Pillan er mögulega það lyf sem hefur ollið hvað stærstum straumhvörfum í jafnréttisbaráttu kynjanna. Með tilkomu þessa lyfs varð konum mögulegt að stjórna barneignum sínum, seinka þeim eða jafnvel sleppa alfarið. Við sem höfum alltaf geta nýtt okkur undarverkun þessa lyfs gerum okkur líklega ekki grein fyrir því hversu miklar breytingar þessi litla pilla hafði í för með sér. 

Nafngiftin sem hún gengur undir gefur það þó sterklega til kynna – pillan. Það þarf ekki einu sinni að taka hvað þessi pilla gerir. Vissulega höfðu getnaðarvarnir verið mögulegar áður en pillan var fundin upp, en með tilkomu þessa hormónalyfs jókst aðgengi að þeim fyrir konur til muna og sjálfsákvörðunarréttur þeirra styrktist.

Hvað gerir pillan?

Þó meiri hluti þjóðarinnar hafir að öllum líkindum á einhverjum tímapunkti lífs síns notið góðs af áhrifum pillunnar (vel að merkja, bæði karlar og konur) þá er ólíklegt að allir hafi fullan skilning á virkni hennar. Pillan getur verið samsett, úr estrógen- og prógesterón-líkum efnum eða innihaldið einungis eitt hormón, prógesterónlíkt hormón.

Hvort sem pillan er samsett eða ekki er virkni hennar svipuð. Með því að viðhalda ákveðnum styrk af þessum hormónum, aðallega prógesterónlíkum hormónum í líkamanum tekst konunni að plata æxlunarfærin til að halda að egglos sé nú þegar yfirstaðið. Líkaminn helst því nær samfellt á þeim stað í tíðarhringnum þar sem egglosi er lokið.

Vegna þessa verður engin örvun á eggjastokkunum og eggbúinu til að stuðla að egglosi og því lítil sem engin hætta á að þungun eigi sér stað, þar sem tíðarhringurinn er í frosti. Flestar pillur gera ráð fyrir pilluhléi, þar sem konan hættir að taka pilluna í um að bil 7 daga. Við það minnkar styrkur prógesteróns í líkamanum og blæðingar hefjast. Skiptar skoðanir eru þó á því hvort það sé nauðsynlegt eða ekki.

Jákvæð áhrif en líka neikvæð

Þó pillan hafi verið dásömuð hér að framan og samfélagsleg áhrif þessa lyfs séu ótrvíræð má þó ekki gleyma því að getnaðarvarnarpillan getur haft margvíslegar og hvimleiðar aukaverkanir fyrir sumar konur. Margar konur kvarta yfir skapsveiflum, depurð eða þunglyndi og auk þess getur leiðir notkun á pillunni til örlítillar aukningar á líkum á blóðtappa. Þessi neikvæðu áhrif hafa þó oft verið talin einungis smávægilegur fórnarkostnaður fyrir það að hafa stjórn á tímasetningu barneigna

Það er varla hægt að tala um getnaðarvarnir og aukaverkanir þeirra án þess að minnast á jafnrétti kynjanna í þeim efnum. Flestar getnaðarvarnir sem til eru í heiminum snúa að því að koma í veg fyrir egglos eða hafa áhrif einhvers staðar í kvenmannslíkamanum, það gefur því auga leið að ábyrgðin liggur að mestu hjá konum.

Hormónagetnaðarvarnir fyrir karla

Getnaðarvarnarpilla fyrir karla hefur lengi verið í þróun og hafa nokkur afbrigði af karlapillu jafnvel náð í klínískar prófanir, það er að segja verið prófaðar á takmörkuðum hópi sjálfboðaliða. Því miður hefur slíkum prófunum í flestum tilfellum verið hætt vegna óásættanlegra aukaverkana.

Þessar aukaverkanir hljóma alls ekki ókunnuglegar í eyrum margra kvenna sem hafa nýtt sér hormónagetnaðarvarnir: minnkuð kynkvöt, depurð, skapsveiflur, óútskýrðar hitasveiflur eða svefntruflanir. Þessar aukaverkanir virðast þó einhvern veginn hafa meira vægi þegar tilraunahópurinn samanstendur af karlmönnum. Eða hvað?

Líklegast má fullyrða að þessar aukaverkanir eru óboðlegar, hvor sem markhópurinn er karlar eða konur. Á þeim tíma sem við stóðum frammi fyrir vali á hormónagetnaðarvörn fyrir konur eða engum (fáum) getnaðarvarnir fyrir konur þá var kannski auðveldara að líta framhjá aukaverkunum sem okkur þykir ekki fýsilegar í dag.

Áhrif pillunnar á sjúkdómsmyndanir

Rannsóknir á áhrifum getnaðarvarnarpillunnar hafa leitt í ljós að notkun hennar er mögulega ekki jafn skaðlaus og við myndum vilja. Langvarandi notkun á hormónalyfjum getur haft margvísleg áhrif á líkamann, enda vitum við að með því að nota til dæmis pilluna erum við að hringla í náttúrulegu hormónaferli hans.  

Rannsókn sem birtist í The New England Journal of Medicine í loks árs 2017 sýndi fram á fylgni milli notkunar á pillunni myndunar brjóstakrabbameins. Rannsóknin sem var dönsk tók til 1,8 milljóna kvenna á tæplega 10 ára tímabili, því verður gangasettið að teljast rannsókninni til tekna.

Þegar allt var samantekið virtist notkun á pillunni auka líkurnar á myndun brjóstakrabbameins örlítið. Rétt er þó að hafa í huga að áhættan er hverfandi í samanburði við til dæmis notkun á áfengi eða tóbaki.

Fjölmargar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á áhrif pillunnar á geðræna sjúkdóma og þá sér í lagi þunglyndi. Stórar rannsóknir, í t.d. Danmörku og Bandaríkjunum, þar sem stórum hópum kvenna er fylgt eftir í fjölda ára, sýna marktæka fylgni milli þess að nota hormónagetnaðarvörn og að greinast með þunglyndi síðar á lífsleiðinni. Aðrar rannsóknir hafa svo einnig sýnt fram á marktæka lífsgæðaskerðingu kvenna sem nota hormónagetnaðarvarnir.

Er pillan hættuleg?

Getur pillan ýtt undir myndun krabbameina? Það er ekki útilokað! Getur pillan ýtt undir þróun þunglyndis? Mögulega! Getur pillan haft grundvallaráhrif á hvernig líf einstaklinga mun spilast? Klárlega! Þetta lyf og notkun þess er nefnilega ekki svört eða hvít.

Margar rannsóknir benda til þess að aukaverkanir af notkun getnaðarvarnarpillunnar, til lengri tíma geti verið alvarlegri en við höfum viljað viðurkenna hingað til. Það er þó erfitt að skrúfa fyrir notkun á lyfi sem þessu þar sem jákvæð samfélagsleg áhrif af fækkun ótímabærra þunganna eru ótvíræð.

Enn sem komið er getum við ekki slegið því föstu að notkun á pillunni sé það sem gerir útslagið, fyrir heilsu kvenna. Við getum ekki heldur útilokað að konur sem nota pilluna á ákveðnum tíma í lífinu séu útsettari fyrir þunglyndi eða krabbameinum.  Það er því nauðsynlegt að halda áfram rannsóknum á áhrifum þessa lyfs og draga úr þeim skaða sem það getur valdið.

Greining birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.