Flestir gera sér líklega grein fyrir því að hvert fóstur sem til verður í gegnum kynmök karls og konu er samsett úr erfðaefni beggja einstaklinga. Þrátt fyrir þetta hefur ástæða fósturláts almennt verið tengt við konuna sem gengur með barnið fremur en karlmanninn. Nýjar rannsóknir á þessu sviði eru að breyta þessu viðhorfi með því að sýna fram á hlutverk sáðfrumna í fósturlátum.

Raunin er sú að um 60% fósturláta stafa af erfðagalla sem bendir til þess að sáðfrumur spili hlutverk. Vísindamenn við Imperial College í London birtu nýverið grein í tímaritinu Clinical Chemistry sem fjallar um einmitt þetta.

Gæði sáðfrumna mikilvæg

Alls var sæði 110 karlmanna rannsakað. 50 þeirra áttu það sameiginlegt að eiga maka sem hafði misst fóstur þrisvar sinnum eða oftar. Hinir karmennirnir áttu maka sem ekki höfðu misst fóstur svo vitað væri. 

Í ljós kom að í sáðfrumum þeirra karla sem áttu maka sem misst höfðu fóstur var að finna tvisvar sinnum meira galla í erfðaefni sáðfrumna þeirra.

Þessar niðurstöður gefa til kynna að hjá pörum sem glíma við endurtekin fósturlát sé mikilvægt að kanna gæði sæðis hjá karmanninum ásamt þeim rannsóknunum sem konan gengur sjálf í gegnum til að reyna að varpa ljósi á vandann.

Staðfesta niðurstöður eldri rannsókna

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sýnt er fram á mikilvægi heilbrigðs sæðis. Meðal annars hafa fyrri rannsóknir sýnt fram á að sáðfruman spili hlutverk í myndun fylgjunnar sem sér um að færa fóstrinu súrefni og næringarefni. 

Rannsóknir hafa að auki sýnt fram á að ofþyngd og hærri aldur karlmanna geta haft áhrif á gæði sáðfrumnanna sem þeir framleiða. Þetta var einmitt rauninn í rannsókninni sem hér er rætt um. Þeir karmenn sem áttu maka sem misst höfðu fóstur voru líklegri til að vera eldri og þyngri en þeir sem áttu maka sem ekki höfðu misst fóstur.

Það er í raun merkilegt að þetta viðfangsefni sé ekki betur þekkt en raun ber vitni. Aukinn skilningur á þessu sviði munu á komandi árum vonandi gefa betri mynd af því hvað veldur síendurteknum fósturlátum hjá pörum og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir þau.