem tengja marijúana notkun við þunglyndi, kvíða og aðra neikvæða þætti. Kynlíf og iðkun þess hefur nefnilega verið tengt við alls kyns jákvæða þætti eins og vellíðan, tengslamyndun og minni streitu.

Það á þó að öllum líkindum við hér eins og svo oft áður að meðalhófið er best að stunda. Þó marijúana hefði áhrif á kynhvötina, er ekki víst að tíðara kynlíf geti núllað út þau neikvæðu áhrif sem einstaklingar útsettir fyrir t.d. andlegum veikindum gætu upplifað eftir neyslu marijúana. Allt kemur þetta líklega niður á breytileika einstaklinga en ekki hið vísindalega útreiknaða meðaltal.