Svefn hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af tilveru okkar. Þegar við skoðum þróunarsögu lífs er ljóst að fyrirbærið svefn þróaðist löngu á undan manninum og löngu á undan hryggdýrum ef því er að skipta.

Eins og svefninn er yndislegur þá er margt sem við skiljum ekki enn við hann. Stærsta spurningin er sennilega, hvers vegna þurfum við á honum að halda? Ef maðurinn væri villt dýr útí náttúrunni settum við okkur í stórhættu á hverri einustu nóttu meðan við sofum og rándýrin vappa um.

Svefn er nauðsynlegur

Við finnum það flest á eigin skinni hvað svefn er mikilvægur fyrir okkur. Það þarf varla nema eina óvenju stutta nótt til að líkaminn fari að kvarta. Raunar er það svo að svefnleysi getur að endingu dregið mann til dauða.

Það eru nefnilega ótal hlutir sem eiga sér stað inní frumunum okkar þegar þær detta úr svefntakti, og það eru þessir hlutir sem birtast okkur í óþægindum vegna svefnleysis. Það er nefnilega mikilvægt að byggingaeiningar líffæranna (frumurnar) starfi rétt svo líffæri getir gert sitt gagn.

Svefn og heilinn

Eitt af okkar flóknustu líffærum, heilinn, virkar ekki sem skyldi þegar við höfum ekki fengið nægjan svefn, sem dæmi er nauðsynlegt að fá nægan svefn svo að minnið virki rétt og að auki hafa fjölmargar rannsóknir tengt saman svefnleysi og elliglöp eða jafnvel hrörnunarsjúkdóma á borð við Alzheimers.

Svefnleysi eða truflun á svefni hefur áhrif á líkamsklukkuna okkar. Klukkan sem er innbyggð í okkur hvert og eitt er stjórnað af nákvæmum tímasetningum genatjáningar á ákveðnum genum sem sjá um stillingu hennar. Þegar svefninn fer forgörðum verður líka truflun á þessari genatjáningu, með fyrrgreindum afleiðingum.

Áhrif svefns á sameindalíffræði okkar

Með vaxandi fjölda rannsókna á svefni færumst við alltaf nær því að skilja hvað gerist þegar við sofum sem gerir svefn svona nauðsynlegan. Ein slík var birt í Nature Communitcations í byrjun mars. Þar sem áhrif svefns voru skoðuð á taugakerfið í zebra fiskum.

Skyggnst inní heila zebra fiska

Rannsóknarhópur við Bar-Ilan University í Ísrael skoðaði hvað gerist inní kjarna frumnanna meðan fiskarnir sofa, nánar tiltekið kjarna taugafrumna. Taugafrumur eru nauðsynlegar til að koma boðum á milli heilans og annarra líffæra. En taugaboð gefa líka af sér aukaafurð, eins og reyndar flest efnahvörf í líkama okkar, sem kallast oxandi efni.

Þessi oxandi efni geta haft neikvæð áhrif á erfðaefnið okkar í þeim skilningi að þau ýta undir stökkbreytingar og geta leitt til brota á erfðaefninu. Allar frumur líkamans lenda í slíkum óhöppum, ekki bara einu sinni heldur oft á dag og þess vegna eru líkamsfrumur okkar allar með innbyggða viðgerðarferla.

DNA viðgerðir framkvæmdar á nóttunni

Samkvæmt niðurstöðum ísraelska rannsóknarhópsins er svefn lykillinn að því að hægt sé að gera við skemmdir á erfðaefninu í taugafrumum. Þau skoðuðu hversu opið og aðgengilegt erfðaefnið var í vöku eða svefni hjá fiskunum.

Meðan fiskarnir sváfu sýndi erfðaefni meiri hreyfanleika sem bendir til þess að þá hafi viðgerðarferlar verið í gangi til að laga erfðaefnið á ýmsum stöðum. Þessu var svo öfugt farið þegar fiskarnir vöktu, þá var erfðaefnið lokaðra og minna hreyfanlegt sem getur þýtt að minna aðgengi sé fyrir viðferðarprótínin að komast að.

Taugafrumur sér á báti

Hópurinn skoðaði einnig hreyfanleika erfðaefnisins í öðrum frumugerðum, nánar tiltekið þekjufrumum og Scwann frumum, sem mynda fituslíður utan um taugafrumurnar.  

Við þær athuganir kom í ljós að taugafrumurnar voru alveg sér á báti með breytileika í hreyfanleika erfðaefnisins í vöku eða svefni. Þetta gæti útskýrt tenginguna milli svefnleysis og heilahrörnunar. Þegar frumurnar ná ekki að hvílast, verður lítið um viðgerðir á erfðaefninu en skemmdirnar eiga sér samt sem áður stað.

Skemmdirnar safnast þá upp og frumurnar geta orðið óstarfhæfar sem annað hvort leiðir til þess að þær virka ekki rétt eða að þær fara í svokallaðan stýrðan frumudauða og deyja. Hvort sem er getur haft slæmar afleiðingar á taugakerfið.

Við skulum því ekki vanmeta hvaða áhrif góður og mátulega langur svefn getur haft á heilsu okkar.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.