Plastmengun er eitt stærsta vandamál sem mannkynið glímir við en jafnframt er afar erfitt að leysa það. Á undanförnum árum hefur nokkur áhersla hefur verið lögð á það að draga úr eða hætta alfarið notkun á plastumbúðum, til dæmis utan um grænmeti og ávexti í matvöruverslunum. Þó svo að slík breyting kunni að hljómar vel þekkjum við enn sem komið er ekki nógu vel hvaða afleiðingar það kann að hafa.

Ekki eins einfalt og virðist í fyrstu

Í skýrslu sem unnin var af samtökunum Green Alliance á Bretlandi er kafað í umhverfisáhrif þess að skipta út plastumbúðum fyrir annarskonar umbúðir. Skýrslan byggir að miklu leiti á viðtölum við talsfólk matvöruverslana í Bretlandi. Henni er meðal annars ætlað að varpa ljósi á reynslu verslana af því að hætta notkun á plastumbúðum eða taka upp annars konar umbúðir í staðinn fyrir plastið.  

Einn helsti útgangspunktur skýrslunnar er sá að enn hefur ekki verið metið nægilega vel hver áhrif þess að nýta önnur efni en plast eru á umhverfið. Meðal annars er varað við því í skýrslunni að sumar þeirra umbúða sem notaðar eru sem staðgenglar fyrir plast hafa jafnvel stærra kolefnisfótspor.

Sem dæmi er nefnt að vegna þess hversu þungar glerflöskur eru séu þær til dæmis óumhverfisvænni í flutningi en plastflöskur. Að auki geta pokar úr pappír verið með hærra kolefnisfótspor en plastpokar og er einnig erfiðara að endurnýta þá.

Vöntun á skýrari stefnu um umbúðir

Samkvæmt skýrslunni telja yfir 80% neytenda í Bretlandi að umbúðir úr lífplasti séu umhverfisvænni en aðrar. Höfundur greinarinnar segir að það sé þó lítill skilningur á því hvað það þýði í raun og veru. Einnig sé oft óskýrt hvað skuli gera við þessar umbúðir eftir notkun. Enn eitt vandamálið er síðan það að slíkar umbúðir brotna í sumum tilfellum ekki eins vel niður og auglýst er, að því er kemur fram í skýrslunni.

Viðmælendur vildu flestir skapa skýrari stefnu varðandi umbúðir utan um matvæli til að forðast það að skapa enn frekari umhverfisvandamál. Sumir þeirra sögðu hreint út að í einhverjum tilfellum væri kolefnisfótspor nýrra gerða umbúða sem auglýstar eru sem umhverfisvænni jafnvel stærra en ef plastumbúðir væru áfram notaðar.

Plast á Vesturlöndum endar sjaldan í hafinu

Í umræðunni um plastumbúðir er gjarnan vísað í það mikla magn plasts sem endar í hafinu.  Staðreyndin er þó sú að í mörgum Vesturlöndum er hlutfallslega lítið plast sem í raun endar í hafinu.

Til dæmis endar flest það plast sem neytendur á Íslandi kaupa í ruslatunnum eða er endurunnið. Blessunarlega sjáum við æ sjaldnar plast í náttúrunni. Vandinn tengdur plasti í hafinu liggur því að miklu leiti hjá löndum þar sem plasti er fleygt út í umhverfið fremur en að því sé skilað til sorpvinnslu.

Matvæli í plastumbúðum geymast betur

Annar liður í notkun á umbúðum utan um matvæli snúa að matarsóun. Að því er kemur fram í skýrslunni endast gúrkur sem pakkað er í plast í verslunum til dæmis 14 dögum lengur en gúrkur sem seldar eru umbúðalaust. Þannig má koma í veg fyrir matarsóun sem er annað stórt vandamál sem við glímum við og er það atriði sem taka þarf inn í myndina þegar hugsað er til nýrra lausna.

Margþættur vandi

Það eru fáir sem neita því að notkun á plastumbúðum og öðru plasti hefur áhrif á umhverfið. Að finna lausn á vandanum er þó töluvert flóknara en að skipta út plasti fyrir önnur efni án þess að hugsa málið til enda.

Þeir sem tekið var viðtal við, fyrir vinnslu skýrsluna voru sammála um það að breytingar til að sporna gegn loftslagsbreytingum ættu að vera stór hluti af stefnu fyrirtækja. Lausnin sé þó ekki endilega sú að hætta alfarið notkun plastumbúða, að minnsta kosti ekki eins og staðan er í dag.

Greining birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.