Uppsöfnun plasts í heiminum hefur varla farið fram hjá nokkru mannsbarni. Vegna ofnotkunar og misnotkunar mannfólksins á þessu undraefni sem plastið er, hefur náttúran ekki undan að losa sig við plastruslið sem fellur til frá okkur.

Plast í sjónum

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á tilvist plasts í sjónum. Svo útbreitt er vandamálið að örplast finnst jafnvel í djúpálum, sem eru dýpstu hafsvæði heimsins. Rannsóknir á áhrifum plastsins í sjónum benda til þess að sjávarlífverur innbyrgða heilmikið magn af plastögnum.

Át lítilla lífvera á plasti hefur aðsjálfsögðu áhrif á okkur mannfólkið líka, þó okkur þyki oft gott að hugsa um vandamálin sem eitthvað sem hentir einungis aðra. Þegar dýr neðarlega í lífkeðjunni borða plast, sér í lagi agnir sem eru nægilega litlar til að fara innfyrir meltingarveginn, á plastið sér greiða leið ofar í fæðukeðjuna.

Hvaða áhrif það hefur á lífverur að borða plast er ekki að fullu skilgreint en ljóst er að hversu lítið magn sem það er þá hlýtur það að teljast óæskilegt. Í besta falli getur plastát haft áhrif á meltingu lífverunnar það skiptið.

Niðurbrot plasts.

Plast og plastagnir í sjó hafa mikið verið rannsakaðar en hvar annars staðar getur plastið leynst? Plast sem fellur til í náttúrunni, þ.e. endar í umhverfinu hvort sem er á landi eða í sjó brotnar tiltölulega hratt niður í minni einingar.

Þó niðurbrot plasts taki langan tíma eru veður, vindar, sjávarföll og ekki síst sólarljós áhrifarík leið til að búa til litlar plastagnir, sem eru svo einstaklega lengi að brotna niður. Þessar plastagnir sem oftast er talað um sem örplast sjást illa með berum augum eða greinast illa sem plastagnir, sér í lagi í sjó.

Plastagnir teljast sem örplast þegar þær eru 5 mm á þvermál eða minni. Það þýðir að agnirnar eru ekki bara illsjáanlegar, margar þeirra eru líka mjög léttar. Þyngd þeirra er kannski ekki ósvipuð vigt gróa sem plöntur búa til í þeim tilgangi að fjölga sér.

Rannsóknir benda til þess að gró geta ferðast ansi langa leið frá heimkynnum sínum ef veður og vindar leyfa. Sem dæmi má nefna að gró sem myndast í loftslagi við miðbaug hafa fundist í andrúmslofti við heimsskautin.

Plast í snjó

Til að skoða hvort örplast ferðast jafn auðveldlega um heiminn og gró stóð rannsóknarhópur við Alfred Wegener Institut fyrir því að greina plastagnir í snjólögum víðsvegar um heiminn. Í rannsókninni var sérstaklega leitað að örplasti, þ.e. plastögnum sem eru minni en 5 mm. En minnstu agnir sem hægt var að greina í rannsókninni voru 11 µm.

Snjó var safnað við Framsund, sem liggur milli Grænlands og Svalbarða, Svissnesku ölpunum, og í Bremen, borg í Þýskalandi. Sýnatökustaðirnir eru allir misjafnir hvað varðar nálægð við mannabyggðir og þar af leiðandi uppruna plastmengunar.

Langt ferðalag plastsins.

Magn plastagna á lítra af snjó var mest í sýnunum sem safnað var í Bremen. Það kemur ekki á óvart enda er þar um að ræða byggða borg. En þrátt fyrir fjarlægð við byggð ból mældist þó nokkuð magn af plasti í snjólögum við Framsund.

Sýnum sem safnað var í Framsundi innihéldu að meðaltali mun minni plastagnir en þær sem safnað var í Svissnesku ölpunum eða Bremen. Stærð plastagnanna gefur til kynna að meira niðurbrotið plast á auðveldara með að ferðast langar leiðir.

Út frá þessum niðurstöðum  má einnig leiða að því líkur að mun meira örplast sé að finna við Framsund, agnirnar eru bara of litlar til að greina þær.

Minni notkun, aukin endurnýting og endurvinnsla

Niðurstöður þessarar rannsóknar sem og fjölda annarra sem hafa sýnt fram á magn plastagna í sjó, ýta vonandi enn frekar við okkur að minnka óþarfa plastnotkun og koma plastrusli á rétta staði í endurvinnslu en ekki útí umhverfið.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.