Að eignast barn reynist ekki öllum auðvelt og er þar margt sem getur spilað inn í. Um eitt af hverjum 10 pörum glímir við frjósemisvanda. Það hefur einnig færst í aukana að konur velji að fresta barneigna lengur en áður hefur verið auk þess sem hinsegin pör þurfa að leita óhefðbundinna leiða til að verða foreldrar. 

Japanskir vísindamenn komust á dögunum nær því að finna nýjar lausnir fyrir þá sem ekki geta eignast börn með auðveldum hætti. Þeim tókst fyrstum manna að mynda forvera eggfrumu úr blóðfrumu konu.

Frjósemi dvínar með hækkandi aldri

Ólíkt körlum sem geta myndað sáðfrumur út ævina fæðast konur með fyrirfram ákveðin fjölda eggfruma sem fækkar eftir því sem líður á. Við fæðingu eru eggin um milljón talsins en við kynþroska hefur þeim fækkað töluvert og telja í kringum 300.000. Þrátt fyrir að þessi tala hljómi kannski ekki há á þessi fjöldi að duga konunni vel því á ævi meðalkonu verður egglos aðeins um 300-400 sinnum.

Eftir því sem konan eldist fækkar eggfrumunum jafnt og þétt auk þess að gæði eggfrumanna minnka með tímanum. Þetta leiðir til þess að með hækkandi aldri minnka líkurnar á því að konan geti orðið barnshafandi. Í kringum 50 ára aldur fer konan síðan í gegnum tíðarhvörf og egglos hættir að eiga sér stað.

Vandinn margþættur

Frjósemi kvenna er auðvitað ekki eini þátturinn sem getur gert pörum erfitt fyrir að eignast barn. Karlar glíma einnig við ófrjósemi í svipað miklum mæli auk þess sem frjósemi þeirra dvínar einnig með hækkandi aldri og gæði sáðfrumna minnka, þó þeir séu almennt frjóir fram á elliárin. Samkynhneigð pör glíma síðan við annan vanda þar sem að þau geta af augljósum ástæðum ekki getið barn á hefðbundinn hátt. Þau þurfa því að leita annarra leiða til að verða foreldrar, svo sem með hjálp tæknifrjóvgunar eða ættleiðinga.

Fyrir pör eða einstaklinga sem þrá að eignast barn úr eigin erfðaefni hafa erfiðleikar á því sviði óhjákvæmilega neikvæð áhrif á andlega heilsu. Það er því til mikils að vinna sé hægt að finna nýjar leiðir til að hjálpa fólki sem er í erfiðleikum með barneignir. Nú virðumst við vera búin að færast skrefi nær því.

Forvera eggfrumu haldið lifandi í fjóra mánuði

Í grein sem birtist í tímaritinu Science nýverið er fjallað um niðurstöður rannsóknarhóps við Kyoto háskóla í Japan þar sem vísindamönnum tókst að mynda forvera eggfrumu úr blóðfrumu konu.

Hópnum tókst að mynda stofnfrumur úr blóðfrumu konu og loks fá þær til að þroskast í forvera eggrumu, svokallaðar eggmyndandi frumur (e. oogonia). Rannsóknarhópnum tókst síðan að halda frumunum lifandi í fjóra mánuði á tilraunastofu með því að láta þær liggja á ræktunarskál sem innihélt frumur úr eggjastokkum músa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sami rannsóknahópur nær árangri á þessu sviði. Árið 2012 tókst hópnum að mynda egg og sáðfrumur úr húðfrumum í hala músa. Þau egg var hægt að frjóvga og urðu að lokum að lífvænlegum ungum. Fram til þessa hefur ekki tekist að gera slíkt hið sama með frumum mannfólks en með þessum niðurstöðum færumst við nær því marki.

Siðferðislegar spurningar vakna

Rannsóknir sem þessar vekja gjarnan upp siðferðislegar spurningar og er þessi engin undantekning þar á. Vísindamenn sem ekki voru tengdir rannsókninni hafa meðal annars bent á að eggfrumur sem myndaðar væru með þessum hætti gætu leitt af sér börn sem hafa auknar líkur á því að fá krabbamein og aðra sjúkdóma.

Það eru ekki aðeins möguleg áhrif á heilsu barnanna sem vekur upp spurningar. Verði slík tækni að veruleika skapast í raun möguleiki á því að búa til fullburða barn úr frumum hvaða einstaklings sem er, að því gefnu að til staðar séu frumur úr líkama einstaklingsins. Það væri því fræðilega hægt að eignast barn með einstaklingi eða hreinlega að klóna fólk án þess að viðkomandi hafi gefið leyfi fyrir því.

Aldur gæti skipt minna máli

Það er þó einnig ljóst að slík tækni gæti leyst vandamál ýmissa hópa. Verði hægt að búa til börn með þessum hætti í framtíðinni gæti það til að mynda orðið til þess að hár aldur konu verði síður vandamál líkt og er tilfellið í dag. Það gæti mögulega orðið til þess að konur gætu hafti minni áhyggjur af því að fresta barneignum í framtíðinni. Tækni sem þessi gæti líka opnað á nýja möguleika fyrir samkynhneigð pör sem og þau pör sem glíma við ófrjósemi. Tæknin gæti hjálpað þeim að eignast börn sem þau deila erfðaefni með.

Rannsóknir á þessu sviði eru að auki ekki aðeins gagnlegar þegar kemur að frjósemi. Fyrirséð er að með slíkri tækni væri hægt að mynda margar kynfrumur á sama tíma. Þetta opnar á möguleika þar sem til dæmis væri hægt að gera kerfisbundnar rannsóknir á miklum fjölda eggfrumna samtímis til að skilja áhrif lyfja og umhverfisþátta á eggfrumur.

Enn er langt í land að hægt verði að nýta tækni líkt og þá sem hér er fjallað um til að búa til eiginlega eggfrumu sem að lokum getur orðið að barni. Rannsóknir sem þessar vekja þó vonir um að það verði möguleiki í framtíðinni. Næstu skref rannsóknarhópsins eru að ná að þroska frumur myndaðar með þessari tækni enn frekar.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.