Langflest verjum við að minnsta kosti hluta úr deginum fyrir framan skjái. Vísindamenn hafa verið sammála um það að skjánotkun, sér í lagi seint á kvöldin, getur haft neikvæð áhrif á heilsu okkar.

Nú færumst við nær því að skilja hvernig skjáir geta haft áhrif á dægursveiflur líkama okkar. Rannsókn sem birtist nýverið varpar ljósi á það hvernig gervibirta hefur áhrif á ákveðnar frumur augans. Aukinn skilningur á þessu sviði gæti meðal annars hjálpað okkur að finna meðferðir gegn mígreni, svefnvandamálum og flugþreytu.

Snjalltæki spila sífellt stærra hlutverk

Það finnster varla sú manneskja á Íslandi sem kemst í gegnum daginn án þess að eyða í það minnsta hluta úr honum fyrir framan einhverskonar skjá. Við nýtum líklega flest tölvur við vinnu okkar og snjallsímar spila sífellt stærra hlutverk í daglegu lífi.

Þrátt fyrir að vera gagnleg tól sem einfalda okkur lífið að miklu leyti hefur notkun slíkra tækja einnig neikvæð áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Í fyrstu voru skjáir á heimilum aðallega í formi sjónvarpa og síðar tölva. Með tilkomu snjallsíma og fartölva hafa skjáirnir flust inn í svefnherbergi okkar og eru vafalaust margir sem kannast við það að fletta í gegnum samfélagsmiðla og fréttavefi rétt fyrir svefninn.

Sýnt hefur verið fram á að skjánotkun seint á kvöldin getur haft áhrif á líkamsklukku okkar en vegna þess hve ný af nálinni notkun á slíkum tækjum er höfum við enn takmarkaðan skilning á því hvað liggur þar að baki.

Vísindamenn við Salk Institute í Bandaríkjunum birtu nýverið grein í tímaritinu Cell Reports. Greinin fjallar um það hvernig frumur í auganu vinna úr ljósi í umhverfinu og hvernig stöðugt ljósáreiti getur haft áhrif á líkamsklukkur okkar.

Líkamsklukkan mikilvæg fyrir heilbrigða líkamsstarfsemi

Á hverjum sólarhring ganga líkamar okkar í gegnum ákveðin lífeðlisfræðileg ferli sem eru sambærileg dag frá degi. Þessi ferli kallast dægusveiflur og stýra meðal annars svefnmynstri okkar.

Allar lífverur búa yfir einhverskonar dægursveiflum sem geta þó verið afar mismunandi eftir því hvaða lífvera á í hlut. Þannig eru dægursveiflur dýra sem eru hvað virkust á næturnar til dæmis ólíkar dægursveiflum dýra sem vaka á daginn og sofa á næturnar.

Hvers kyns röskun á dægursveiflum okkar setur líkamann úr jafnvægi og getur leitt til heilsufarsvandamála á borð við svefnvandamál, meltingatruflanir og einbeitingaleysi.

Ljósnæmar frumur augans spila hlutverk í svefnmynstri okkar

Rannsókn vísindamannanna við Salk Institute byggði á því að kanna áhrif ljóss frumur í sjónhimnu músa.

Í sjónhimnu spendýra er að finna ljósnæmar frumur. Þegar ljós fellur á ákveðnar gerðir ljósnæmra frumna í lengri tíma myndast prótein sem kallast melanopsin. Þetta verður til þess að heilinn fær boð um birtustig í umhverfinu og stýrir út frá því meðvitund okkar, svefni og árvekni.

Ef melanopsin heldur áfram að myndast í 10 mínútur eða lengur spilar það lykilhlutverk í því að stilla líkamsklukku okkar. Ef ljósið er bjart verður melanopsin framleiðslan auk þess til þess að hormónið melatónín, sem á lykilþátt í því að stýra svefni okkar, er bælt niður.

Sumar frumur svara ljósáreiti lengur

Ein meginniðurstaða rannsóknarhópsins var sú að sumar frumur hafa eiginleikann til þess að viðhalda svörun við ljósáreiti. Ef ljósáreitið varði í langan tíma var svar þeirra lengra, samanborið við aðrar frumur. eftir að ljós féll á þær í lengri tíma á meðan aðrar frumur urðu hættu að svara ljósáreitinu. Þær frumur sem geta haldið áfram melanopsin framleiðslu í lengri tíma geta jafnvel sýnt svörun í nokkrar sekúndur eftir að ljósið er horfið.

Að sögn höfunda greinarinnar er þessi eiginleiki frumnanna lykilatriði vegna þess að líkamsklukkur okkar byggjast á því að þær svara aðeins ljósi sem er til staðar í lengri tíma en ekki endilega lýsingu sem varir aðeins í stutta stund.

Þetta þýðir að mati höfundanna að þegar við erum sífellt í kringum raflýsingu frá skjám og ljósum innandyra getur líkamsklukka okkar raskast. Þetta á sér í lagi við þegar við erum í kringum ljós seint á kvöldin.

Tökum frí frá skjánum á kvöldin

En af hverju skipta rannsóknir af þessu tagi máli? Jú, aukinn skilningur á því hvaða áhrif ljós á óhefðbundnum tímum sólarhringsins hefur á frumur okkar gæti í framtíðinni auðveldað vísindamönnum að finna meðferðir gegn þeim fjölmörgu heilsufarsvandamálum sem röskun á lífsklukku okkar getur haft.

Þó að eitt umtalaðast vandamálið nú til dags sé vissulega skjánotkun seint á kvöldin er ýmislegt annað sem getur raskað innri klukku okkar. Flug á milli tímabelta geta leitt til flugþreytu sem tíma tekur að komast yfir. Svefnvandamál hrjá fjölda fólks auk þess sem röskun á eðlilegur dægursveiflum líkamans hefur verið tengd við ýmis neikvæð áhirf á borð við offitu, insúlínviðnám, auknar líkur á krabbameinum og vitræna truflun.

Næstu skref rannsóknarhópsins eru að kanna hvernig hægt er að hafa áhrif á melanopsin framleiðslu frumnanna í þeim tilgangi að endurstilla líkamsklukkuna og þannig finna leiðir til að hjálpa þeim sem glíma við svefnvandamál.

Á þessu stigi málsins er þó ljóst að heilsunnar vegna er öruggast að takmarka hverskyns skjánotkun fyrir svefninn.

Greinin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar.