medical-1572970_1280

Í krabbameinsmeðferðum, líkt og meðferðum gegn öðrum sjúkdómum, mæla læknar gegn því að sjúklingar þeirra nýti sér óhefðbundnar lækningar í stað hefðbundinna. Þetta er gert af þeirri einföldu ástæðu að ástæðan fyrir því að óhefðbundnar lækningar eru kallaðar óhefðbundnar er að ekki hefur tekist að sýna fram á að þær virki.

Þrátt fyrir þetta getur verið freistandi fyrir sjúklinga að nýta sér óhefðbundnar lækningar þegar sölumenn þeirra lofa skjótum bata án allra aukaverkana.

Nýbirt rannsókn færir enn frekari rök gegn því að krabbameinssjúklingar snúi sér frá hefðbundnum lækningum. Samkvæmt niðurstöðunum eru sjúklingar sem gera það 2,5 sinnum líklegri til að láta lífið af völdum krabbameinsins innan fimm ára en þeir sem nýta sér sannreyndar meðferðir.

Rannsóknin var unnin af rannsóknarhópi við Yale háskóla. Í henni tóku vísindamenn saman gögn úr krabbameinsgagnagrunni í Bandaríkjunum (National Cancer Database) sem inniheldur um 34 milljón sjúkraskrár einstaklinga þar í landi sem fengið hafa krabbamein.

Rannsóknarhópurinn fylgdi eftir 840 einstaklingum sem allir voru greindir með krabbamein árið 2004. Þar af kusu 280 að nýta sér óhefðbundnar lækningar í stað hefðbundinna en 560 kusu hefðbundnar lækningar.

Eftir fimm ár voru 78,3% þeirra sem nýttu sér hefðbundnar lækningar enn á lífi en aðeins 54,7% þeirra sem nýttu sér óhefðbundnar lækningar. Ekki var skoðað hvaða óhefðbundnu lækningar sjúklingarnir nýttu sér.

Fjórar gerðir krabbameins voru skoðaðar og voru lífslíkurnar mismunandi eftir því hvaða gerð krabbameins einstaklingarnir voru með. Þeir sem voru greindir með ristilkrabbamein voru fjórum sinnum líklegri til að láta lífið innan fimm ára ef þeir nýttu sér aðeins óhefðbundnar lækningar. Þeir sem greindust með lungnakrabbamein voru aftur á móti tvisvar sinnum líklegri til að láta lífið á innan við fimm árum og konur sem greindust með brjóstakrabbamein voru fimm sinnum líklegri til að deyja af völdum sjúkdómsins innan fimm ára.

Ekki var marktækur munum hjá karlmönnum með krabbamein í blöðruhálskirtli. Rannsóknarhópurinn bendir á að það megi skýra með því að blöðruhálskirtilskrabbamein er sjúkdómur sem almennt þróast hægt og fimm ár sé því ekki nægur tími til að munur komi í ljós.

Niðurstöðurnar styðja það sem áður hefur verið vitað, það er að krabbameinssjúklingar eiga bestar lífslíkur ef sannreyndar meðferðir eru nýttar til að berjast gegn sjúkdómnum.

Greinin birtist í tímaritinu Journal of the National Cancer Institute.