Stuttu eftir að Covid-19 faraldurinn hófst hafa verið uppi tilgátur um það að skortur á D-vítamíni geti verið einn sá þátta sem auki líkurnar á því að veikjast illa af sjúkdómnum. Niðurstöður greinar sem birtist í tímaritinu JAMA Open Network fyrr í mánuðinum gefa til kynna að þessi tilgáta eigi við rök að styðjast.

Yfir 20% greindist með Covid-19

Prófessor við University of Chicago í Bandaríkjunum skoðaði gögn 489 sjúklinga sem áttu tvennt sameiginlegt. Annars vegar höfðu þeir gengist undir Covid-19 próf árið 2020 og hins vegar höfðu þeir látið prófa magn D vítamíns í blóði árið 2019.

Af þeim sem höfðu greinst með D-vítamínskort árið 2019 höfðu 21.6% greinst með Covid-19 í ár. Meðal þeirra sem ekki höfðu greinst með D-vítamínskort greindust 12.2% með Covid-19.

Margt sem gæti spilað inn í

Þó þessar niðurstöður séu bæði tölfræðilega marktækar og afar áhugaverðar staðfesta þær ekki einar og sér tengsl milli Covid-19 og D-vítamínskorts. Í fyrsta lagi kann að vera að frá því að sjúklingarnir greindust með D-vítamínskort hafi gildi þeirra breyst. Auk þess er ekki útilokað að þeir sjúklingar sem eru með D-vítamínskort séu líklegri til að glíma við undirliggjandi heilsufarsleg vandamál sem geri þá líklegri til að veikjast af Covid-19.

Munum eftir D-vítamíninu

Það mun reynast erfitt að staðfesta í eitt skipti fyrir öll hvort D-vítamín skortur sé raunverulegur áhættuþáttur fyrir Covid-19. Það sem við vitum þó vel er að D-vítamín er afar mikilvægt fyrir mannslíkamann. Auk þess höfum við sem búum á norðurslóðum tilhneigingu til að glíma við D-vítamínskort, sér í lagi yfir vetrarmánuðina. Þessar niðurstöður eru því ágæt áminning um það að muna eftir að taka D-vítamín núna þegar dimma tekur.