Þegar kemur að barneignum skiptir frjósemi beggja foreldra máli og er ýmistlegt sem spilar þar inn í. Við höfum lengi vitað að lífstíll og umhverfisþættir geta haft áhrif á frjósemi beggja kynja. Hjá karlkyninu er það gæði sáðfrumna og fjöldi þeirra sem skiptir höfuðmáli.

Rannsókn sem birtist nýverið sýndi fram á að þegar karlmenn bættu hnetublöndu í daglegt mataræði sitt jókst metýlering á ákveðnum svæðum erfðaefnisins. Samhliða því urðu gæði sáðfrumna betri.

Hvað er metýlering?

Metýlering kallast það þegar svokallaðir metýlhópar bætasta á DNA sameind. Metýlhópar samanstanda af kolefnissameind og þremur vetnissameindum og getur breyting á fjölda þeirra haft áhrif á virkni erfðaefnisins.

Rannsóknir á undanförnum árum hafa gefið til kynna að metýlering á erfðaefni sáðfrumna geti haft áhrif á gæði þeirra. Fram til þessa hafa þó engar rannsóknir einbeitt sér að því að kanna áhrif mataræðis á metýleringu í erfðaefni sáðfrumna manna.

60 grömm af hnetum á dag

Til að kanna hvort inntaka á hnetum hefði áhrif á gæði sáðfrumna var 48 heilbrigðum ungum karlmönnum gert að bæta hnetublöndu í mataræði sitt. Blandan samanstóð af 60 grömmum af möndlum, heslihnetum og valhnetum og var rannsóknartímabilið 14 vikur. Samanburðarhópur sem taldi 24 karlmenn hélt áfram á sínu vanalega mataræði.

Eftir 14 vikna tímabil kom í ljós að sáðfrumur þeirra karlmanna sem voru í fyrri hópnum sýndu marktæka breytingu. Lykilbreytingin lá í því að sáðfrumur hnetuhópsins sýndu aukna metýleringu á 36 svæðum á erfðaefninu á því tímabili sem rannsóknin átti sér stað. Af þeim voru 35 sem sýndu mikla metýleringu í lok rannsóknartímabilsins. Engar marktækar breytingar áttu sér stað í hópnum sem hélt mataræði sínu óbreyttu.

Enn óljóst hvað veldur

Rannsóknin er liður í stærri rannsókn sem sýndi einmitt fram á að aukin inntaka á sömu hnetublöndu virtist bæta gæði sáðfrumna þátttakenda. Enn sem komið er er þó óljóst hvað það er sem veldur þessari breytingu. Höfundar greinarinna telja að metýlering geti verið liður í því. Auk þess hafa þeir bent á fólinsýru og genistein sem innihaldsefni sem gæti spilað hlutverk.

Frekari rannsóknir á þessu sviði munu vafalaust varpa ljósi á nákvæmlega hvað það er sem liggur hér að baki. Þangað til er óhætt að mæla með því að karlmenn sem huga að barneignum auki hnetuát, ef hnetur eru ekki þegar hluti af mataræði þeirra nú þegar enda eru þær holl og næringarík fæða.

Rannsóknin var framkvæmd af rannsóknarhópum við University of Utah í Bandaríkjunum og Rovira i Virgili University á Spáni. Niðurstöðurnar birtust í tímaritinu Andrology.