Árið 2002 dóu þúsundir landela í norður Atlantshafi úr veirusjúkdómi sem nefnist phocine distemper virus (PDV). Tveimur árum síðar greindist sjúkdómurinn í fyrsta sinn í sæotrum við strendur Alaska. Óljóst var hvernig sjúkdómurinn barst þangað.

Hópur vísindamanna telur að ástæðuna megi rekja til bráðnunar á hafís í kringum Norðurpólinn. Eftir að hafa rannsakað tengslin þarna á milli birtu þeir grein í tímaritinu Scientific Reports fyrr í mánuðnum.

Nýjar leiðir opnast

Með bráðnu hafíss nærri Norðurpólnum opnast sífellt fleiri leiðir fyrir sjávardýr að leita á nýjar slóðir. Þessum dýrum geta síðan fylgt hinir ýmsu sýklar. Sumir þeirra geta smitað nýjar tegundir á öðrum svæðum hafsins sem ekki hafa komist í tæri við þá áður.

Til að kanna þetta nánar tók rannsóknarhópurinn sýni úr sjávarspendýrum á árunum 2001 til 2016. Sýnin voru prófuð fyrir PDV.

Að auki voru breytingar á opnum leiðum á milli Norður Atlantshafs og Norður Kyrrahafs skoðuð. Út frá því voru áhættuþættir fyrir útbreiðslu sjúkdómsins metnir.

Í ljós kom að í byrjun árs 2003 greindust aukin tilfelli af veirunni í Norður Kyrrahafi. Annar toppur átti sér stað árið 2009. Þetta kom heim og saman við breytingar á mynstir hafíss á milli svæðanna tveggja.

Vandinn líklegur til að aukast

Höfundarnir benda á að eftir því sem hafís heldur áfram að bráðna megi búast við því að útbreiðsla sjúkdóma meðal sjávardýra geri það líka. Mikilvægt sé að skilja þá ferla sem hér eiga stað og áætla hvaða tegundir geti orðið fyrir barðinu á nýjum sýkingum svo hægt sé að grípa til aðgerða þar sem unnt er.