Ný aðferð til að mæla BPA gildi í mannfólki hefur leitt í ljós að fram til þessa virðumst við hafa stórlega vanmetið hversu mikið BPA er að finna í líkama fólks. Raunveruleg gildi geta verið allt að 44 sinnum meiri en mælast með eldri greiningaraðferðum.

Hvað er BPA?

BPA eða bisphenol A er íblöndunarefni sem oft er blandað við plastefni til þess að styrkja það og gefa plastinu ákveðin sveigjanleika. Þekkt að BPA getur haft áhrif á kynfrumur dýra og hermt eftir ákveðnum hormónum. Þannig getur efnið ruglað eðlilega starfsemi líkamans. Þetta á sérstaklega við um fóstur. Fóstur sem útsett eru fyrir BPA í móðurkviði geta til dæmis glímt við vandamál tengd eðlilegum vexti og efnaskiptavandamál, auk þess sem þau eru í meiri áhættu á að fá krabbamein.

Vegna þessa áhrifa hafa margir plastframleiðendur brugðið á það ráð að skipta út BPA fyrir önnur efni sem hafa svipaða byggingu og gefa plastinu sömu eiginleika. Einnig hefur BPA verið bannað upp að einhverju marki, sérstaklega í vörum fyrir ungabörn.

BPA getur verið að finna í plastumbúðum á borð við plastflöskur og matarílát. Í dag er yfirleitt tekið fram á umbúðum hvort þær séu lausar við BPA eða ekki.

Raunveruleg gildi allt að 44 sinnum hærri

Í grein sem birtist nýverið í ritrýnda tímaritinu Lancet Diabetes & Endocrinology er fjallað um rannsókn þar sem ný aðferð til að mæla BPA í mannslíkamanum er metin. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að mæla BPA til þessa vanmeti verulega raunveruleg gildi efnisins.

Talskona rannsóknarhópsins Patricia Hunt, prófessor við Washington State University, segir rannsóknina vekja upp spurningar um það hvort við höfum fram til þessa farið nægilega varlega varðandi öryggi í kringum notkun á BPA. Þær aðferðir sem hafi verið notaðar hingað til gætu hafa byggt á ónákvæmum mælingum og því ekki gefið rétta mynd af vandanum. Svo mikil virðist skekkjan í mælungum vera að í sumum tilfellum eru raunveruleg gildi allt að 44 sinnum meiri en mælingar með eldri aðferðum sögðu til um.

Ný og nákvæmari aðferð

Nýja aðferðin sem fjallað er um í greininni er ólík fyrri aðferðum að því leiti að hún getur á nákvæmari og beinan hátt mælt BPA umbrotsefni í líkamanum.

Fyrri aðferðir byggðu að mestu á því að mæla BPA umbrotsefni óbeint. Þetta var gert með því að nota lausn sem innihélt ensím úr sniglum. Ensímin höfðu það hlutverk að breyta umbrotsefnum aftur í BPA sem var síðan mælt til að gefa hugmynd það hversu mikið BPA var að finna í líkamanum.

Tvær aðferðir bornar saman

Í rannsókninni voru þessar tvær aðferðir bornar saman. Í fyrstu var notast við gerviþvag sem innihélt BPA. Seinna var notast við 39 sýni úr mannfólki.

Í ljós kom að með því að nota nýju aðferð rannsóknarhópsins var niðurstaðan sú að mæld gildi voru mun hærri en með eldri aðferðinni. Í ofanálag reyndist skekkjan vera meiri eftir því sem útsetning fyrir BPA var meiri.

Krefst frekari rannsókna

Höfundar greinarinnar segja að endurtaka þurfi tilraunina oftar til að komast að endanlegri niðurstöðu. Þeir vonast til þess að niðurstöðurnar veki sérfræðinga í faginu til umhugsunar um það hvernig við mælum BPA gildi í líkamanum í dag.

Rannsóknarhópurinn vinnur nú að frekari tilraunum með mælingar á BPA. Að auki vinnur hópurinn að prófunum á öðrum efnum sem hafa verið mæld með svipuðum aðferðum til að athuga hvort sömu sögu sé að segja þar. Sá listi inniheldur efni á borð við paraben, triclosan og benzophenone sem eru að finna í snyrtivörum og sápum, svo dæmi séu tekin.

Greining birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.