Niðurstöður rannsóknar sem birtust í maí mánuði benda til þess að fólk sem er á mataræði sem inniheldur mikið magn af mikið unnum matvælum er líklegra til að þyngjast samanborið við þá sem halda sig við lítið- eða óunnin matvæli. Rannsóknin er sú fyrsta á sínu sviði sem er stýrð af vísindamönnum að fullu. Fyrri rannsóknir hafa að mestu verið athugunarrannsóknir.

Áhrif mikið unnis mataræðis illa þekkt

Flest erum við meðvituð um það að matvæli sem eru mikið unnin eru sjaldnast besti kosturinn. Aðgengi að slíkri fæðu hefur þó aldrei verið auðveldari auk þess sem hún er oft ódýrasti valmöguleikinn.

Aukin inntaka á unnum matvælum hefur meðal annars verið tengd við aukna tíðni offitu en fram að þessu hefur ekki verið sýnt fram á hvort unnin fæða stuðlar raunverulega að þyngdaraukningu eða öðrum neikvæðum áhrifum á heilsufar fólks.

Til þess að auka þekkingu á þessu sviði kannaði rannsóknarhópur innan Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna (National Institutes of Health) áhrif þess að vera á mataræði sem innihélt mikið unna fæðu samanborið við mataræði sem samanstóð að óunninni eða lítið unninni fæðu.  

Hvað er mikið unnin fæða?

Mikið unnin matvæli innihalda takmarkað magn af óunninni matvöru. Unnin matvæli innihalda orku sem almennt fengin úr ódýrum orkugjöfum auk aukefna. Meðal innihaldsefna sem algengt er að finna í mikið unnum matvælum eru hertar olíur, háfrúktósa maíssýróp, bragðefni og ýruefni.

Matvæli eru flokkuð eftir því hversu mikið unnin þau eru í fjóra flokka: 1) óunnin eða lítið unnin matvæli, 2) unnin innihaldsefni til matreiðslu, 3) unnin matvæli og 4) mikið unnin matvæli.

Borðuðu mikið unnin matvæli í tvær vikur

Þátttakendur í rannsókninni voru 20 fullorðnir einstaklingar, 10 konur og 10 karlar, í kringum 30 ára aldur. Þátttakendur dvöldu á klínískri miðstöð Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna í 28 daga. Valið var af handahófi í tvo hópa sem annars vegar borðuðu mikið unnið mataræði eða lítið unnið mataraæði í tvær vikur. Að þessum tveimur viknum loknum skiptu þau um mataræði í tvær vikur til viðbótar.

Sem dæmi um samanburðinn á milli mataræðisins sem þátttakendurnir fengu gat morgunverður í fyrrnefnda hópnum til dæmis samanstaðið af beyglu með rjómaosti og kalkúnaskinku. Dæmi um morgunverð þegar fólk var á lítið unnu mataræði voru hafrar með banana, valnhentum og léttmjólk.

Tóku inn um 500 fleiri hitaeiningar á mikið unnu mataræði

Þrátt fyrir að þátttakendur hefðu val um að borða nákvæmlega sama fjölda hitaeininga og nákvæmlega sama magn sykurs, fitu, trefja, próteina og kolvetna borðuðu þeir fleiri hitaeiningar þegar þeir voru á mikið unnu mataræði. Munurinn var að meðaltali um 500 hitaeiningar á dag. Að auki þyngdust þeir sem voru á unnu mataræði um að meðaltali 0.9 kíló á meðan þeir léttust um svipað mikið á lítið unnu mataræði.

Þátttakendur á mikið unnu mataræði borðuðu auk þess marktækt hraðar en þeir sem voru á lítið unnu mataræði. Þrátt fyrir þetta sögðu þátttakendur mataræðin tvö jafn bragðgóð og voru ekki meðvituð um það að þau hefðu meiri matarlyst á mikið unna mataræðinu.

Trefjar tapast í framleiðsluferlinu

Eitt af því sem einkennir mikið unnin matvæli er að þau innihalda almennt lítið af trefjum. Þetta kann að vera einn af þáttunum sem spilaði inn í aukna inntöku á hitaeiningum og kemur heim og saman við fyrri rannsóknir á sama sviði. Niðurstöður rannsóknar frá árinu 2014 bentu til dæmis til þess að mikilvægt sé að matvæli haldi formi sínu til þess að koma í veg fyrir ofát.

Trefjar tapast í framleiðsluferli á unnum matvælum og skortur á þeim leiðir til þess að auðveldara verður að borða unnin matvæli hraðar en óunna trefjaríka fæðu. Til þess að sporna gegn þessu í rannsókninni passaði rannsóknarhópurinn upp á að trefjainnihald í mikið unna mataræðinu væri það sama og í lítið unna mataræðinu. Þetta var gert með því að bæta trefjabætiefnum við drykki. Þessi trefjaviðbót breytti ekki þeirri staðreynd að trefjar í trefjaríkri fæðu birtast á annan hátt, sem hefur áhrif á það hvernig við borðum trefjaríka fæðu.

Trefjar eru mikilvægur hluti af uppbyggingu fæðunnar. Til dæmis hjálpa trefjar við það að gefa ávöxtum lögun sína. Þegar við borðum heila appelsínu fylgir stór hluti af trefjunum með. Þetta er ólíkt því sem gerist þegar við drekkum appelsínusafa sem ekki inniheldur trefjarnar sem ávöxturinn sjálfur inniheldur.

Það gefur auga leið að það tekur lengri tíma að borða appelsínu en það tekur að drekka samsvarandi hitaeiningafjölda í formi appelsínusafa. Þetta virðist vera einn vandinn sem fylgir því að borða mikið af mikið unnum matvælum, við hreinlega borðum hann hraðar og eigum þá á hættu að borða fleiri hitaeiningar en við hefðum gert ef um óunnin eða lítið unnin matvæli hefði verið að ræða.

Ekki á allra færi að draga úr unnum matvælum

Meginniðurstöður rannsóknarinnar sem hér um ræðir voru þær að með því að útiloka mikið unnin matvæli í mataræði sínu geti fólk hugsanlega minnkað heildar hitaeiningafjöldann sem það innbyrðir. Höfundar greinarinnar benda þó einnig á að vegna þess að unnin matvæli eru gjarnan ódýrari en þau óunnu er það ekki á allra færi að útiloka þau úr mataræði sínu.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Cell Metabolism.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.