Fyrir lítil dýr geta náttúruleg fyrirbæri á borð við fossa og jafnvel regn verið stór hindrun. Þrátt fyrir það er vel þekkt að nokkrir flokkar fugla, til dæmis fuglar af svöluætt, byggja sér stundum hreiður á bakvið litla fossa.

Í grein sem birtist fyrr í mánuðinum í tímaritinu Royal Society Open Science, er fjallað um rannsókn sem varpar ljósi á það hvernig litlir fuglar og skordýr fljúga í gegnum fossa. Niðurstöðurnar komu rannsóknarhópnum töluvert á óvart.

Með annan vænginn á undan

Til að komast að því hvaða aðferð litlir fuglar nota til að komast í gegnum fossa útbjó rannsóknarhópurinn gervifoss á tilraunastofu sinni. Vísindamennirnir tóku síðan upp á myndband þegar kólibrífuglar af tegundinni Calypte anna flugu í gegnum hann. Kólibrífuglar voru valdir vegna þess að þeir hafa fundist á bakvið litla fossa og vegna þess að þeir eru nokkuð skyldir fuglum af svöluætt sem þekktir eru fyrir það að byggja hreiður á bakvið fossa.

Það kom rannsóknarhópnum töluvert á óvart hvaða tækni fuglarnir notuðu til að fljúga í gegnum fossinn. Búist var við því að aðferðin myndi líkjast því sem við þekkjum þegar fuglar kafa og steypa sér niður með gogginn fyrst. Þetta var þvert á það sem reyndist rétt.

Fuglarnir notuðu annan vænginn til að gera „gat“ á fossinn og flugu í gegnum hann á hlið. Allt ferlið tók minna en 100 millísekúndur. Þrír af fjórum fuglum í tilrauninni notuðu þessa aðferð á meðan sá fjórði fór með gogginn fyrst.

Uppdata af kólibrífugli fljúga í gegnum foss.
Mynd: Victor Ortega-Jimenez et al, R. Soc. Open Sci., 2020

Erfitt verkefni fyrir skordýr

Hópurinn prófaði einnig nokkrar tegundir fljúgandi skordýra með misjöfnum árangri. Sumar tegundir komust áfallalaust í gegnum fossinn á meðan öðrum tókst það ekki og féllu niður fossinn.

Meðal tegunda sem komust í gegnum fossin voru húsflugur (Musca domestica) og þurftu þær að fljúga á 1.6 m/s til að verða fossinum ekki að bráð.

Hugsanleg vörn gegn rándýrum og snýkjudýrum

Niðurðstaða rannsóknarhópsins var sú að dýr sem smærri eru en kólibrífuglar þurfi að treysta á hraða til að komast í gegnum fossa. Þau dýr sem stærri eru geti aftur á móti geti nýtt skriðþunga í meiri mæli.

Þannig geti fossar verið ófærir ýmsum smáum fljúgandi dýrum á meðan þau sem komast bakvið fossana geti nýtt þá til að fela sig fyrir rándýrum sem og hugsanlega til að forðast snýkjudýr sem eiga ekki jafn greiða leið í gegnum fossinn.