Einn alvarlegasti lýðheilsuvandi sem mannkynið glímir við er vaxandi tíðni sýklalyfjaónæmis. Vandinn einskorðast þó síður en svo við mannfólk heldur hefur hann einnig áhrif á aðrar tegundir dýra. Rannsóknir á sýklalyfjaónæmum bakteríum í villtum höfrungum sýna nú fram á að vandinn fer vaxandi í lífverum hafsins samhliða því sem eykst í samfélögum manna.

Fjöldi dauðsfalla ár hvert

Sýklalyfjaónæmi kallast það þegar sýkjandi bakteríur þróa með sér þol gegn sýklalyfjum sem áður virkuðu gegn þeim. Röng eða óþörf notkun á sýklalyfjum getur orðið til þess að ýta undir það að bakteríum takist að þróa með sér ónæmi. 

Sýklalyfjaónæmum bakteríum hefur farið hratt fjölgandi á undaförnum árum. Þetta hefur orðið til þess að bakteríusýkingar sem áður var einfalt að meðhöndla geta leitt til alvarlegra sýkinga og jafnvel dauða þess sem sýkist. Þetta á til dæmis við um bakteríur sem valda þvagfærasýkingum og eru dæmi þess að fólk hafi látið lífið af þeim völdum.

Í Bandaríkjunum einum saman smitast í það minnsta tvær milljónir einstaklinga af sýklalyfjaónæmum bakteríum ár hvert. Þar af láta að minnsta kosti 23.000 einstaklingar lífið af völdum sýkingarinnar. 

Vandinn er því afar brýnn og er unnið hörðum höndum að því að finna ný sýklalyf sem og nýjar leiðir til að meðhöndla bakteríusýkingar. Á meðan þetta kapphlaup fer fram fer vandinn hratt vaxandi og breiðist auk þess út í náttúruna, þar með talið í vistkerfi hafsins.

Langtímarannsókn sýnir fram á þróun sýklalyfjaónæmis í hafinu

Rannsóknir sem snúa að sýklalyfjaónæmi í höfum heimsins eru ekki á hverju strái. Í það minnsta einn rannsóknarhópur hefur þó framkvæmt langtímarannsóknir á því sviði.

Vísindamenn við Florida Atlantic University, Georgia Aquarium, Medical University of South Carilina og Colorado State University hafa frá árinu 2003 rannsakað sýklalyfjaónæmar bakteríur í höfrungum af tegundinni Tursiops truncatur, á afmörkuðu svæði í Flórída. Um er að ræða stofn sem lifir í lóni sem umkringt er samfélögum mannfólks og verður því fyrir tilheyrandi áhrifum vegna þess.

Árið 2009 tilkynnti rannsóknarhópurinn niðurstöður þess efnis að höfrungarnir á svæðinu höfðu háa tíðni af sýklalyfjaónæmi. Nú, 10 árum seinna, birti hópurinn grein í tímarinu Aquatic Mammals þess efnis að vandinn hafi síðan þá vaxið.

Vandinn vaxið samhliða vandanum hjá mannkyninu

Frá árinu 2009 hefur rannsóknarhópurinn fylgst með breytingum á sýklalyfjaónæmi stofnsins. Þær rannsóknir hafa leitt í ljós að sýklalyfjaónæmi hefur farið vaxandi samhliða því sem vandinn hefur vaxið hjá mannfólki.

Niðurstöðurnar byggja að gögnum sem safnað var á 13 ára tímabili. Vísindamennirnir söfnuðu 733 einangruðum sýklum frá 171 höfrungi. Þar af voru nokkrir sýklar sem einnig sýkja mannfólk.

Algengi ónæmis var hæst fyrir sýklalyfið erythromycine (91.6%). Þar á eftir kom sýklalyfið ampicillin (77.3%) og síðan cephalothin (61.7%). Ónæmi geng sýklalyfinu ciproflaxin meðal E. coli baktería rúmlega tvöfaldaðist á milli sýnatökutímabila.

Ónæmi reyndist einnig hafa vaxið hjá bakteríunum P. Aeruginosa og Vibrio alginolyticus sem þekkt er eru fyrir það að geta valdið alvarlegum matareitrunum. Allar bakteríur sem einagraðar voru í sýnatökunum sýndu aukið ónæmi gegn lyfjunum cefotaxime, ceftazidime og gentamicin.

Víðtækur vandi

Það er vel þekkt að sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál meðal húsdýra í þeim löndum þar sem þeim eru gefin sýklalyf að staðaldri, þrátt fyrir að engin sýking sé til staðar. Sýklalyfjaónæmi hefur einni mælst í fiskum, sér í lagi í eldisfiskum. 

Vandinn er vafalaust útbreiddari en við gerum okkur grein fyrir í dag. Niðurstöður sem þessar minna okkur á að aðgerðir okkar hafa ekki aðeins afleiðingar fyrir lýðheilsu okkar heldur einnig heilbrigði annara tegunda, hvort sem það eru dýr sem við nýtum okkur til manneldis eða villtir dýrastofnar.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.