Þeir sem láta sig vísindi varða hafa varla orðið varhuga af CRISPR/Cas erfðabreytingatækninni sem undanfarið hefur verið „sætasta stelpan á ballinu“ í hópnum aðferðir í sameinalíffræði.

CRISPR er upprunnið í bakteríum en með sameiningu hárnákvæmrar þáttapörunnar og núkleasavirkni kerfisins ásamt DNA viðgerðarferlum spendýrafrumna varð til erfðabreytingatól sem er mun nákvæmara og skilvirkara en þau sem við höfum áður notað.

Aðferðin hefur notið ákveðinnar sérstöðu. Má þá t.d. telja að matvælaeftirlit Bandaríkjanna tilkynnti á síðasta ári að erfðabreytingar sem unnar eru á matvælum, þar sem CIRSPR aðferðin er notuð, lúta ekki jafn ströngum reglugerðum og önnur erfðabreytt matvæli.

Þróanir með CRISPR aðferðina hafa nú leitt hana aftur til upprunnans, í bakteríurnar. CRISPRi, sem stendur fyrir clustered regulated interspaced palindromic repeats interference, er tól þar sem CRISPR er nýtt til að hindra tjáningu á ákveðnum genum.

Vegna þess hve nákvæm þáttapörun CRISPR flókans er við mark-erfðaefnið, þóttu vísindamönnum í Kaliforníu við hæfi að nýta aðferðina til að hindra tjáningu gena. Hindrunin fer einfaldlega þannig fram að CRISPR flókinn situr á erfðaefninu svo prótínin sem sjá um tjáningu genanna (umritunarþættirnir) komast ekki að.

Þessi nýja aðferð hentar t.d. mjög vel þegar eintökin tvö af geninu sem eru til staðar í tvílitna frumu (eitt frá móður og eitt frá föður) eru mismunandi. Þá er hægt að nýta CRISPRi til að þagga tjáninguna á öðru geninu og sjá hvaða áhrif það hefur.

Rannsóknarhópur við University of Wisconsin-Madison nýtti aðferðina nýlega til að skoða hvaða gen það eru sem bakteríur nýta sér til að verjast sýklalyfjum. Hópurinn byggði sér genasafn sem hann gat svo prófað á fjölmörgum bakteríustofnum, bæði bakteríum sem valda sýkingum og þeim sem gera það ekki.

Hópurinn gerir sér vonir um að geta nýtt þá þekkingu sem skapast í slíkum tilraunum til að þróa betri sýklalyf þegar við skiljum betur hvaða þætti bakteríurnar nýta sér þegar meðhöndlun með sýklalyfjum á sér stað.