Þrátt fyrir að áætlað sé að sæskjaldbökur hafi lifað í höfum jarðar í um 110 milljón ár er æxlun þeirra nokkuð viðkvæmt ferli. Hlýnandi lofslag hefur þegar orðið til þess að á ákveðnum svæðum heimsins er mikill meirihluti sæskjaldbaka sem klekjast úr eggjum kvenkyns. Haldi þróunin áfram gæti það þýtt að í ekki svo fjarlægri framtíðinni klekist eingöngu kvendýr úr eggjum sæskjaldbaka.

Kyn ákvarðað út frá hitastigi

Æxlun sæskjaldbaka er um margt ólík því sem þekkist hjá spendýrum. Þetta á sérstaklega við um það hvernig kyn afkvæma er ákvarðað. Í stað þess að kyn sé ákvarðað út frá kynlitningum, líkt og þekkist til dæmis hjá okkur mannfólkinu, er kynið fremur ákvarðað út frá hitastiginu sem umlykur eggið áður en það klekst út. Raunar er erfitt að greina hvort um karldýr eða kvendýr sé að ræða fyrr en skjaldbakan nær kynþroska.

Þó svo að ástæðurnar fyrir þessu séu ekki þekktar vitum við að jafnvel smávægilegar breytingar á hitastigi í umhverfi eggja sæskjaldbaka geta haft afdrifaríkar afleiðingar á kynákvörðun. Í hreiðrum þar sem hitastigið er um 29°C verður hlutfall kven- og karldýra nokkuð jafnt. Þegar hitastigið fer undir 27.7°C verður útkoman sú að aðeins karlkyns skjaldbökur klekjast úr eggjunum. Þessu er öfugt farið þegar hitastigið hækkar. Fari hitastigið í sandinum sem umlykur eggin yfir 31°C klekjast eingöngu kvenkyns skjaldbökur úr eggjunum.

Fjórar rannsóknir segja svipaða sögu

Meðalhitastig á jörðinni fer hratt hækkandi og síðastliðin fimm ár hefur hvert hitametið á fætur öðru verið slegið. Þessar breytingar á loftslagi jarðar hafa þegar farið að hafa áhrif á æxlun sæskjaldbaka.

Á undanförnum árum hafa vísindamenn tekið eftir því að hlutfall kynja í hreiðrum skjaldbaka hefur á sumum svæðum heimsins breyst töluvert. Rannsókn frá árinu 2018 sagði til að mynda frá sláandi skekkju í kynjahlutföllum sæskjaldbaka af tegundinni Chelonia mydas á norðurströnd eyjunnar Raine Island út frá ströndum Ástralíu. Á norðurströnd eyjunnar reyndust 99% unga sem klöktust úr eggjum vera kvenkyns. Á suðurströnd eyjunnar, þar sem hitastigið var lægra, var sagan önnur, þar voru 69% skjalbakanna sem klöktust út kvenkyns.

Rannsóknir á öðrum svæðum heimsins segja svipaða sögu. Árið 2015 var birt grein um stöðu sæskjaldbaka í San Diego Bay í Kaliforníu. Sagt var frá nýrri aðferð til að greina kyn í sæskjalbökum sem ekki hafa náð kynþroska. 69 skjaldbökur af tegundinni Chelonia mydas voru kyngreindar og reyndist hlutfall kvendýra vera 78%.

Önnur rannsókn frá árinu 2018 sem framkvæmd var í Flórídafylki Bandaríkjanna sýndi fram á að skjaldbökur sem klöktust úr eggjum við strendur Boca Raton væru í það minnsta 90% kvenkyns.

Slæmu fréttunum líkur ekki þar. Rannsókn frá Exeter háskóla sem birt var fyrr á árinu staðfestir að sömu sögu er að segja á enn einu svæðinu. Sú rannsókn fór fram á stofni skjaldbaka af tegundinni Caretta caretta á Grænhöfðaeyjum. Þar reyndist hlutfall afkvæma vera 84% kvenkyns.

Engin karldýr eftir fáeina áratugi?

Þrátt fyrir að halla taki á karlkyns skjaldbökur á ýmsum svæðum heimsins er ekki víst að það kunni að skapa vandamál, í það minnsta ekki fyrst um sinn. Að því gefnu að kvenkyns skjaldbökur nái með auðveldum hætti að finna karldýr til að frjóvga egg sín er sá möguleiki jafnvel fyrir hendi að sæskjaldbökum gæti fjölgað tímabundið. Þar að auki geta sæskjaldbökur orðið allt að 100 ára og því enn nokkuð í það að karlkynið deyi algjörlega út.

Haldi þróunin aftur á móti áfram á sömu braut gætu einhverjir stofnar lent í vandræðum þegar fram líða stundir. Hvað stofninn við Grænhöfðaeyjar varðar telur rannsóknarhópurinn að karlkyns skjaldbökur gætu hreinlega hætt að klekjast út á aðeins tveimur eða þremur áratugum.

Erfitt að leysa vandann

Þó svo að inngrip mannfólks verði seint talin besta leiðin til að viðhalda stofnum villtra dýra leita vísindamenn leiða til að grípa inn í af illri nauðsyn. Ýmsar aðferðir hafa reynst áhrifaríkar til að jafna kynjahlutföll í hreiðrum. Þar má nefna að grafa upp egg og færa þau á skuggsælli svæði á ströndinni, vökva hreiðrin og skipta eggjunum upp í fleiri en eitt hreiður til þess að koma í veg fyrir að þau hiti hvert annað.

Nýklaktir skjalbökuungar eru einnig auðveld bráð fyrir rándýr og eru hreiður á ákveðnum svæðum vöktuð. Þegar skjalbökurnar skríða upp úr hreiðrunum er þeim síðan fylgt til sjávar til að auka líkurnar á því að þær lifi af.

Aðrar tegundir gætu upplifað svipaðan vanda

Svo vill til að sæskjaldbökur eru, á mörgum svæðum heimsins, dýrahópur sem fylgst er náið með. Kvendýrin koma ávallt að verpa eggjum sínum á sömu strönd og þær klöktust sjálfar út og er því nokkuð auðvelt að fylgjast með æxlun einstakra stofna. Að auki eru sæskjaldbökur almennt talin nokkuð heillandi tegund af almenningi og sækjast margir í að fylgjast með og jafnvel aðstoða nýklakta skjaldbökuunga við komast heila á húfi úr hreiðri sínu til sjávar.

Sæskjaldbökur eru þó langt því frá einu dýrin sem hlýnandi loftslag kemur til með að hafa áhrif á í framtíðinni. Þær eru aftur á móti einn fárra dýrahópa sem nýtur verndar frá mannfólkinu. Aðrar tegundir skriðdýra, til dæmis krókódílar og sumar eðlutegundir, hafa svipað kynákvörðunarferli þó við þekkjum að svo stöddu ekki jafn vel hvort eða hvernig hlýnandi lofslag kemur til með að hafa áhrif á þær.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.