Um leið og sýklalyfjaónæmi breiðist hraðar og hraðar út fær þessi mikla ógn sem að okkur steðjar meiri og meiri athygli. Bæði í heimi vísindanna sem og í umfjöllun fjölmiðla.

Rík ástæða er til, enda eru sýklalyf líklega sú læknisfræðilega uppgötvun sem hefur bjargað flestum mannslífum. Ef við missum þetta tól okkar er hætt við að dánartíðni vegna sýkinga hækki mjög. Annar fyrirséður fylgifiskur er hið aukna álag sem leggst á heilbrigðiskerfi á skömmum tíma og gæti þannig einnig leitt til lakari meðferðar gegn öðrum sjúkdómum.

Sýklalyfjaónæmi

Sýklalyfjaónæmi er eftirsóttur eiginleiki fyrir bakteríur. Ónæmið gefur bakteríunum hæfileikann til að lifa af í umhverfi þar sem sýklalyf eru til staðar. Ónæmið er skrásett á ákveðin gen sem skrá fyrir prótínum sem geta m.a. brotið sýklalyfin niður eða á annan hátt varið bakteríuna fyrir því.

Þessi gen sem geyma sýklalyfjaónæmið ganga svo á milli baktería í sama umhverfi. Bakteríur eru nefnilega gæddar þeim einstaka eiginleika að skiptast á erfðaefni eða taka upp erfðaefni sem liggur í umhverfinu.

Sýklalyfjaónæmi ferðast gjarnan á milli baktería á svokölluðum plasmíðum. Plasmíð má eiginlega líkja við pínulitla hringlaga litninga sem geyma mjög fá og stundum bara eitt gen. Bakteríur taka gjarnan við plasmíðum úr umhverfinu eða frá öðrum bakteríum. Þannig ferðast sýklalyfjaónæmisgenin á milli baktería í heilu lagi, en svona ónæmi getur ekki komið til vegna stökkbreytinga í eigin genum bakteríanna.

Sætasta stelpan á ballinu

Dæmi um hvernig sýklalyfjaónæmi getur farið á flakk er ef einstaklingur, sem er með bakteríu í meltingarveginum sem geymir sýklalyfjaónæmi, fær sýklalyf vegna sýkingar í meltingarvegi. Af öllum þeim aragrúa baktería sem búa í meltingarveginum er nokkuð ljóst að þær sem geyma sýklalyfjaónæmið munu ná að halda velli, meðan hinar taka að týna tölunni smátt og smátt.

Í slíkum tilfellum verður bakterían með sýklalyfjaónæmið „sætasta stelpan á ballinu“ sem allar hinar bakteríurnar reyna að bjóða uppí dans. Sýklalyfjaónæmið fer þá að dreifast á milli bakteríanna sem eftir lifa í meltingarveginum, m.a. þeirra sem í upphafi ollu sýkingunni.

Leynivopnin ekki lengur leynivopn

Í dag eru ákveðin lyf sem eru sjaldan notuð gegn sýkingum, nema mikið liggi við. Þessi lyf hafa oft tíðari aukaverkanir, samanborið við algengari lyf, og því hefur þeim verið haldið til hliðar. Lyfin eru oft gefin inná spítala bæði vegna þess hve flókið er að gefa þau en einnig vegna þeirra aukaverkana sem geta komið fram.

Þegar upp hefur komið sýking þar sem sökudólgurinn er baktería sem er ónæm fyrir mörgum gerðum sýklalyfja eru þessi lyf gjarnan dregin fram. Þessi lyf eru því ekki útbreidd og lengi vel bundu menn vonir við að að þau yrðu okkar von þar til önnur betri lausn kæmi til sögunnar.

Önnur betri lausn, virðist þó ætla að standa á sér og vandamálið stækkar. Rannsóknir á búfénaði hafa leitt í ljós að ofnotkun sýklalyfja í landbúnaði hefur leitt til þess að sýklalyfjaónæmi gegn meira að segja þessum lítt notuðu lyfjum, er tekið að breiðast út.

Engin ein leið verður farin

Það er nokkuð ljóst að vandinn sem við stöndum frammi fyrir er stærri en við gerðum ráð fyrir. Vísindahópar um allan heim hafa lagt mikla vinnu í rannsóknir sem miða að því að reyna að sporna gegn ört fjölgandi dauðsföllum af völdum sýklalyfjaónæmra baktería. Lausnirnar eru misjafnar, sem er sennilega nauðsynlegt því engin ein lausn mun bjarga okkur frá þessari miklu ógn.

Leitin að nýjum sýklalyfjum er alltaf til staðar og í meira magni eftir að sýklalyfjaónæmi fór að gera vart við sig. Þau hafa þó ekki reynst auðfundin og þó ný sýklalyf komi fram tilheyra þau oft þekktum sýklalyfjahópum. Þekkt ónæmisgen geta því virkað á nýju lyfin þó þau hafi ekki verið notuð áður.

Auk þess er það því miður ekki fjárhagslega hagkvæmt að finna nýtt sýklalyf. Eins og staðan er í dag mun nýtt sýklalyf að öllum líkindum fara í leynikassann. Lyf sem ekki hefur enn fundist ónæmi gegn verður notað í ítrustu neyð, í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir að sama þróun eigi sér stað.

Hæfileikar baktería til að þróast hratt

Ein leið sem rannsóknarhópur við University of Washington er að skoða þessa dagana er að hafa áhrif á gen í bakteríum sem virðast ýta undir stökkbreytingar í erfðaefni baktería. Bakteríur þróast mun hraðar en fjölfruma lífverur eins og maðurinn, enda er kynslóðatími baktería talinn í klukkustundum en ekki áratugum eins og hjá okkur.

Eitt af því sem gerir bakteríum kleift að þróast svona hratt er aðlögunarhæfni þeirra og há stökkbreytingatíðni. Þær eru í raun háðar því að breytingar verði á erfðaefninu sem oft, fyrir tilviljun, gefa þeim aukna hæfileika til að lifa af. Þessa eiginleika vill fyrrnefndur rannsóknarhópur nýta til að reyna að hindra útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Eitt af því sem virðist bakteríum nauðsynlegt til að viðhalda stökkbreytingatíðni í erfðamenginu, eins furðulega og það hljómar, er Mfd genið. Þetta gen virðist ekki einungis ýta undir breytingar í erfðaefninu með stökkbreytingum heldur aðstoðar það bakteríurnar líka við að taka upp eiginleika eins og sýklalyfjaónæmi.

Hindrun á virkni Mfd gæti verið lausnin

Rannsóknir vísindahópsins við University of Washington sýna að Mfd ýtir undir upptöku bakteríanna á genum sem skrá fyrir sýklalyfjaónæmi. Enn sem komið er hefur þó ekki tekist að skilgreina nákvæmlega hvernig. Þó er vitað að Mfd tekur þátt í hinum ýmsu viðgerðarferlum á erfðaefninu.

Þessar niðurstöður benda þó til þess að með því að hindra virkni afurðar Mfd gensins, væri mögulega hægt að hægja á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þá leggur hópurinn til að samhliða sýklalyfjum fengju sjúklingar Mfd hindra.

Þessi leið myndi vonandi hægja á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis, sem er klárlega nauðsynlegt skref. Við megum þó ekki sofna á verðinum, því ofnotkun á sýklalyfjum mun alltaf búa til aðstæður þar sem bakteríur sækjast eftir eiginleikanum til að brjóta sýklalyfin niður. Bakteríur eru ótrúlega hæfar í að lifa af og hindri á Mfd virkni gæti orðið skammgóður vermir ef við förum ekki varlega.

Greinin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar