Einn af algengustu sjúkdómum sem við glímum við í nútímasamfélagi er krabbamein. Krabbamein næst algengasta dánarorsök í heiminum á eftir hjarta- og æðasjúkdómum. Þó oft sé talað um krabbamein sem einn sjúkdóm þá er það frekar einfölduð mynd af raunveruleikanum.

Krabbamein er samansafn flókinna sjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að birtast sem ofvöxtur frumna. Krabbamein geta komið fram í nær öllum mögulegum líffærum og bera þau nafn sitt oft af þeim líffærum sem þau birtast fyrst í.

Á hverjum degi verða frumurnar okkar fyrir áreiti sem valda skemmdum í erfðaefninu. Viðgerðarferlar frumnanna koma þó í veg fyrir að þessar skemmdir viðhaldist, annað hvort er gert við skemmdirnar eða frumurnar fremja sjálfsmorð, þ.e. fara í stýrðan frumudauða. En stundum sleppa skemmdir framhjá kerfunum. Í mörgum tilfellum gerir það ekkert til og skemmdirnar hafa ekki áhrif á hæfni frumnanna. Í sumum tilfellum getur það þó haft alvarlegar afleiðingar og leitt til sjúkdóma á borð við krabbameins.

Frumur sem mynda krabbamein bera iðulega í sér skemmdir í erfðaefninu sem breyta hegðun þeirra. Frumurnar hætta því að taka tillit til nágranna frumna sinna og virka ekki lengur í takt við líffærið sem þeim er ætlað að starfa í. Það má orða það sem svo að þær stígi á bensíngjöfina og sleppa bremsunni, án þess að taka tillit til annarra vegfarenda, aðstæðna á veginum eða ástand búnaðarins sem þær eru að keyra.

Nokkur stig krabbameina
Krabbameinsvöxtur er langt ferli sem hefst löngu áður en frumuklasinn verður nægilega stór til að sjást. Skemmdir á erfðaefninu geta safnast upp og valdið því að frumurnar verða minna og minna í takt við umhverfi sitt. Að auki getur áreiti úr umhverfi frumnanna brenglað skynjun þeirra á hlutverki sínu og haft sömu áhrif.

Þegar fyrstu skrefin í átt að krabbameinsmyndun hefjast verður oft til vítahringum sem ýtir undir frekari brenglun. Sem dæmi má nefna að fruma sem heldur að hún eigi að skipta sér hratt gefur sér kannski ekki tíma til að klára viðgerðarferla og þannig verða til fleiri skemmtir í erfðaefninu. Frumuklasinn sem upprunalega myndar krabbameinið er því misleitur hópur frumna sem þróast saman í að verða krabbamein.

Ef krabbameinið nær nægjanlegri stærð getur það farið að valda skemmdum innan líffærisins sem það vex í. Vöxturinn getur bæði hindrað eðlilega starfsemi líffærisins og skemmt útfrá sér og er þetta ferli er mjög misjafnt eftir líffærum og gerð meinsins.

Næsta skref krabbameinsins er svo að brjótast útúr vefnum, koma sér milli staða í líkamanum og taka sér bólfestu á nýjum stað. Þetta ferli sem yfirleitt er skilgreint sem fjórða stigs krabbamein, og er líst með hugtakinu meinvarpandi krabbamein.

Meinvörp eru erfiðust
Til að öðlast eiginleikann til að meinvarpast þurfa krabbameinsfrumurnar að hafa þróað með sér ótrúlega hæfileika. Þær þurfa ekki einungis að komast útúr þeim vef sem þær starfa í heldur þurfa þær einnig að hafa getuna til að setjast að í nýju líffæri. Það eru eiginleikar sem einungis mjög brenglaðar frumur hafa tileinkað sér.

Meinvörp bera þess merki að krabbameinið er á hreyfingu sem eðli málsins samkvæmt gerir heilbrigðisstarfsfólki erfiðara fyrir að finna það og öll þess fræ. Það sem gerir leitina að meinvörpum sérstaklega erfiða er að meinvörpin geta komið fram í nánast hvaða líffæri sem er, þó flest krabbamein eigi sér uppáhalds viðkomustaði. Að auki geta frumurnar sem valda meinvörpunum verið á mörgum stöðum í (meinvarps)ferlinu.

Lyf sem læknar öll krabbamein er goðsögn
Flest krabbameinslyf sem leitað er að í dag með krabbameinsrannsóknum miða að því að búa til sértæk lyf sem hægt er að nota á upprunakrabbameinið. Ný lyf eru því yfirleitt sértækt gegn þeim breytingum sem einkenna það tiltekna krabbamein.

Breiðvirk krabbameinslyf miða yfirleitt á að drepa frumur í örum vexti og slík lyf eiga bágt með að greina krabbameinsfrumur frá heilbrigðum frumum. Með sértækari lyfjum er því oft hægt að koma í veg fyrir ýmsar aukaverkanir. Þau duga einnig betur til að losa líkamann við skemmdar frumur sem bera ekkert endilega einkenni krabbameina þó þær hafi getuna til að mynda það.
Lyf sem hindrar ferðalög frumnanna miðar á að stöðva meinvörp

Rannsóknarhópur við Oregon Health & Science University leitaðist við að finna sameind sem hefði áhrif á hreyfanleika krabbameinsfrumna og þannig eiginleika þeirra til að meinvarpast. Slíkt lyf er því ekki sértækt fyrir ákveðið krabbamein, heldur er það sértækt fyrir ákveðin stig krabbameina.

Við leit sína fann hópurinn KBU2046, sameind sem hindrar virkjun á próteini sem kallast Heat shock protein 90 β (HSP90β). Þegar sameindin er til staðar binst það við prótín sem sér um kveikja á HSP90β.

Hvers vegna virkni HSP90β hefur áhrif á meinvörp er ekki vitað, en það sem mestu máli skipti í þessari rannsókn var að finna lyf sem gæti hindrað meinvörp, sama hvaða þau ættu uppruna sinn.

Þegar virkni KBU2046 var prófuð kom í ljós að lyfið hindrar hreyfanleika brjósta-, ristil-, blöðruhálskirtils- og lungnakrabbameinsfrumna. Minni hreyfanleiki frumnanna þýðir að þær hafa minni getu til að meinvarpast. Að auki hafði sameindin neikvæð áhrif á myndun meinvarpa í músum með krabbamein.

Framfarir í meðferð krabbameinssjúklinga
Verði hægt að þróa lyf sem nota má í mönnum úr KBU2046 mun það væntanlega hafa stórkostleg áhrif á krabbameinsmeðferð eins og við þekkjum hana í dag. Sér í lagi mun þetta hafa áhrif á þá einstaklinga sem greinast með krabbamein á síðari stigum.

Þar sem sameindin virðist hafa áhrif í a.m.k. fjórum mismunandi vefjum er notkun hennar ekki bundin við tiltekin krabbamein. Þó er sameindin nægilega sértæk til að hafa lítil áhrif á heilbrigðar frumur, sem ekki eru að reyna að smygla sér á milli líffæra.

Því má þó ekki gleyma að lyf eða meðferðir sem ráðast að rót vandans, þ.e. upprunakrabbameininu sjálfu, mun alltaf vera nauðsynleg. Þó hægt verði að stöðva meinvarpandi frumur með KBU2046 þarf alltaf að stöðva krabbameinsvöxtinn í upprunalíffærinu.

Krabbameinsmeðferðir í dag miða oft að því að ráðast á óvininn frá mörgum sjónarhornum og ef áframhaldandi rannsóknir gefa góða raun mun KBU2046 gefa okkur enn eitt sjónarhornið í hernaðinn gegn krabbameini.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar