coral_reef

Kóralrifið mikla, eða The Great Barrier Reef, sem staðsett er norður af Queensland, Ástralíu, hefur lengi barist við afleiðingar hlýnunar jarðar. Rifið hefur verið undir smásjá vísindamanna og árið 2015 var áætlun hrint í framkvæmd af áströlskum yfirvöldum sem miðaði að því að bjarga rifinu og öllu lífkerfi þess. Því miður virðist þessi metnaðarfulla áætlun ekki ætla fram að ganga.

Samkvæmt sérfræðingum áætlunarinnar er óraunhæft að stefna á að bjarga rifinu. Nú þarf að líta á allar aðgerðir sem björgunaraðgerðir og bjarga því sem bjargað verður. Rifið hefur undanfarið lent í hverju hvíttunar-atvikinu á fætur öðru, en slík atvik eiga sér stað þegar lífverur innan rifsins lenda í miklu stressi, eins og t.d. hækkun hitastigs eða breytingu á seltu svo dæmi séu tekin.

Þessi tíðu hvíttunar-atvik hafa sannfært vísindamenn um að ef raunverulega á að ná árangri við verndun rifsins þarf að beita kröftunum í að standa vörð um líffræðilegt hlutverk rifsins í lífkeðju hafsins. Líffræðilegt hlutverk rifsins er að viðhalda þeim ótal tegundum sem í því, og allt um kring, lifa. Kóralrifið mun kannski ekki viðhalda öllum sínum líffræðilega fjölbreytileika en hlutverk þess við að viðhalda aðstæðum á svæðinu verður haldið á lofti.

Sérfræðingar áætlunarinnar benda á að í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar var lítil áhersla lögð á að sporna við hlýnun jarðar og losun gróðurhúsalofttegunda. Hnignun kóralrifja, alls staðar í heiminum, mun því miður halda áfram meðan jörðin heldur áfram að hlýna.

Það má því segja að við séum komin á ákveðinn vendipunkt í baráttunni gegn hlýnun jarðar með þessari ákvörðun ástralskra yfirvalda og vísindamanna. Þegar björgunaráætlanir snúast ekki lengur um að bjarga vistkerfinu heldur einungis að reyna að takmarka skaðann erum við stödd á tímapunkti sem kallast á slæmri íslensku „the point of no return“.

Enn of aftur erum við minnt á hversu ótrúlega mikilvægt það er fyrir alla að taka höndum saman við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og sporna við hlýnun jarðar með öllum ráðum. Vonandi verður þetta skref sem stíga á í Ástralíu eini „point of no return“ í aðgerðum okkar gegn hlýnun jarðar.