Kynákvörðun sæskjaldbaka er töluvert frábrugðin því sem við mannfólkið eigum að venjast. Kyn sæskjaldbaka er nefnilega ekki ákvarðað út frá kynlitningum, líkt og í okkur mönnum, heldur út frá hitastiginu í umhverfi eggsins.

Við 29,3 gráður verður kynákvörðunin nokkuð jöfn. Fari hitastigið nokkrum gráðum ofar verða afkvæmin kvenkyns en karlkyns fari það nokkrum gráðum neðar.

Hlýnandi loftslag í hefur þegar farið að valda sæskjalbökum af tegundinni Chelonia mydas vandræðum. Samkvæmt grein sem birtist í tímaritinu Current Biology í vikunni eru skjaldbökur sem klekjast út á eyjunni Raine Island við norðurströnd Ástralíu 99% kvenkyns.

Til styttri tíma litið þarf þessi mikli halli á karlkynið ekki endilega að vera neikvæður. Ef kvendýrunum tekst að finna karldýr til að frjóvga egg sín gæti skjaldbökunum jafnvel fjölgað tímabundið. Karldýrin æxlast oftar en kvendýrin svo ekki er nauðsynlegt að kynjahlutföllin séu rétt til að halda stofninum gangandi.

Þrátt fyrir það hafa vísindamenn áhyggjur af þróuninni og er ljóst að óvenjuhátt hitastig á svæðinu er sökudólgurinn. Ef þróunin heldur áfram á sömu braut er ekki ólíklegt að þessi gríðarlega skekktu hlutföll komi til með að hafa neikvæðar afleiðingar fyrir stofninn á Raine Island. Vísindamenn sem rannsaka aðra stofna hafa svipaða sögu að segja svo ólíklegt er að stofninn á Rain Island sé einsdæmi.

Góðu fréttirnar eru þær að ekki er ómögulegt að grípa inn í þessa þróun. Höfundar greinarinnar benda á að til dæmis sé hægt að skyggja á svæði þar sem vitað er að hreiður sæskjaldbaka er að finna eða hella vatni á hreiðrin til að kæla þau. Slíkar lausnir eru þó háðar inngripum mannfólks sem reynt er að forðast nema þegar nauðsyn krefur.