Þrátt fyrir að það hafi aldrei verið auðveldara að vera í samskiptum við annað fólk er einmanaleiki vaxandi vandamál í Vestrænum löndum. Einmanaleiki hefur í raun verið skilgreindur sem faraldur af sumum sérfræðingum sem vinna einmitt að því að leysa vandann.

Einmanaleiki gegnir mikilvægu hlutverki

Í þróunarfræðilegum skilningi gegnir einmanaleiki mikilvægu hlutverki. Líkt og aðrar grunnþarfir okkar, á borð við hungur og þorsta er einmanaleiki merki líkamans um það að við þurfum að sækja í eina af mikilvægustu þörfum okkar: tengsl við annað fólk.

Á undanförnum áratugum hafa vissar breytingar orðið á samfélögum mannfólks víða um heim. Þrátt fyrir að við séum sítengt í gegnum snjalltæki og samfélgasmiðla hafa breytingar á búsetumynstri og hegðun okkar orðið til þess að samskipti á milli einstaklinga í eigin persónu hafa minnkað. Sífellt fleiri búa einir auk þess sem færri giftast og fólk eignast víða færri börn en áður var. 

Erfitt er að meta nákvæmlega hversu margir glíma við langvarandi einmanaleika. Í Bandaríkjunum hefur hann verið metinn á bilinu 22-76%.

Einmanaleiki slæmur fyrir heilsuna

Við þekkjum öll að einmanaleiki er slæm tilfinning en langvarandi einmanaleiki getur þar að auki haft neikvæð áhrif á heilsufar okkar. Rannsóknir hafa sýnt að langvarandi einmanaleiki eykur til að mynda líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum, taugahrörnunarsjúkdómum og meinvarpandi krabbameinum. Einmanaleiki getur auk þess haft neikvæð áhrif á virkni ónæmiskerfis okkar og við verðum líklegri til að þróa með okkur sýkingar.

Einmanaleiki er því í raun ekki svo ólíkur sjúkdómum á borð við kvíða og þunglyndi þegar kemur að áhrifum hans á heilsu okkar. Ólíkt þeim er þó engin klínísk skilgreining á einmanaleika og engin lyf eru til, til að vinna gegn honum.

Unnið að lausnum

Hjónin Stephanie og John Cacioppo, sérfræðingar í taugavísindum sem eru meðal þeirra sem hafa rannsakað einmanaleika. Áður en John lést í mars 2018 höfðu hjónin byrjað að kanna möguleikann á því að þróa lyf gegn einmanaleika og hefur Stephanie haldið þeirri vinnu áfram eftir andlát hans.

Stephanie Cacioppo er ekki ein um að vinna að þessu markmiði. Klínískar prófanir hafa nú  þegar hafist þar sem áhrif krónísks einmanaleiki á heilann og taugakerfið eru skoðuð með það að markmiði að þróa leiðir til að vinna gegn honum.

Að sögn Cacioppo stafar einmanaleiki að því að boð í líkamanum sem gegna því hlutverki að hvetja okkur til að eiga samskipti við annað fólk víxlverka við einskonar ranghugmyndir í huga okkar sem skynjar óraunverulegar hættur. Þetta getur orðið til þess að fólk sé ólíklegra til þess að sækja í samskipti við aðra, þrátt fyrir að upplifa einmanaleikatilfinningu. 

Cacioppo vonast til þess að hægt verði að finna leiðir í framtíðinni sem koma í veg fyrir neikvæð áhrif einmanaleika á líkama okkar og huga. Tilgangurinn sé þó ekki að koma alfarið í veg fyrir að fólk upplifi einmanaleika, enda er það eðlileg tilfinning upp að vissu marki.

Sterar sem örva heilann

Cacioppo bindur vonir við stera sem örva taugakerfið, nánar tiltekið pregnenolone. Rannsóknir a pregnenolone hafa sýnt fram á að það getur dregið úr streitu auk þess sem það getur dregið úr ofurárvekni í heilanum.

Meðal þess sem að vísindamenn hafa komist að um pregnenolone er að ef mýs eru einangraðar frá öðrum músum dregur úr styrk pregnenolones í þeim. Þetta er samsvarandi því sem á sér stað hjá einmana mannfólki. 

Rannsóknarhópur sem Cacioppo tengist ekki komst einmitt að því árið 2013 að þegar 31 manneskju var gefið efni sem nefnist allopregnanolone, sem er afleiða af pregnenolone hafði það róandi áhrif á svæði heilans sem bera ábyrgð á því að skynja meðal annars ógnir og tilfinningalegar minningar.

Klínískar prófanir standa yfir

Cacioppo sagði í samtalið við The Guardian að með því að finna leið til þess að draga úr viðvörunarmerkjum í heilum einmana einstaklinga gæti reynst auðveldara að hvetja þá til að finna leiðir til að tengjast öðrum í stað þess að halda sig í einmanaleikanum. 

Í nýjustu rannsókn Cacioppos er þetta einmitt viðfangsefnið. Hún og rannsóknarteymi hennar gáfu heilbrigðum einmana einstaklingum 400mg skamt af pregnenolone. Rannsóknin hófst í maí árið 2017 og stendur yfir til júní 2019 svo niðurstöður liggja ekki fyrir enn. Rannsóknarhópurinn hefur þó hafið greiningarvinnuna og eru hóflega bjartsýn á að sá hópur sem tók inn lyfið á rannsóknartímabilinu komi til með að sýna marktækt minni einmanaleika en samanburðarhópur sem tók inn lyfleysu.

Pregnenolone ekki endilega töfralausn

Þó framtíðin beri mögulega í skauti sér lyf gegn einmanaleika er einnig hægt minnka vanlíðan af völdum hans án lyfja. Fyrir þá sem telja sig þjást af einmanaleika getur verið mikilvægt skref að segja fjölskyldu og vinum, séu þeir til staðar, frá vandanum og óska eftir frekari samskiptum. Það getur auk þess hjálpað að ganga til liðs við hópa sem deila svipuðum áhugamálum til að finna fyrir auknum tilgangi í lífinu. 

Að sjálfsögðu er eðlilegt að fólk finni fyrir einmanaleika stöku sinnum og eru ekki allir sammála um ágæti þess að þróa lyf til að vinna gegn honum. Að mati Cacioppo og rannsóknarteymis hennar er þó hagur í því að til sé meðferðarúrræði í lyfjaformi sem hjálpar okkur að koma í veg fyrir að fólk einangrist félagslega vegna einmanaleika.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.