Þrátt fyrir að vera afar smáar geta moskítóflugur borið með sér fjöldan allan af sjúkdómum sem geta sýkt mannfólk. Þessir sjúkdómar valda hátt í milljón dauðsföllum á ári og er því ekki að undra að leitað sé lausna til að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Nú hefur hópi vísindamanna tekist að útbúa einskonar getnaðarvörn fyrir moskítóflugur sem gæti hjálpað í baráttunni við skæða sjúkdóma á borð við malaríu og Zika veiruna.

Lífshættulegir sjúkdómar berast með kvenkyns flugum

Við sem búum á Íslandi erum blessunarlega laus við bæði moskítóflugur og þá sjúkdóma sem þær geta borið með sér. Víðsvegar um heiminn, sér í lagi í hitabeltinu, er staðan þó önnur og geta þessar smáu flugur borið með sér ýmsa sjúkdóma sem margir hverjir eru lífshættulegir þeim sem sýkjast.

Sjúkdómarnir berast manna á milli þegar kvenkyns moskítóflugur sjúga blóð úr sýktum einstaklingi og bera sýkt blóð yfir í næsta fórnarlamb.

Nýuppgötvað prótein veitir von

Vísindamenn við Háskólann í Arizona í Bandaríkjunum uppgötvuðu nýverið prótein í moskítóflugum sem gegnir mikilvægu hlutverki í framleiðslu eggja flugnanna. Grein sem fjallar um niðurstöður rannsóknarinnar birtist í tímaritinu PLOS Biology fyrr í mánuðinum.

Við leit sína að próteininu leitaði rannsóknarhópurinn að genum sem væru einstök fyrir moskítóflugur. Þegar búið var að bera kennsl á slík gen voru þau prófuð með tilliti til hlutverks þeirra í myndun á eggjaskurn.

Hið nýuppgötvaða prótein fékk heitið Eggshell Organizing Factor 1 (EOF-1). Í ljós kom að með því að hindra virkni próteinsins í kvenkyns moskítóflugum mynduðu flugurnar egg með gallaða skurn og fóstrin í eggjunum dóu.

Próteinið aðeins að finna í moskítóflugum

Rannsóknarhópnum tókst auk þess að sýna fram á að EOF-1 próteinið er aðeins að finna í moskítóflugum en ekki öðrum dýrategundum. Þannig er tryggt að sé lyf framleitt til að gera próteinið óvirkt kemur það til með að hafa aðeins áhrif á moskítóflugur en ekki aðrar tegundir dýra.

Eitt áhyggjuefni rannsóknarhópsins var einmitt að slíkt inngrip gæti haft neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir aðrar skordýrategundir sem mikilvægar eru í vistkerfum heimsins. Þar er nærtækasta dæmið býflugur sem eiga þegar undir mikið högg að sækja og spila lykilhlutverk í frjóvgun ýmissa nytjaplantna sem mannkynið treystir á.

Lyf gæti heft útbreiðslu moskítóflugna

Ekki er enn þekkt nákvæmlega hvaða hlutverki EOF-1 próteinið gegnir í myndun eggjaskurnar. Byggt á niðurstöðum sínum telja höfundar greinarinnar að próteinið spili þó lykilhlutverk þegar kemur að myndun hennar.

Vonir standa til að þessar niðurstöður muni verða til þess að hægt sé að þróa aðferð til þess að takmarka eggjamyndun hjá sjúkdómsberandi moskítóflugum. Þannig opnast nýr möguleiki til að hefta útbreiðslu sjúkdóma. Ljóst er að slík lausn gæti reynst afar mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma sem hafa plagað mannkynið lengi sem og útbreiðslu nýrra sjúkdóma sem gætu skotið upp kollinum.

Fram til þessa hafa menn reynt að hemja útbreiðslu sjúkdóma sem berast með moskítóflugum meðal annars með því að nýta skordýraeitur á borð við DDT. Það hefur skilað vissum árangri en með inngripi líkt og því sem hér er lýst væri komin lausn sem hefði lítil sem engin áhrif á aðrar lífverur eða umhverfið.

Í framhaldinu sjá vísindamennirnir fyrir sér að hægt verði að útbúa lyf sem truflar virkni EOF-1 og væri notað gegn stofnum moskítóflugna á þeim svæðum sem þær eru þekktar fyrir það að bera með sér sjúkdóma. Slíkt lyf hefði þann tilgang að koma í veg fyrir að lífvænleg fóstur gæti þroskast í eggjum flugnanna.

Greinin birtist fyrst í prentaðri útgáfu og á vefsíðu Stundarinnar.