Örveruflóran er heitasta lumman í lífvísindum í dag og skal engan undra þar sem þetta merkilega fyrirbæri virðist hafa áhrif hvar sem gripið er niður. Hvatanum er tíðrætt um örveruflóruna og ekki að ástæðulausu, örveruflóran spilar risastórarullu í lífheiminum, líka í þroskun taugakerfisins.

Í rannsókn sem birtist í Nature núna í lok september er rannsóknarhópur við UCLA í Californiu að skoða hvernig örveruflóra móður getur haft áhrif á þroskun taugabrauta í músaungum. Forsaga þessara rannsókna eru vísbendingar þess efnis að músaungar sem þroskast og fæðast í örverusnauðu umhverfi hafa minnkaða skynjun. Sýnt hefur verið fram á að þessir músaungar hafa einnig styttri og færri taugabrautir við fæðingu, samanborið við músaunga sem þroskast ekki í örverusnauðu umhverfi.

Til að skoða þetta nánar notaði UCLA hópurinn þrjá mismunandi músastofna, einn sem hafði eðlilega örveruflóru, einn stofn þar sem örveruflóran var drepin með yfirgripsmiklum sýklalyfjakúr og loks einn sem var algjörlega alinn í örverusnauðu umhverfi. Músaungar innan þessara hópa voru svo bornir saman hvað varðar til dæmis genatjáningu.

Þar sem áður hafði verið sýnt fram á fækkun og styttingu taugabrauta lá beinast við að skoða muninn á tjáningu þeirra gena sem vitað er að stjórna þroskun taugabrauta. Skemmst er frá því að segja að mjög skýr munur sást á milli þeirra hópa sem þroskuðust í örverusnauðu umhverfi og þeirra sem ólust í umhverfi með eðlilegri örveruflóru, þ.e. hjá móður sem hafði eðlilega örveruflóru.

Til að skilgreina hvað það var sem hafði áhrif á þroskun taugakerfisins prófaði hópurinn að kynna til sögunnar einn og einn bakteríuhóp sem vitað er að tilheyrir oft örveruflóru músa, og manna reyndar líka ef útí það er farið. Þegar kom að því að kynna örversnauðarmýs fyrir bakteríum úr hópi Clostridia, tók rannsóknin ánægjulega stefnu, þar sem breytileikanum í þroskun taugabrauta virtist vera viðsnúið.

Þessi rannsókn hafði því náð að útskýra tvennt, að örveruflóran hefur áhrif á genatjáningu í músafóstrum og að Clostridia gegnir þar lykilhlutverki. Næst lá beinast við að spyrja, hvernig fer þessi hópur baktería að því að hafa áhrif á genatjáningu í fóstrum sem eru umvafin legvatni og himnum sem vernda þær frá öllum utanaðkomandi þáttum?

Svarið fannst í blóði mæðranna. Rannsóknarhópurinn skoðaði samsetningu metabolíta, efna sem verða til við ýmsa lífræna ferla og niðurbrot, í blóðsýnum frá músunum úr mismunandi hópum. Margt fannst sameiginlegt í blóðsýnunum, en það sem rannsóknarhópurinn leitaði sérstaklega eftir voru metabolítar sem fundust í mismunandi magni í blóði músanna.

Fjögur efni stóðu uppúr í rannsókninni sem líklegustu metabolítarnir til að hafa áhrif á fósturþroska, vegna þess að styrkur þeirra fannst í tvöföldu magni í blóði músa með eðlilega örveruflóru. Þegar rannsóknarhópurinn gaf músunum þessi tilteknu efni í gegnum fæðu, virtust efnin vega upp á móti örveruskortinum hjá músarfóstrunum og eðlilegur þroski taugakerfisins sást hjá músaungunum.

Af þessu má draga þá ályktun að þó örveruflóran sem slík nái ekki til músaunganna á fósturstigi, þá hefur virkni hennar áhrif á líf einstaklingsins strax frá upphafi. Rannsóknin styrkir enn frekar þær stoðir að örveruflóran spilar gríðarstóra rullu í heilbrigði okkar. Svo stórt er hlutverk hennar að hún hefur ekki bara áhrif á okkur sem einstaklinga, heldur líka komandi kynslóðir.