Round-up hefur verið mikið í umræðunni síðastliðna viku eftir að fyrirtækið Monsanto, sem setti efnið fyrst á markað, var dæmt skaðabótaskylt gagnvart garðyrkjumanni sem fékk non-Hodgkin eitilfrumukrabbamein. Maðurinn hafði notað efnið mikið í vinnu sinni og telur hann og dómurinn sem dæmdi honum í hag að Monsanto hafi ekki veitt nægjanlegar upplýsingar um hversu hættulegt efnið getur verið.

Deildar meiningar hafa verið um öryggi efnisins Round-up í langan tíma en það er mjög mikið notað í landbúnaði, sérstaklega eftir að fyrirtækið Monsanto setti á markað erfðabreyttar plöntur sem geta vaxið, þrátt fyrir háan styrk efnisins í umhverfinu. Round-up drepur þá einungis illgresið, en plantan sem á að rækta lifir góðu lífi.

Eftir birtingu dómsins birti hópur sem nefnist Environmental Working Group (EWG) pistil þar sem sagt er frá mælingum á glyphosate í morgunkorni. Samkvæmt EWG er efnið til staðar í miklum meirihluta morgunkorna sem hópurinn skoðaði, en í mjög litlu magni.

Það þarf vart að taka fram hversu miklir fjármunir hafa skapast í kringum þessa undraefnablöndu. Á sama tíma hafa einnig skapast fylkingar með og á móti illgresiseyðinum, svo erfitt getur reynst að fiska út hvað er satt, logið eða misskilningur.

Því hefur Hvatinn ákveðið að birta nokkrar vel valdar staðreyndir um þennan umdeilda illgresiseyði, en við hvetjum ykkur til að lesa ykkur betur til um málið.

1. Virka efnið í Round-up heitir Glyphosate, en illgresiseyðirinn samanstendur einnig af alls kyns öðrum efnum sem gera því kleift að virka við alls konar aðstæður.

2. Glyphosate hindrar virkni ensíms sem heitir  5-enolpyruvylshikimate-3-phosphate synthase (skammstafað: EPSPS). Ensímið EPSPS gegnir hlutverki við myndun nauðsynlegrar amínósýra, byggingareininga prótína, í plöntum og bakteríum.

3. EPSPS er ekki að finna í erfðamengi mannsins, né annarra dýra, og því hefur illgresiseyðirinn ekki sömu áhrif á dýr og það hefur á plöntur.

4. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á efninu sem flestar benda til þess að efnið hafi ekki neikvæð áhrif á menn. Tvær rannsóknir hafa þó verið birtar sem sýna fylgni milli mikillar notkunar á Round-up og myndunar á non-Hodgkin eitilfrumukrabbameins. Fleiri rannsóknir hafa þó verið birtar sem benda til þess að efnið ýtir ekki undir myndun krabbameina.

5. Samkvæmt bandarískum eftirlitsaðilum er talið öruggt að neyta allt að 140 mg af virka efninu (glyphosate) í illgresiseyðinum á dag. Í sumum ríkjum t.d. Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hefur þröskuldurinn verið lækkaður niður í 1,1 mg á dag (ekki láta æsandi fyrirsagnir um Round-up í morgunkorni blekkja ykkur, þar var órökstuddur þröskuldur settur 0,01 mg á dag).

Heimildir:
Wikipedia, Glyphosate
Grein eftir Richard G. Stevens
European Commission, Food Safety