Ein af stærstu ógnum nútímans eru sýklalyfjaónæmar bakteríur. Í því felst að bakteríur sem valda sýkingum í mönnum hafa myndað þol gegn þeim helstu sýklalyfjum sem við notum til að vinna bug á þeim.

Fyrir þá sem treysta á sýklalyf í daglegu lífi vegna ýmissa sjúkdóma er sýklalyfjaónæmi einstaklega hvimleitt.

Þó sýklalyfjaónæmi hafi lengi verið í umræðunni virðist ekki margt hafa gerst. Rannsóknarhópar keppast við að finna lausn á vandanum en viljinn til að minnka óþarfa notkun á sýklalyfjum virðist ekki nægilega útbreiddur.  

Mögulegar lausnir

Þó engin staðgengill fyrir sýklalyf  hafi enn verið markaðssettur til almennrar notkunar eru fjölmarar hugmyndir á borðinu.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að finna ný sýklalyf, sem fæstir sýklar hafa hingað til komist í tæri við. Bakteríur sem búa yfir sýklalyfjaónæmi yrðu meðhöndlaðar með þessu mögulega nýja sýklalyfi, svo það yrði vonandi lítið notað til að koma í veg fyrir ónæmi.

Gallinn við það er sá að lítið notað sýklalyf er ekki mjög fjárhagslega hagkvæmt þó það kosti mjög mikið að þróa það.

Ein leið sem hefur mikið verið skoðuð er að nota veirur sem nefnast bakteríufagar til að sýkja bakteríurnar og eyða þeim þannig. Þá er ekki um eiginlegt sýklalyf að ræða heldur eru þetta veirur sem sýkja bakteríurnar og drepa þær.

Veirur – skrýtnar „lífverur“

Bakteríurfagar, alveg eins og veirur sem sýkja okkur mennina, eru háðar því að vera með hýsil til að tjá erfðaefnið sitt og búa til nauðsynleg prótín. Veirur teljast yfirleitt ekki til lífvera vegna þessa. Þær eru s.s. háðar annarri lífveru um bæði niðurbrot og framleiðslu sameinda.

Í hefðbundinni veirusýkingu sýkir veiran hýsilfrumuna. Við það fer fruman að framleiða efnivið fyrir veiruna til að fjölga sér þannig að fleiri veirur verða til inní frumunni. Að lokum losa veirurnar sig úr frumunni og fruman deyr. Þar með skapast tækifæri fyrir nýju veirurnar til að sýkja fleiri frumur og fjölga sér enn frekar. Þetta á jafnt við um veirur sem sýkja heilkjarnafrumur sem og bakteríurfaga.

Fagar svar við sýklalyfjaónæmi

Sú hugmynd að nota bakteríufaga til að berjast við sýklalyfjaónæmar bakteríur er ekki ný af nálinni. Samkvæmt heimildamyndinni „The Virus That Cures“  frá BBC Horizon sem var gerð árið 1997, voru fagar notaðir í þessum tilgangi fyrst eftir að þeir uppgötvuðust árið 1910.

Í þá daga var þekking okkar á fögum takmörkuð og þó fagameðferð hafi bjargað fjölmörgum mannslífum á sínum tíma varð meðferðin aldrei jafnstór og vonir stóðu til. Með vaxandi sýklalyfjaónæmi hafa sjónir þó beinst aftur að bakteríufögum sem meðferð við sýkingum í mönnum.

Fullkomin lausn?

Hugmyndafræðilega er þetta fullkomin lausn þar sem veirurnar hafa þróast samhliða bakteríunum og hafa því eiginleikann til að sýkja bakteríurnar en ekki frumur sjúklingsins. Þar að auki eru fagarnir sértækir fyrir ákveðnar bakteríur sem þýðir að meðferð með fögum hefur að öllum líkindum minni áhrif á almenna bakteríuflóru sjúklingsins, samanborið við sýklalyfjameðferð.

Í raun eru fagarnir samt ekki fullkomin lausn. Til að hafa áhrif á sýkinguna þarf að notast við réttan faga, sem sýkir þá tegund baktería sem veldur sýkingunni. Með tíð og tíma geta bakteríurnar einnig myndað ónæmi gegn veirunum, en hið fræga CRISPR kerfi baktería er einmitt til þess gert að verjast veiru sýkingum.

Þó fagarnir sýki ekki sjúklinginn sjálfan, er ekki þar með sagt að ónæmiskerfið láti fagasýkingu framhjá sér fara. Ókunnugt erfðaefni innan líkamans er alls ekki vel séð svo til að meðferðin geti virkað þurfa fagarnir að vera í nægilega miklu styrk til að finna sýkilinn en á sama tíma nógu litlum styrk til að hafa ekki áhrif á ónæmiskerfi sjúklingsins.

Þrátt fyrir annmarka og áskoranir er nokkuð ljóst að með þeirri þekkingu á bakteríufögum sem við búum yfir í dag, eru bakteríufagar fýsilegt meðferðarúrræði við sýkingum. Samhliða öðrum lausnum til að draga úr sýklalyfjaónæmi er líklegt að fagar verði okkur til gagns í framtíðinni sem almenn meðferð við bakteríusýkingum.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.