Enn og einu sinni kemur sýklalyfjaónæmi inná borð lesenda okkar. Sýklalyfjaónæmi er vaxandi ógn í heiminum og öllum fjármunum sem varið er í að rannsaka það er sannarlega vel varið, jafnvel þó þróun nýrra sýklalyfja virðist ganga hægt.

Rannsókn sem birt var í Science Translational Medicien gefur tilefni til bjartsýni hvað varðar þróun nýrra sýklalyfja. Í henni er nýju peptíði lýst sem mögulega verður hægt að nota sem sýklalyf eða getur gefið þekktum sýklalyfjum aukið vægi gegn bakteríum.

Peptíði sem heitir SAAP-148 er í raun afleiða af peptíðinu LL-37, sem er hluti af fyrstu viðbrögðum ónæmiskerfis okkar þegar sýking á sér stað. LL-37 er mjög mikilvægt peptíð þegar kemur að upphafsviðbrögðum líkamans en það hefur bakteríudrepandi áhrif.

Þess vegna var ákveðið að notast við þetta peptíð sem nokkurs konar grunnbyggingur þegar kom að leitinni að nýju efni sem gæti mögulega nýst sem sýklalyf. Eftir rannsóknir á mörgum afleiðum af peptíðinu kom sú afleiða sem gengur undir nafninu SAAP-148 best út.

Sú afleiða var prófuð með tilliti bakteríudrepandi áhrifa í sýktri húð músa og kom það einstaklega vel út. Sömu áhrif sáust einnig í mannafrumum í rækt, sýktum með sömu bakteríum. Bakteríurnar sem voru notaðar í rannsókninni voru annars vegar af gerðinni Staphylococcus aureus og hins vegar Acinetobacter baumannii, en báðir stofnarnir hafa að geyma einhvers konar sýklalyfjaónæmi.

Það sem SAAP-148 gerir aðallega er að hindra myndun bakteríufilmu. Það er þekkt að bakteríur mynda slíka filmu, hvort sem þær eru sýkjandi eður ei en filman samanstendur ekki bara af bakteríum heldur er nokkurs konar slímlag ofan á þeim sem verndar þær fyrir utanaðkomandi áreiti. Sé komið í veg fyrir myndun filmunnar eru verndandi áhrif hennar ekki lengur til staðar og það auðveldar bæði SAAP-148 og öðrum lyfjum að komast að.

Næstu skref eru að skoða hvaða áhrif SAAP-148 hefur á menn, en fyrstu tilraunir sem gerðar hafa verið á frumum í rækt gefa jákvæðar vísbendingar, eins og tekið var fram hér að ofan. Vonandi munum við fljótlega sjá SAAP-148 sem hluta af vopnabúri okkar í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum.