Fyrir nokkru fjallaði Hvatinn um rannsókn þar sem erfðaefni einstaklinga sem höfðu tekið eigið líf var skoðað m.t.t. hvort munur væri á þeim sem hefðu sætt einhvers konar ofbeldi í æsku. Í þeirri rannsókn var notast við vefjasýni úr taugakerfi einstaklinganna til að skoða utangenaerfðir, nánar tiltekið metýleringur á erðfaefninu. Með því móti er hægt að meta hvort tjáningarmynstur einstaklinganna var mismunandi, sem reyndist vera raunin.

Í gær birtist grein í Nature, sem styður þær niðurstöður heldur betur og benda þær niðurstöður reyndar til þess að breytingin geti mögulega flust milli kynslóða. Rannsóknin sem birtist í Nature var unnin við University of British Columbia. Í henni eru sæðisfrumur 34 karlmanna skoðaðar með tilliti til utangenaerfða.

Kveikjan að rannsókninni eru vísbendingar, úr dýrarannsóknum, um að afkvæmi karla sem verða fyrir einhvers konar ofbeldi eða misnotkun eru frekar í hættu á að fá einhvers konar taugakerfistengdra sjúkdóma eða kvilla. Rannsakendur lögðu því upp með að skoða hvort munur væri á tjáningu gena sem tengd eru virkni taugakerfisins.

Í þessu samhengi voru kímlínufrumur (þ.e. sæðisfrumum) karla sem hafa orðið fyrir ofbeldi bornar saman við kímlínufrumur þeirra sem ekki höfðu orðið fyrir ofbeldi. Þó úrtakið hafi ekki verið stórt gefur rannsóknin vísbendingar um að breytingar á tjáningu þessara gena erfist til næstu kynslóðar.

Þessar niðurstöður ríma vel við áður birtar niðurstöður sem sýndu að metýlering á genum tengdum virkni taugakerfisins, væru öðruvísi ef einstaklingur hefði orðið fyrir ofbeldi í æsku. Hvaða áhrif þessar breytingar hafa á líf einstaklinganna er kannski erfitt að segja til um enn sem komið er. Þó má benda á að tölfræðin um þá sálrænu kvilla sem herja á fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi segir sína sögu.