Moldvörpur eru um margt undarleg dýr. Eitt af þeim einkennum sem gerir þessi litlu spendýr ólík því sem við eigum að venjast er það að kvenkyns moldvörpur eru í raun aldrei fullkomlega kvenkyns. Vísindamenn hafa lengið vitað þetta en erfitt hefur reynst að skilja hvaða erfðir liggja þar að baki.

Kyn ekki klippt og skorið

Líkt og Hvatinn hefur áður fjallað um er kyn ekki eins klippt og skorið og kvenkyn og karlkyn, hvort sem það á við um mannfólk eða önnur dýr í dýraríkinu. Að því sögðu eru flest spendýr nokkuð greinilega annað hvort kvenkyns eða karlkyns erfðafræðilega og líffræðilega. Sem dæmi, er aðeins um 1% mannfólks intersex.

Moldvörpur stinga nokkuð mikið í stúf þegar kemur að kyneinkennum. Karlkyns moldvörpur bera nær alltaf XY kynlitninga líkt og önnur spendýr og bera einkenni karlkyns. Kvenkyns möldvörpur hafa aftur á móti XX kynitninga en hafa þrátt fyrir það einhverskonar blöndu af eggjastokkum og eistum.

Sá hluti sem samsvarar eistum fremur en eggjastokkum inniheldur frumur sem nefnast Leydig frumur. Þessar frumur framleiða svokölluð andrógen sem við köllum gjarnan karlkyns hormón. Þetta veldur því að kvendýrin hafa oft há testosterón gildi í líkamanum og geta gildin jafnvel verið hærri en í karldýrunum.

Talið er að þetta stafi af því að moldvörpur þurfa að búa yfir töluverðum styrk til að grafa göng neðanjarðar. Þar getur testosterón hjálpað til, enda stuðlar það að stærri vöðvum.

Staðsetning genanna skiptir máli

Í grein sem birtist nýverið í tímaritinu Science er fjallað um rannsókn á moldvörputegundinn Talpa occidentalis. Í rannsókninni var erfðamengi þessarar moldvörputegundar skoðað af vísindamönnum við Max Planck Institute for Molecular Genetics.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að það séu ekki aðeins genin sjálf sem stýra þessum óvenjulegu eiginleikum kvenkyns moldvarpa heldur spili stýrisvæði genanna inn í.

Meðal þess sem rannsóknarhópurinn komst að var að genið CYP17A1 kom fyrir þrisvar sinnum í erfðaefni molvarpanna. CYP17A1 er þekkt í mörgum spendýrum fyrir að bera ábyrgð á karlkyns hormónum. Það kemur almennt séð aðeins fyrir einu sinni í erfðaefni spendýra.

Að auki birtast ákveðnir hlutar erfðaefnisins á stöðum sem eru frábrugðnir því sem þekkist hjá öðrum spendýrum. Þetta þýðir að aðstæður og tjáning þeirra breytast.

Svipuð áhrif í erfðabreyttum músum

Til að staðfesta að þessar breytingar hafi þau áhrif sem rannsóknarhópurinn taldi prófaði rannsóknarhópurinn að eiga við erfðaefni músa. Erfðabreyttar mýs voru ræktaðar sem höfðu erfðaefni sem breytt hafði verið til að líkja eftir erfðaefni moldvarpanna með tilliti til gensins CYP17A1.

Erfðabreyttu mýsnar reyndust framleiða jafn mikið testósterón og karlkyns mýs. Karlkyns mýsnar voru aftur á móti nokkuð svipaðar þeim óerfðabreyttu.

Þessar niðurstöður eru merkilegar fyrir þær sakir að þær varpa ljósi á mikilvægi endurröðunar erfðaefnis og þá möguleika sem slíkar breytingar geta haft á genatjáningu í þroskunarferlinu.

Niðurstöðurnar gætu hjálpað okkur að skilja intersex í öðrum dýrategundum og ekki síst í okkar eigin tegund.