Inflúensa A herjar á mannkynið ár hvert og einstaklingar sem smitast þola veiruna misvel. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að ástæðan kunni að hluta til að felast í því af hvaða stofni fyrsta inflúensan sem viðkomandi smitaðist af í æsku var.

Tveir stofnar algengastir

Tveir stofnar af inflúensu eru helst þekktir fyrir að valda inflúensufaröldrum í heiminum: H1N1 og H3N2. Þekkt er að H3N2 stofn veirunnar veldur hærra hlutfalli af tilfellum í eldri einstaklingum sem smitast á meðan H1N1 herjar í meiri mæli á börn og yngri einstaklinga. H3N2 veldur að auki almennt fleiri dauðsföllum en H1N1. Á hverju ári verða stökkbreytingar þess valdandi að veiran breytist að hluta og er það meðal annars ástæða þess að þróa þarf nýja bólusetningu gegn inflúensu ár hvert.

Á árunum 1918-1957 var H1N1 stofn inflúensuveirunnar sá eini sem smitaði mannfólk. Einstaklingar fæddir á þessu tímabili smituðust því eingöngu af þessum stofni veirunnar. Fullorðnir einstaklingar fæddir eftir 1957 voru aftur á móti líklegri til að smitast fyrst af H3N, þó það sé auðvitað ekki algilt.

Vörn gegn framtíðarsmiti

Þeir sem smitast af inflúensu í æsku mynda svokallað ónæmisminni (e. immune imprint) sem veldur því að einstaklingurinn er að einhverju leiti varinn gegn smiti af öðrum inflúensum af sama stofni seinna á lífsleiðinni. Ef fyrsta inflúensan sem einstaklingur smitast af er af stofninum H1N1 er einstaklingurinn því að hluta varinn gegn smiti af H1N1 stofninum í framtíðinni. Þetta lýsir sér helst í vægari flensueinkennum en kemur ekki í veg fyrir að viðkomandi fái inflúensu. Það sama á hins vegar ekki við ef þessi sami einstaklingur smitast af H3N2 stofninum. Þá er þessi vernd ekki til staðar.

Þó ónæmisminni gegn mismunandi stofnum inflúensuveirunnar sé þekkt fyrirbæri vantar enn skilning á því hversu mikil þessi vernd er og hvort og hvernig hún nær til annarra skyldra stofna af inflúensuveirunni.

Til þess að auka skilning á því hvernig þessi vernd virkar greindi rannsóknarhópur samansettur af vísindamönnum frá University of Chicago, Arizona Department of Health Services, National Institutes of Health, University of Arizona og University of California, Los Angeles, gögn sem skráð voru í gagnagrunn Arizona Department of Health Services sjúklinga sem leitað höfðu til læknis vegna inflúensusmits. Gögnin voru samsett úr heilsufarsskrám frá sjúkrahúsum og einkareknum læknastofum í fylkinu.

Skýrt mynstur tengt fyrsta smiti

Greining á gögnunum leiddi í ljós ákveðið mynstur. Þeir einstaklingar sem fyrst smituðust af H1N1 í æsku voru ólíklegri til að leggjast inn á sjúkrahús ef þeir smituðust af sama stofni seinna á lífsleiðinni en þeir sem fyrst smituðust fyrst af H3N2. Á sama hátt voru þeir sem fyrst smituðust af H3N2 betur varðir ef þeir smituðust aftur af þeim stofni en þeir sem fyrst höfðu smitast af H1N1.

Greiningin sýndi auk þess fram á að þeir sem fyrst smituðust af öðrum stofni veirunnar, H2N2, sem er náskyldur H1N1 nutu ekki varnar gegn H1N1 seinna meir. Þessar niðurstöður komu rannsóknarhópnum nokkuð á óvart þar sem að fyrir rannsóknir hafa sýnt að smit af náskyldum veirum getur í sumum tilfellum veitt vörn gegn öðrum skyldum stofnum.

sögn fyrsta höfundar greinarinnar, Katelyn Gostic, skýrist þetta mögulega af því að ónæmiskerfið okkar geti átt erfitt með að þekkja og verja líkamann gegn stofnum inflúensu sem eru mjög náskyldir. Enn er þó óljóst af hverju þetta er raunin.

Stofnarnir ekki náskyldir

Rannsóknarhópurinn greindi einnig sambandið á milli inflúensu stofnanna tveggja í þróunarfræðilegu samhengi. Stofnarnir tveir, H1N1 og H3N2, reyndust vera af tveimur mismunand greinum í ”ættartré” veirunnar og eru því nokkuð fjarskyldar. Þetta skýrir enn frekar af hverju þeir sem smitast af öðrum stofni veirunnar seinna á lífsleiðinni njóta ekki verndar frá fyrra smiti.

Kapphlaup við tímann

Þrátt fyrir að árlega sé bólusett gegn þeirri inflúensu sem er í umferð það árið eru bóluefnin mis árangursrík gegn veirunni. Þetta skýrist að eihverju leyti af því að vísindamenn hafa ekki mikinn tíma til að þróa bóluefni gegn nýjum inflúensum. Ný inflúensubólusetning er þróuð tvisvar á ári vegna þess hversu hratt inflúensuveiran stökkbreytist.

Þróun á nýju bólefni er því í raun kapphlaup við tímann sem felst í því að þróa nýtt bóluefni nógu hratt til að verja almenning gegn næsta faraldri áður en hann kemst á almennilegt flug.

Aukinn skilningur gæti leitt til betri forgangsröðunar í bólusetningum

Rannsóknarhópurinn vonast til þess að niðurstöður þeirra komi til með að hjálpa okkur að finna leiðir til að spá fyrir um það hvaða hópar í samfélaginu séu líklegir til að þola illa ákveðna inflúensufaraldra. Byggt á því af hvaða stofni inflúensan sem er í umferð hverju sinni er gæti til dæmist verið mögulegt að áætla hvaða aldurshópar eru líklegri en aðrir til að fara illa út úr smiti það árið.

Slíkar upplýsingar gætu einnig hjálpað til við forgangsröðun í bólusetningum í tilfellum þar sem þær eru af skornum skammti. Þannig mætti til dæmis forgangsraða því að bólusetja einstaklinga sem ekki hafa smitast af stofni veirunnar sem er í umferð það árið þar sem að þeir eru líklegri til að þola veiruna illa.

Fjöldi fólks lætur lífið ár hvert af völdum inflúensu og er því mikilvægt að auka skilning á því hvernig veiran breiðist út og hverjir eru líklegir til að þola hana illa í samfélaginu.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.