Niðurstöður rannsóknar sem birtar voru fyrr í mánuðinum benda til þess að börn mæðra sem lagðar eru inn á spítala vegna sýkingar á meðgöngunni séu líklegri til þess að greinast með einhverfu eða þunglyndi á lífsleiðinni. Rannsóknin er ein margra sem undirstrikar enn frekar mikilvægi bólusetninga.

Þrautseigar mýtur draga úr bólusetningatíðni

Bólusetningar hafa sjaldan verið jafn mikið í umræðunni og einmitt núna eftir að mislingasmit á Vesturlöndum hafa færst í aukana vegna ónægrar bólusetningaþátttöku. Þar er Ísland ekki undanskilið líkt og flestir eru meðvitaðir um eftir þau mislingatilfelli sem greinst hafa hér á landi á undanförnum vikum.

Ein þrautseig mýta um bólusetningar byggir á rannsókn sem framkvæmd var af lækninum Andrew Wakefield. Í grein hans sem birtist árið 1998 virtist Wakefield takast að sýna fram á að tengsl væru á milli bólusetninga og tíðni einhverfu.

Líkt og margoft hefur verið tíundað reyndust niðurstöður rannsóknarinnar vera hreinn uppspuni og hefur vísindasamfélagið allar götur síðan reynt að sannfæra lítinn en jafnframt háværan hóp um það ekkert sé hæft í grein Wakefield. Þvert á móti benda niðurstöður nýrrar rannsóknar til þess að bólusetningaþátttaka geti reynst vera liður í því að draga úr tíðni einhverfu með því að minnka líkur á því að barnshafandi konur sýkist.

Ástæður einhverfu og geðsjúkdóma illa þekktar

Við þekkjum enn illa hvað það er sem veldur því að einhverjir einstaklingar greinist á einhverfurófinu eða með geðsjúkdóma en aðrir ekki. Það er kannski ekki að undra enda eru margir sjúkdómar afleiðingin af flóknu samspili lífeðlisfræðilegra þátta, erfðafræðilegra þátta og umhverfisþátta.

Rannsóknin sem hér um ræðir byggir á tilgátu sem hefur fengið aukinn stuðning á undanförnum árum. Tilgátan er sú að ákveðnar sýkingar á meðgöngu geti haft neikvæð áhrif á fósturþroska og aukið líkur á því að barnið greinist með geðsjúkdóma eða einhverfu seinna á lífsleiðinni. Greiningar sem helst hafa verið ræddar í því samhengi eru geðhvarfasýki, geðklofi, þunglyndi og einhverfa.

Í rannsókninni skoðuðu vísindamenn frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Bretlandi og Noregi sjúkraskrár hátt í tveggja milljón barna í Svíþjóð og báru saman við heilsufarssögu móður þeirra á meðgöngunni.

Tengsl skoðuð óháð alvarleika sýkingar

Það sem greindi þessa rannsókn frá fyrri rannsóknum á sama sviði var að hún var víðtækari þegar kom að hverskonar sýkingar voru skoðaðar. Frekar en að skoða tengsl á milli ákveðinna sýkinga og ofantaldra greininga skoðaði rannsóknarhópurinn tengslin á milli innlagna barnshafandi kvenna á spítala á meðgöngunni óháð því um hvaða sýkingu var um að ræða. Þannig voru konur sem lagst höfðu inn vegna vægra sýkinga taldar með jafnt á við þær konur sem lögðust inn vegna alvarlegri sýkinga á borð við lungabólgu og inflúensu.

Það kom á daginn að niðurstöðurnar voru þær sömu óháð því hversu alvarleg sýkingin var sem konan fékk á meðgöngunni. Börn kvenna sem yfir höfuð lögðust inn vegna sýkingar á meðgöngu voru líklegri til að greinast með þunglyndi og einhverfu en börn kvenna sem gerðu það ekki.

Sýkingar á meðgöngu virðast auka líkur á þunglyndi og einhverfu

Gögnin náðu yfir 1,8 milljón börn sem fædd voru í Svíþjóð á árunum 1973 til 2014. Þau voru síðan greind með tilliti til þess hvort mæður þeirra lögðust inn á spítala vegna sýkingar á meðgöngunni eða ekki. Sjúkraskrár barnanna voru síðan skoðaðar fram til ársins 2014 þegar elstu einstaklingarnir voru 41 árs.

Greining á gögnunum leiddi í ljós að tengsl voru á milli sjúkrahúsinnlagna móður vegna sýkingar og líkum á því að börn hennar greindust með þunglyndi eða einhverfu. Ekki tókst að bera kennsl á tengsl á milli innlagnar móður og geðklofa og geðhvarfasýki.

Niðurstöðurnar sýndu að líkur á því að barn leitaði til læknis vegna einhverfu síðar á lífsleiðinni voru 79% meiri  ef móðirin leitaði á sjúkrahús vegna sýkingar, samanborið við börn kvenna sem ekki fengu sýkingu. Þegar horft var á líkurnar á þunglyndi voru 24% auknar líkur.

Það virðist því vera að sýkingar á meðgöngu, hvort sem þær eru vægar eða alvarlegar, geti aukið líkur á því að barn greinist með einhverfu eða þunglyndi á æviskeiði sínu. Höfundarnir taka fram að líkurnar fyrir einstaklinginn séu litlar en lýðheilsufræðileg áhrif geti hins vegar verið marktæk.

Ekki ljóst hvernig sýkingar hafa áhrif á fósturþroska

Rannsóknin sem hér er fjallað um var athugunarrannsókn sem aðeins sýnir fram á tengsl á milli þessara tveggja þátta. Því er ekki hægt að draga ályktanir um það af hverju líkurnar eru auknar. Fyrri rannsóknir á dýrum hafa þó benti til þess að sýkingar móður auki bólgusvar í taugakerfinu sem geti haft áhrif á genatjáningu í heilanum.

Hver svo sem ástæðan kann að vera er ljóst að það eru flóknir ferlar sem liggja að baki sem frekari rannsóknir á þessu sviðu munu vonandi varpa ljósi á.

Undirstrikar mikilvægi bólusetninga

Þó þessar niðurstöður segi okkur ekkert um það hvernig sýkingar móður geti haft þessi áhrif á barn á lífsleiðinni eru þær sérstaklega áhugaverðar í ljósi umræðunnar um bólusetningar almennt. Með bólusetningum má koma í veg fyrir að viðkomandi smitist af ýmsum sjúkdómum sem geta leitt til alvarlegra sýkinga og getur því ekki talist annað en jákvætt að forðast smit á sjúkdómum á borð við hina árlegu inflúensu á meðan á meðgöngu stendur þegar því verður við komið.

Vert er að taka fram að þessum niðurstöðunum er ekki ætlað að hræða verðandi mæður enda hafa þær afar takmörkuð völd til þess að koma í veg fyrir sýkingar. Þeim er fremur ætlað að benda á mikilvægi þess að barnshafandi konur hlúi að heilsunni og að þær fái bestu meðferðarúrræði sem völ er á á meðgöngunni. Liður í því hlýtur síðan að vera að koma í veg fyrir smit af völdum sjúkdóma sem til eru bólusetningar gegn.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tímaritinu JAMA Psychiatry.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og vefsíðu Stundarinnar.