Zachary Randall/Florida Museum

Saga hryggdýra á þurru landi hófst þegar fiskar byrjuðu hægt og þétt að reyna fyrir sér á landi. Enn í dag eru tegundir fiska sem eru aðlagaðir að lífi á landi að einhverju leyti. Nú hefur hópur vísindafólks borið kennsl á hvorki meira né minna en 11 tegundir fiska úr sömu fjölskyldu sem gætu skriðið á land ef þeim svo sýndist.

Árið 1985 uppgötvuðu vísindamenn fisktegund í hellum í Tælandi sem hafði, líkt og mörg önnur dýr sem lifa við myrkar aðstæður, misst sjónina. Það sem var merkilegra við þessa tegund var það að hún hafði þann eignleika að geta skriðið um á þurru landi til að komast á milli mismunandi vatnspolla í hellunum þar sem hún lifir.

20 árum seinna var birt grein um tegundina sem ber latneska heitið C. thamicola. Eftir rannsóknir á tegundinni hafði komið í ljós að einstaklingar af tegundinni hafa stóra mjaðmagrind líkt og dýr á landi. Fiskarnir hreyfa þar að auki uggana í sama mynstri og landdýr hreyfa útlimi sína.

Frekari rannsóknir á tegundinni hafa nú sýnt fram á að þessi einkenni eru ekki aðeins til staðar hjá C. thamicola heldur einnig nokkrum öðrum skyldum tegundum.

C. thamicola er eina tegundin af sinni ættkvísl. Þess vegna skoðuðu vísindamenn tegundir úr sömu fjölskyldu. Niðurstaðan var sú að 10 aðrar tegundir sömu fjölskyldu hafa einnig mjaðmagrind sem er nægilega sterk til að gera þeim kleyft að ganga á landi, þó þær nýti ekki endilega þennan eiginleika.  

Þetta þýðir auðvitað ekki að þessar tegundir geti lifað á landi, enda er margt annað sem þarf til svo sem lungu sem geta andað að sér súrefni í andrúmsloftinu. Þessi þekking er þó enn eitt púslið í þróunarsögunni.