Líkami okkar inniheldur ótrúlegt magn frumna sem starfa við það að byggja upp líffæri okkar. Allar þessar frumur gegna viðamiklu hlutverki hvern einasta dag við að halda okkur gangandi og viðhalda heilsu okkar.

Fjöldi  líkamsfrumna okkar bliknar þó í samanburði við allan þann fjölda baktería sem býr í og á líkama okkar. Þessar dreifkjarnafrumur sem líkami okkar hefur tekið að sér að hýsa gegna ekki síður mikilvægu hlutverki í daglegu lífi okkar, jafnvel þó þeirra mikilvæga hlutverk sé aðeins að koma almennilega í ljós núna.

Staphylococcus aureus

Ein af þessum dreifjarnafrumum ber tegundaheitið Staphylococcus aureus (S. aureus). S. aureus er baktería sem lifir gjarnan á húð eða í nefholi manna og talið er að um 30% manna beri hana í sinni eðlilegu húðflóru.

Þó bakterían sé tiltölulega algeng í eðlilegri flóru manna getur hún samt sem áður valdið sýkingum. Hjá einstaklingi sem er með bakteríuna í sinni hefðbundnu bakteríuflóru gerist það yfirleitt bara ef einhver röskun verður á bakteríuflórunni.

Staphylococcus veldur helst sýkingum í þeim líffærum sem eru nefnd hérna að ofan, þ.e.a.s. á húð eða í öndunarvegi. Reyndar finnst hún stundum í matvælum líka og getur valdið miklum skaða þar. Ástæðan er sú að bakterían framleiðir eitur sem er mjög hitaþolið og getur verið til staðar í matvælum eftir eldun.

S. aureus í exemskellum

Eins og þegar hefur komið fram getur bakterían valdið sýkingum í húð og er hún gjörn á að vaxa á húðsvæðum þar sem exem hefur komið upp. S. aureus, er algengara að finna hjá einstaklingum sem eru með alvarlegt exem, samanborið við einstaklinga sem eru með væg einkenni exems.

Bakterían hefur því löngum verið tengd við erfið eða þrálát exem tilfelli. Þrátt fyrir það er ekki litið svo á að bakterían valdi exeminu og í raun er engin ein útskýring á því hvers vegna exem myndast. Það má þó fullyrða að þar sem Staphylococcus aureus finnst í exemi er um erfið tilfelli að ræða.

Exem og ofnæmi

Enn sem komið er hefur læknavísindunum ekki tekist að skilgreina nákvæmlega hvað það er sem veldur exemi, enda getur sýnd þess verið ansi víðtæk. Við vitum þó að tenging er milli þess að þróa með sér exem og fæðuofnæmi. Það er að segja, börn sem eru með exem eru líklegri til að vera einnig með ofnæmi fyrir hnetum, mjólk eða eggjum svo eitthvað sé nefnt.

Fæðuofnæmi sem börn fá á unga aldri þroskast oft af þeim þegar ónæmiskerfið hefur náð nægjanlegum þroska til að skilja að fæðan er ekki hættuleg. Einhverjar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að hægt er að koma í veg fyrir ofnæmi með ákveðnum leiðum hjá börnum sem hafa tilhneigingu til að fá ofnæmi.

Í nokkrum rannsóknum þar sem börn með exem áttu í hlut var gerð tilraun á því að koma í veg fyrir mögulegt fæðuofnæmi. Börnin fengu þá mögulega ónæmisvalda í litlum skömmtum mjög snemma á lífsleiðinni. Við þessar aðgerðir varð hlutfall barna sem fengu fæðuofnæmi lægra, samanborið við börn sem ekki hafa fengið þessa meðferð.

Alvarlegt exem vísbending um fæðuofnæmi

Þegar einstaklingur er með ofnæmi gegn einhverju fæðutengdu bregst líkaminn við fæðunni sem óæskilegum hlut og sendir ónæmiskerfið af stað til að eyða því. Ónæmiskerfið byrjar á því að búa til mótefni af gerðinni IgE, sem setur svo af stað röð viðbragða sem kallast ónæmissvar.

Fylgni er á milli þess hve alvarlegt exemið er og líkunum á því að þróa með sér fæðuofnæmi. Þar að auki er fylgni á milli þess að fá alvarlegt exem og að vera með Staphylococcus aureus á húðinni.

Rannsóknarhópur við Kings College í London skoðaði þessa fylgni í kjölinn og komst í nýbirtri rannsókn að þeirri niðurstöðu að einstaklingar sem báru Staphylococcus aureus sýndi meira ónæmissvar en aðrir, óháð alvarleika exemsins.

Meira ónæmissvar í þessu tilfelli var mælt með aukningu á tjáningu á IgE mótefninu sem er fyrsta svar ónæmiskerfisins í fæðuofnæmi. Í rannsókninni var sérstaklega litið til eggja- og hnetuafurða og voru þátttakendur börn á aldrinum 12 til 60 mánaða.

Viðloðandi fæðuofnæmi

Þegar þátttakendum í rannsókninni var fylgt eftir kom svo í ljós að einstaklingar með S. aureus á húð losnuðu síður við ofnæmið. Börn sem fá ofnæmi gegn eggjum eða hnetum á unga aldri þroskast oft uppúr því og eru í mörgum tilfellum alveg laus við það við 5 ára aldur.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins við Kings College í London eru líkurnar á því minni þegar börnin eru með S. aureus á húð. Þá loðir ofnæmið við þau og ólíklegt er að þau losni nokkurn tíma við það.

Hjá þessum einstaklingum er þar að auki ólíklegt að hægt sé að koma í veg fyrir fæðuofnæmið með smáskömmtum. Þegar slíkar aðferðir voru prófaðar svöruðu einstaklingar með S. aureus þeirri meðferð verr. Þar sem bakterían var til staðar kom fæðuofnæmið fram hvernig sem þekktum aðferðum var beitt til að koma í veg fyrir það.

Önnur meðferð

Við getum skoðað og skilgreint bakteríuflóruna okkar nánast eins mikið og okkur dettur í hug. Þrátt fyrir það er erfitt að hafa stjórn á henni. Við höfum mjög takmarkað vald yfir því hvaða bakteríur við hittum á lífsleiðinni og hvort þær setjast að á líkama okkar, enn sem komið er að minnsta kosti.

Þess vegna er lítið hægt að gera fyrir einstaklinga sem eru í áhættu á að fá fæðuofnæmi og eru S. aureus berar. Með aukinni þekkingu á þeim áhættuþáttum sem ýta undir fæðuofnæmi er þó hægt að þróa nýjar meðferðir sem henta þessum einstaklingum.

Samkvæmt rannsókninni sem rædd er hér að ofan gerir það til dæmis lítið gagn að nota smáskammta á þessi börn. Vonandi þurfum við ekki að bíða lengi áður en ný tól koma til sem hægt verður að nota gegn S. aureus.  

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.