Á tímum faraldra er lítið um fréttir af hamfarahlýnun eða plastmengun. Þessar umhverfisógnir hafa þó ekki tekið sér veirufrí og herja ennþá á okkur með sama krafti, þó við verðum kannski minna vör við það í fjölmiðlum þessa dagana. Það er svo sem í lagi, enda ekki beint á neikvæðu fréttirnar bætandi. En þá er líka svo skemmtilegt þegar einhverjar jákvæðar fréttir berast af þessu sviði. Það er einmitt ein slík frétt sem fer hér á eftir og því mælum við með að þú haldir lestrinum áfram.

Byrjum á byrjuninni, hvað er plast? Við þessu er ekki beint einfalt svar því plast er samheiti yfir margar efnasamsetningar sem hafa svipaða eiginleika og eru búin til úr löngum fjölliðum, plasteiningum. Til eru margar gerðir af plasti, og ein þeirra PET (Polyeþýlenterefþalat) er það efni sem er notað til að búa til alls konar plast vörur eins og gosflöskur.

PET er vinsælt plast og er gjarnan uppistaðan í einnota plastvörum, sem flestir hafa vonandi reynt að hætta að nota. Það er þó þannig að oft er erfitt að hætta að nota plast og þá ríður á að flokka rétt og koma plastinu í endurvinnslu. En endurvinnslan er líka annmörkum háð og til að ná plastinu niður í plasteiningarnar, fjölliðurnar, þarf oft mikinn hita og mikla orku. Þar kemur líftæknin við sögu.

Í lok síðasta mánaðar birtist grein í PNAS þar sem plast-étandi bakteríu er lýst. Það er kannski ofsögum sagt að tala um plastétandi bakteríu, en með niðurstöðunum sem birtar voru í PNAS erum við a góðri leið með að finna lífveru sem getur notað plast sem kolefnisgjafa. Bakterían Ideonella sakaiensis geymir í erfðaefni sínu uppskriftina að ensími sem kallast PETase. Það er ensím sem getur klippt PET í smærri einingar.

Þegar PETasinn er að störfum klippir hann PET niður í einingar sem heita MHET, Mono-2-Hýdroxýeþýlterefþalat. Það vill svo skemmtilega til að til er ensím sem kallast MHETasi. Þetta ensím vinnur einmitt við að klippa í MHET í ennþá smærri einingar, þ.e. eþýlglycol og terefthalic sýru.

Með því að skeyta þessum tveimur ensímum saman verður til tæki sem getur brotið PET niður í mjög litlar sameindir á skilvirkan hátt. En það er einmitt slíkri vinnu sem er lýst í grein breskra og bandarískra vísindamanna sem birtist í PNAS.

Með þessu samsetta ensími hafa vísindahóparnir opnað á möguleikann á mun skilvirkari endurvinnslu á PET plastefni. Þar að auki gefur þetta nýja ensím vonir um bakteríu sem í raun og veru gæti nýtt sér plast sem kolefnisgjafa.

Það má því með sanni segja að þetta séu mjög góðar fréttir. Ekki bara getur þessi tækni hjálpað okkur að minnka þörfina fyrir nýtt plast, þar sem við getum endurunnið plastið betur. Heldur er hér einnig farið að glitta í tækni sem hægt er að nota til að losa okkur við alla þá plastmengun sem nú þegar plagar jörðina okkar.