Rafsígarettur eru vinsælli en nokkru sinni fyrr enda hafa þær hjálpað fjölmörgum reykingamönnum að losna vana sígarettanna. Rafrettur innihalda nikótín eins og hinar hefðbundni sígarettur en efnið berst ofan í lungun með gufu, í stað reyks. Hingað til hefur ekki tekist að staðfesta hvort gufan er skaðlaus eður ei en þó eru sívaxandi sannanir þess að rafrettan sé ekki með öllu meinlaus.

Fjöldi rannsókna benda til þess að notkun rafsígaretta örvi bólgusvar og streitu viðbrögð lungnavefjarins. Nýleg rannsókn bendir til þess að örvun ónæmiskerfisins sé tilkomin vegna þeirra bragðefna sem komið er fyrir í rafrettu-vökvanum.

Efnin sem notuð er í vökvann hafa fyrir löngu sýnt gildi sitt í matvælum. Þau eru víða notuð í matvælum og hafa undirgengist heilmargar rannsóknir í þeim tilgangi að sýna fram á skaðleysi þeirra við inntöku um munn. Það sama virðist þó ekki vera uppá teningnum þegar efnanna er neytt í gegnum lungnavefinn.

Rannsóknarhópur við University of Rochester notaði mónócýta, frumutegund sem tilheyrir hvítum blóðkornum og gegnir mikilvægu hlutverki í ónæmiskerfinu, til að skoða áhrif bragðefnanna. Efnin voru prófuð á frumunum, í rækt og viðbrögð frumnanna metin á margvíslegan hátt.

Eitt af því sem gerðist þegar frumurnar komust í snertingu við bragðefnin var að þær tóku að seyta út prótíni sem kallast interleukin 8 (Il-8). Il-8 er nokkurs konar ákall á frekari aðstoð ónæmiskerfisins. Þegar Il-8 er seytt út virkjast fleiri frumur innan ónæmiskerfisins og gæti þetta t.a.m. skýrt hvers vegna bólgusvar virðist aukast í lungnavef þeirra sem nota rafsígarettur.

Auk þess að sjá aukningu í Il-8 var marktækur munur á frumudauða þeirra frumurækta sem fengu bragðefni og þeirra sem ekki fengu. Meiri frumudauði átti sér stað þegar frumurnar komust í snertingu við bragðefnin. Athygli vakti að mestra áhrifa gætti þegar bragðefnunum var blandað saman og bragðefni fyrir kanil, vanillu eða smjör-bragð virtust hafa mest áhrif á frumurnar.

Þessar rannsóknir renna stoðum undir rök ört vaxandi radda sem hvetja yfirvöld til að setja skýrari ramma utanum rafrettunotkun. Þó vissulega megi ekki gera lítið úr þeim jákvæðu áhrif um sem rafrettan hefur haft á reykingafólk, í baráttunni við fíknina, má ekki gleyma því að rafrettur eru ekki skaðlausar.

Sérstaklega ber þá að horfa til þeirra hópa sem velja að nota rafrettur en hefðu líklega aldrei byrjað að reykja, ef ekki væri fyrir þennan kost. Að minnsta kosti gæti borgað sig fyrir alla rafrettunotendur að sleppa bragðefnunum, ef rafrettan er raunverulega svona mikilvæg.