Fátt annað en nýja kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19 kemst að í huga fólks þessa dagan. Líklegast þykir að veiran hafi fyrst komið upp í leðurblökum og síðan borist í menn, mögulega í gegnum óþekktan millihýsil. Covid-19 er langt því frá fyrsti veirusjúkdómurinn sem borist hefur í menn úr leðurblökum. Hlutfallslega hafa  töluvert margir veirusjúkdómar gert það í gegnum tíðina. Nokkrar ástæður virðast liggja þar að baki.

Flestir sjúkdómar eiga uppruna sinn í öðrum dýrum en mannfólki

Um 61% allra smitsjúkdóma sem mannfólk getur smitast af eiga uppruna sinn í öðrum dýrum dýraríkisins. Sjúkdómar sem smitast yfir í menn úr öðrum dýrum eru kallaðir súnur (e. zoonotic diseases). Þó sjúkdómar eigi uppruna sinn í hinum ýmsu dýrategundum er algengt að sjúkdómar berist í menn úr leðurblökum.

Sem dæmi má nefna að talið er líklegt að hundaæði eigi rætur sínar að rekja til leðurblaka. Ebólufaraldra má gjarnan rekja til þess að einstaklingar smitist af sjúkdómnum í gegnum leðurblökur. Aðrir veirusjúkdómar sem þekktir eru fyrir að smitast í menn frá leðurblökum eru meðal annars Marburg, Hendra og SARS, sem er náskyld Covid-19.

Hvers vegna leðurblökur?

Þrjár meginástæður eru taldar vera fyrir því að svo algengt sé að veirusjúkdómar eigi uppruna sinn í leðurblökum og raun ber vitni.

Í fyrsta lagi eru leðurblökur, líkt og við mannfólkið, spendýr. Þetta þýðir að þær eru nægilega skyldar mannfólki erfðafræðilega  til að veirur sem sýkja þær geti með tiltölulega auðveldu móti stökkbreyst þannig að þær geti einnig sýkt okkur mannfólkið. Þó dæmi séu til um að sjúkdómar berist í mannfólk úr dýrum sem ekki eru spendýr er algengara að þeir eigi uppruna sinn í öðru spendýri.

Í öðru lagi hafa leðurblökur aldrei orðið að húsdýrum. Þetta er mikilvægt að því leiti að við höfum þegar lifað í návígi við svín, hunda og kýr í fjölda ára og höfum því löngu komist í tæri við flesta þá sjúkdóma sem þessi dýr geta borið með sér. Mislingar, bólusótt og berklar eru til dæmis allt dæmi um sjúkdóma sem borist hafa í mannfólk úr húsdýrum. Það er því líklegra að nýjir sjúkdómar komi annarstaðar frá.

Í þriðja lagi lifa leðurblökur í stórum hópum. Vegna þessa er algengt að þær beri með sér sjúkdóma sem smitast auðveldlega á milli einstaklinga. Dýr sem yfirleitt eru ein á ferli í náttúrunni eru fremur slæmur kostur fyrir sýkla þar sem að litlar líkur eru á því að sýkillinn nái að dreifa sér að neinu viti ef dýrið rekst sjaldan á aðra einstaklinga sömu tegundar.

Hvernig komumst við í tæri við sjúkdóma úr leðurblökum?

Leðurblökur eru langt frá því að vera daglegt brauð á Íslandi og augljóst er að til þess að smitast af sjúkdómi úr leðurblökum þarf leðurblaka annað hvort að komast í beina snertingu við mannfólk eða heppilegan millihýsil. Í fjölda landa, sér í lagi í Asíu og Afríku, er snerting við leðurblökur þó algengara en við hér á landi eigum að venjast.

Heimsóknir í hella þar sem leðurblökur halda sig skapar vettvang fyrir smit. Að auki leggja íbúar sumra landa leðurblökur sér til munns sem enn opnar á smitleiðir.

Í tilfelli Covid-19 er ekki að fullu ljóst nákvæmlega hvaðan fyrsta smitið í menn kom. Þó er talið að markaður í Wuhan í Kína, sem seldi bæði lifandi og dauð dýr, hafi verið magnari fyrir smitin. Markaðir líkt og þessi tiltekni markaður selja gjarnan bæði húsdýr og villt dýr. Þannig getur fólk komist í snertingu við dýr sem geta borið með sér nýja sjúkdóma á borð við Covid-19 sem er vafalaust ekki síðasti nýji sjúkdómurinn sem mun berast í mannfólk úr leðurblökum.

Greining birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.