Ofþyngd og offita virðast kannski vera þreytt hugtök í umræðunni, enda ætti holdafar ekki að skipta nokkru máli. Það sem þó skiptir máli er heilsufar okkar og því miður er það svo að offita er tengd við aukna áhættu á fjölda sjúkdóma.

Offita hefur aukist gríðarlega síðastliðin 30 ár, í Bandaríkjunum hefur hlutfall einstaklinga sem glíma við offitu farið úr 15% árin 1976-1980 uppí 40% árið 2019. Á sama tíma glíma 33% Bandaríkjamanna við ofþyngd, ástand sem er oft undanfari offitu. Ætla má að allir þessir einstaklingar þurfi í gegnum ævina á meira heilbrigðisþjónustu að halda í samanburði við þá sem eru í kjörþyngd.

Það er af þessum ástæðum sem rannsóknir sem snúa að offitu og ofþyngd eru mikilvægar. Það skiptir máli að skilja hvað gerist í líkamanum til að skilja hvernig er hægt að koma í veg fyrir það, til að hámarka lífsgæði einstaklinga, a.m.k. hvað heilsufar þeirra varðar.

Rannsókn sem unnin var við University of Virginia, sem framkvæmd var í músum, bendir til þess að líkamsklukkan geti bæði haft áhrif á hvað við borðum og hvernig við vinnum úr því. Rannsóknin var birt í Current Biology snemma í þessum mánuði.

Í rannsókn hópsins í Virginu var fylgst með músum sem fengu mismunandi fæði yfir nokkra vikna skeið. Annars vegar fékk hópur af músum það sem mætti kallast náttúrulegt fæði og hins vegar fékk hópur af músum orkuríkt fæði, þ.e. kaloríuríkt fæði. Í báðum tilfellum var maturinn aðgengilegur hvenær sem er sólarhringsins.

Munurinn á milli hópanna kom á óvart, en mýsnar sem fengu orkuríkari mat voru líklegri til að borða allan sólarhringinn, þ.e. milli þess sem gæti talist máltíð en einnig voru þær líklegri til að borða á hvíldartímum. Þessar mýs voru líka líklegri til að fitna.

Þegar mýs sem ekki mynda dópamín, verðlaunaboðaefni sem við losum þegar við borðum góðan mat, fengu sömu meðferð voru niðurstöðurnar aðrar. Þegar engin verðlaunaboðefni voru til staðar héldu mýsnar réttum takti, óháð því hvort fæðan þeirra var orkurík eða ekki.

Líkamsklukkan er það sem stjórnar takti líkama okkar, segir okkur hvenær við erum þreytt og hvenær við erum svöng. Þessi klukka slær taktinn þegar kemur að öllum lífeðlisfræðilegum ferlum í hverri frumu líkama okkar og er því, eins og gefur að skilja, mjög mikilvægt tæki til að viðhalda heilbrigðum líkama.

Lífstíll sem setur þennan takt úr skorðum getur því haft meiri áhrif en virðist við fyrstu sýn. Að vaka og borða þegar við ættum að sofa hefur, samkvæmt þessari rannsókn, jafnvel meiri áhrif á okkur en að borða óhollan mat á matmálstímum.