Klamydía er algengur kynsjúkdómur sem í sumum tilfellum getur haft alvarlegar afleiðingar á frjósemi kvenna sem smitast af honum. Tilraunir til að búa til bólefni gegn klamydíu hafa fram að þessu ekki skilað árangri. Klínískar prófanir á nýju bóluefni gegn sjúkdómnum vekja þó vonir um að bóluefni gæti orðið til áður en langt um líður.

Smitaðir gjarnan einkennalausir

Það er bakterían Chlamydia trachomatis sem veldur klamydíu og er sjúkdómurinn algengasti kynsjúkdómur af völdum bakteríu í heiminum. Sjúkdómurinn berst á milli einstaklinga við kynmök í leggöngum og endaþarmi sem og með munnmökum. Að auki getur sýkingin borist í barn við fæðingu. Hægt er að meðhöndla sýkingu af völdum bakteríunnar á einfaldan hátt með sýklalyfjum.

Einn vandinn sem fylgir klamydíusýkingu er sá að flestir sem smitast af bakteríunni eru einkennalausir. Þrátt fyrir að einstaklingar finni ekki fyrir einkennum getur bakterían með tímanum skaðað æxlunarfæri kvenna. Ef sýkingin er ekki meðhöndluð í tæka tíð getur hún því leitt til ófrjósemi eða skertrar frjósemi.

Yfir 50 ára saga

Vísindamenn hafa reynt árangurslaust að búa til bóluefni gegn klamydíu í yfir 50 ár. Tilraunir til þess hófust á sjöunda áratugnum þegar nokkur bóluefni sem þóttu líkleg til árangurs voru prófuð.

Þessar prófanir reyndust ekki vernda einstaklinga gegn sjúkdómnum. Þvert á móti urðu sumir einstaklingar næmari fyrir bakteríunni í kjölfar bólusetningar. Ekki tókst að greina hvað það var sem olli þessum óæskilegu viðbrögðum og miðaði lítið áfram í rannsóknum á þessu sviði í töluverðan tíma þar á eftir.

Eitt vænlegt bóluefni á tíu árum

Vegna þess að tíðni klamydíu sýkinga hefur farið vaxandi á heimsvísu á síðustu áratugum hefur sjúkdómurinn hlotið meiri athygli að undanförnum. Á síðasta áratug hefur því vaknað aukinn áhugi á á bóluefnum gegn sjúkdómnum. Þrátt fyrir mikla rannsóknarvinnu á þessu sviði og töluverðan fjölda birtinga á nýjum rannsóknum ár hvert hefur aðeins eitt bóluefni reynst  nægilega gott til að hefja klínískar prófanir á mannfólki.

Fyrstu prófanir á mannfólki

Rannsóknarhópar við Imperial College London og Statens Serum Institute fengu nýverið leyfi til að prófa bóluefni sitt í heilbrigðum konum. Konurnar voru á aldrinum 19 til 45 ára og 32 talsins.

Þátttakendum var skipt í þrjá hópa. Einn hópurinn fékk lyfleysu í þrígang á mánuði 0, 1 og 4. Hinir hóparnir tveir fengu raunverulega bóluefnið með sama millibili. Munurinn þar á var að annar bóluefnahópurinn fékk bóluefni sem innihéld lípósóm en hinni bóluefni sem innihélt álhýdroxíð. Þessar mismunandi samsetningar höfðu verið valdar eftir fyrri prófanir á bóluefninu í músum og naggrísum. 

Fjórum og hálfum mánuði eftir fyrstu þrjár bólusetningarnar fengur þátttakendur síðan auka skammt af bóluefninu í nefúða. Þetta var endurtekið hálfum mánuði síðar og fengu þátttakendur því í heildina fimm skammta af bóluefninu.

Öruggt bóluefni

Um var að ræða svokallaðar fasa 1 prófanir á bóluefninu. Slíkar prófanir eru gjarnan framkvæmdar á fáum einstaklingum og snúa aðallega að því að kanna hvort bóluefnið sé öruggt til notkunar í mannfólki auk þess að tryggja að engar alvarlegar aukaverkanir komi fram áður en lengra er haldið.

Niðurstöður prófananna á bóluefninu gáfu í þessu tilfelli tilefni til bjartsýni varðandi framhaldið. Engar alvarlega aukaverkanir komu fram og staðbundin viðbrögð við bóluefninu voru samsvarandi því sem á sér stað við bólusetningu gegn lifrarbólgu B.

Þó tilgangurinn í þessari rannsókn hafi aðallega verið sá að kann öryggi bóluefnisins fyrir frekari prófanir lofuðu prófanir á ónæmissvari einnig góðu. Hóparnir sem fengu bóluefnið sjálft sýndu sterkt ónæmissvar sem jókst við hverja bólusetningu sem þátttakendur fengu.

Bóluefnið sem innihélt lípósóm sýndi alltaf betri niðurstöður þegar horft var til aukningar á mótefnum í blóði.

Aðeins vísbending um vænleika bóluefnisins

Þrátt fyrir að þessar niðurstöður hafi reynst jákvæðar gefa þær aðeins vísbendingu um framhaldið. Það kann að vera að bóluefnið reynist ekki geta komið í veg fyrir klamydíu sýkingu þegar farið verður í frekari prófanir á virkni þess.

Ætla má að það taki nokkur ár að skera úr um hvort hér sé komið bóluefni sem hægt er að setja á markað sem vörn gegn klamydíusýkingu. Ef niðurstöðurnar reynast vera jákvæðar væri slíkt bóluefni mikilvæg viðbót í baráttunni gegn útbreiðslu klamydíu. Vonir standa jafnvel til um að hægt verði að búa til samsett bóluefni í framtíðinni þar sem hægt sé að bólusetja ungar konur gegn bæði HPV og klamydíu.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tímaritinu The Lancet Infectious Diseases.

Pistillinn birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.