screen-shot-2017-04-18-at-21-00-46

Sárabindi sem hafa þann eiginleika að vakta vefjaskemmdir, svokölluð snjallsárabindi, hafa verið í þróun í nokkurn tíma. Nú stendur til að hefja klínískar prófanir á sárabindunum innan 12 mánaða.

Í snjallsárabindunum er að finna agnarsmáa nema sem eiga að meta ástands sársins og senda upplýsingar um það í gegnum 5G net. Vonir standa til að þannig verði hægt að fylgjast með gróanda sára og taka ákvarðanir um áframhaldandi meðferð án þess að fjarlægja þurfi sárabindið.

Það eru vísindamenn við Institute of Life Science (ILS) við Swansea háskóla í Wales sem vinna að gerð snjallsárabindanna og vonast þeir til þess að klínískar prófanir geti hafist innan 12 mánaða.

Í samtali við BBC sagði Marc Clement, prófessor við ILS að sárabindið gæti ekki aðeins metið ástand sársins heldur einnig greint ýmisar aðrar upplýsingar um sjúklinginn í gegnum snjallsíma hans, til dæmis hvar hann væri staðsettur og hversu mikið hann hreyfði sig.

Tæknin var fyrst kynnt til sögunnar árið 2015 í tímaritinu Nature Communications og var þá prófuð á rottum. Nú virðist styttast í klínískar prófanir í mönnum en óvíst er hvort eða hvenær snjallsárabindi koma á markað þar sem að slíkar prófanir eru tímafrekar og undir ströngu eftirliti.