tishkoff-collage-1200x600

Mannfólk er gjarnt á að flokka bæði okkur og önnur dýr í mismunandi hópa eftir útlitseinkennum. Þetta birtist til dæmis í því hvernig við skilgreinum mismunandi kynþætti eftir húðlit. Þrátt fyrir þessari flokkun vitum í raun afar lítið um það af hverju húðlitur okkar stafar erfðafræðilega séð og það litla sem við vitum hefur fram að þessu að mestu komið frá rannsóknum á Evrópubúum.

Á dögunum voru niðurstöður rannsóknar birtar sem stríða gegn því sem við höfum talið okkur vita um þróun húðlitar. Rannsóknarhópurinn kannaði tengslin á milli húðlitar og erfða í íbúum þriggja landa í Afríku, sem er sú heimsálfa þar sem mannfólk er hvað fjölbreyttast þegar kemur að erfðum og útliti.

Fleiri en 2.000 sjálfboðaliðar úr 10 þjóðhópum í Eþíópíu, Tanzaníu og Botswana tóku þátt í rannsókninni. Vísindamennirnir mældu endurvarp ljóss á húð sjáflboðaliðanna sem gefur til kynna magn melaníns í húðinni. Einnig tóku þeir sýni af erfðaefni 1.570 sjálfboðaliðanna.

Rannsóknarhópnum tókst að bera kennsl á nokkur svæði í erfðaefni þátttakenda sem voru nátengd breytileika í húðlit. Þessi svæði voru í nágrenni við sex gen: SLC24A5, MFSD12, DDB1, TMEM138, OCA2 og HERC2 og áttu þessi gen þátt í 29% af breytileika í húðlit í þeim þremur löndum sem þátttakendurnir voru frá.

Almennt hefur verið talið að þróun húðlitar hafi gengið þannig fyrir sig að mannfólk, sem átti uppruna sinn í Afríku, hafi í fyrstu verið dökkt á hörund. Eftir því sem forfeður okkar fluttust frá heimsálfunni tók húðliturinn breytingum eftir búsvæði og urðu sumir stofnar ljósari á hörund en aðrir. Niðurstöður þessar rannsóknar benda þó til þess að þróunin hafi verið önnur því samkvæmt greiningu á erfðaefni þátttakenda í rannsókninni eiga afbrigði fyrir bæði dökkri og ljósri húð uppruna í Afríku fyrir hundruðum þúsunda ára. Í raun kom í ljós að sum eldri afbrigði genanna báru ábyrgð á ljósri húð en ekki dökkri.

Meðal genanna sem vísindamennirnir báru kennsl á var SLC24A5 genið en eitt afbrigði þess er meðal annars þekkt fyrir að eiga hlutverk í ljósum húðlit þeirra sem rekja uppruna sinn til Evrópu. Genið er talið hafa komið fram fyrir meira en 30.000 árum en samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinna var það algengt í íbúum Eþíópíu og Tanzaníu sem gátu rakið ættir sínar til Suðaustur Asíu og Mið-Austurlanda. Fram að þessu hefur þetta verið eitt þeirra gena sem talið hefur verið “Evrópskt” og tengt við ljósan húðlit en er samkvæmt þessu einnig að finna í miklum mæli í íbúum Austur Afríku þó það hafi ekki sömu “lýsandi” áhrif og í þeim sem það bera í Evrópu.

Vísindamennirnir telja niðurstöður þeirra benda til þess forfeður manna hafi haft ljósa húð undir feldi, líkt og er raunin með simpansa í dag. Með tímanum hafi forfeðurnir síðan tapað feldinum og þróað með sér dekkri húðlit sem varði þá betur fyrir sólinni. Loks hafi flutningur mannkynsins um allan heim leitt til ljósari húðlits hjá mannfólki nær pólunum þar sem hann hentaði betur til nýmyndunar á D-vítamíni á svæðum þar sem sólarljós gat verið af skornum skammti.

Ljóst er að enn frekar rannsókna er þörf til að skýra þær flóknu erfðir sem liggja að baki húðlit okkar. Rannsóknarhópurinn vonar þó að í millitíðinni muni niðurstöður þeirra geta nýst til að sameina fólk því í raun sé húðlitur okkar afar slæm leið til að flokka mannkynið. Erfðafræðilega séð séum við hreint ekki nógu ólík til að hægt sé að tala um kynþætti.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tímaritinu Science.