alcohol

1. Áfengi er samheiti yfir drykki sem innihalda etanól. Etanól tilheyrir hópi efna sem kallast alkóhól, mörg önnur efni falla einnig þar undir t.d. tréspíri. Áfengi er eina löglega vímuefnið á Íslandi. Þrátt fyrir að vera vímuefni hefur það fylgt menningu mannsins í svo langan tíma að neysla þess þykir mun sjálfsagðari en neysla annarra vímuefna.

2. Þegar áfengis er neytt er það tekið beint upp án þess að sameindin sé melt, enda er etanól lítil sameind. Hluti áfengisins er tekinn upp í maga en stærstur hluti fer inn fyrir meltingarveginn í smáþörmunum.

3. Etanólið er mjög orkurík sameind en það er brotið niður að stærstum hluta í lifrinni. Til að brjóta etanólið niður höfum við, mannfólkið, þrjú ensím: alkóhól dehýdrógenasa, cýtókróm P450 og katalasa. Eitt þeirra, alkóhól dehýdrógenasi, er langvirkast í því að brjóta niður alkóhól í líkamanum. Þegar það er að störfum eru tvær vetnissameindir teknar af etanólinu og eftir stendur aldehýð sem heldur svo áfram í niðurbroti. Með hverri vetnissameind sem fæst í niðurbroti verður til NADH, orkueining fyrir frumurnar.

4. Ensímið, alkóhól dehýdrógenasi, finnst í mismiklu magni í líkömum okkar en að meðaltali tjá konur minna af þessu ensími samanborið við karla. Sem sagt, konur brjóta etanólið að meðaltali hægar niður og þurfa því minna magn af áfengi til að verða fyrir áhrifum.

5. Etanól hefur slævandi áhrif á heilann. Sá hluti heilans sem áfengið hefur fyrst áhrif á stjórnar hömlum okkar. Það þýðir að þegar áfengis er neytt losnar um hömlur og við verðum líklegri til að gera hluti sem við myndum ekki framkvæma ef við værum alsgáð.

Heimildir
Vísindavefurinn
HAMS: Harm Reduction for Alcohol