Nýja kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19 dreifist enn hratt um heimsbyggðina. Lönd heimsins hafa reynt að bregðast við heimsfaraldrinum eftir bestu getu. Skólum hefur víða verið lokað, íþrótaviðburðum slegið á frest og mælst til þess að fólk haldi sig heima.

Þó þessi úrræði séu mikilvægur liður í því að hefta útbreiðslu sjúkdómsins hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin undirstrikað mikilvægi þess að áfram sé prófað fyrir veirunni. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, benti á það á blaðamannafundi fyrr í vikunni að það væri samblanda af mismunandi úrræðum sem skipti máli.

Hann ítrekaði enn og aftur mikilvægi þess að klippa á smitkeðjur. Til þess að ná þessu fram væri nauðsynlegt að prófa fyrir veirunni og einangra þá sem smitaðir eru af henni eða hefðu komist í snertingu til smitaða.

Skilaboð Ghebreyesus voru skýr “prófið, prófið, prófið fyrir hverju einasta tilfelli sem grunað er”.

Ísland er eitt þeirra landa sem lagt hefur mikla áherslu á það að prófa fyrir veirunni. Mörg þúsund manns bíða eftir að komast í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.